Fréttir

Ráðgjöf á sviði rekstrar og áætlanagerðar - Akureyri

Mikill áhugi hefur verið fyrir ráðgjöf tengdri rekstri í landbúnaði. Fimmtudaginn 12. febrúar verður Runólfur Sigursveinsson fagstjóri rekstrar og nýsköpunar hjá RML á skrifstofunni hjá Búgarði að Óseyri 2 á Akureyri. Þeir sem óska eftir ráðgjöf á ofangreindu sviði á svæðinu eru hvattir til að hafa samband.
Lesa meira

Bjarni Árnason kominn til starfa

Bjarni Árnason hefur hafið störf hjá RML og mun hann starfa við ráðgjöf tengda bútækni og aðbúnaði. Hann mun hafa aðsetur á skrifstofu RML á Hvanneyri. Hægt er að ná í Bjarna í síma 516-5065 eða í gegnum netfangið bjarni@rml.is.
Lesa meira

Niðurstöður skýrsluhalds í sauðfjárrækt 2014

Uppgjöri skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir árið 2014 er að mestu lokið en þessa dagana er verið að ganga frá skráningum á „eftirlegukindum“ sem víða leynast. Reiknaðar afurðir eftir hverja kind eru umtalsvert meiri en fyrir ári síðan eða sem nemur tæpu kílói. Þar munar mestu um hagstætt tíðarfar um norðausturhluta landsins en þar féllu víða vænleikamet síðasta haust. Jafnframt liggur munurinn að einhverju leyti í betri lambahöldum en skv. skýrsluhaldinu komu fleiri lömb til nytja á nýliðnu ári, 2014, en árið 2013 og frjósemi var sú sama og fyrra árið. Líkt og undanfarin ár eru nú birtir listar yfir þau bú í skýrsluhaldinu, þar sem góður árangur náðist. Nánari grein verður gerð fyrir niðurstöðum ársins í Bændablaðinu í mars.
Lesa meira

Áætlun fyrir kynbótasýningar 2015 - Fjórðungsmót og fleira

Nú er sýningaráætlunin fyrir kynbótasýningar á Íslandi árið 2015 komin hér á vef RML undir Búfjárrækt/Hrossarækt/Kynbótasýningar. Fjórðungsmót verður haldið á Austurlandi í ár og fagráð í hrossarækt er búið að ákveða einkunnalágmörk fyrir kynbótahross á mótið. Líkt og fyrir Landsmót á síðasta ári verða mismunandi lágmörk fyrir alhliða hross og klárhross.
Lesa meira

Afkvæmarannsóknir á hrútum haustið 2014

Á tveim síðustu áratugum hafa orðið undraverðar framfarir í kjötgæðum hjá íslensku sauðfé, öðru fremur vegna markviss ræktunarstarfs á því sviði. Við upphaf þessa tímabils komu tvö feikilega mikilvirk tæki til notkunar, fyrst ómsjáin 1990 og síðan EUROP-kjötmatið 1998. Þegar breytingin á kjötmatinu kom þá bárum við gæfu til að sameina afurðir þessara tveggja verkfæra í eitt vopn, afkvæmarannsóknir tengdar kjötgæðum hrúta. Viðbrögð bænda við þessum breytingum urðu mjög jákvæðar og fjölmargir þeirra tóku strax þátt í þessu starfi. Þarna byggðum við á eldri grunni frá traustu skýrsluhaldi og dreifðum afkvæmarannsóknum sem áður hafði verið unnið að um áratuga skeið.
Lesa meira

Framleiðsluaukning síðasta árs borin uppi af fjölgun kúa

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir árið 2014 hafa nú verið birtar og ekki hægt að segja annað en að þær beri nokkurn keim af þeim framleiðsluaðstæðum sem kúabændur búa nú við. Á síðasta ári jókst mjólkurframleiðsla á landinu um 8,6% milli ára og nam samtals 133,5 milljónum lítra sem er mesta innvigtun á einu ári um áratuga skeið. Á yfirstandandi ári er ljóst að gera þarf enn betur en greiðslumark mjólkur nemur nú 140 milljónum llíta sem er nærri 5% meira en framleiðsla síðasta árs. Í árslok var framleidd mjólk til sölu í 629 fjósum og meðalinnlegg á bú með innlegg allt árið nam 213.489 lítrum. Til þess að ná 140 milljóna lítra innleggi verða þessi 629 bú að framleiða 222.576 lítra að meðaltali eða 4,3% meira en meðalbúið framleiddi á síðasta ári. Það er í sjálfu sér ekki auðvelt ef aukning síðustu ára er höfð í huga en alls ekki ómögulegt.
Lesa meira

Búseta í sveit

Búseta í sveit heitir verkefni sem hefur verið unnið hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins undanfarið ár. Verkefnið er í umsjá Guðnýjar Harðardóttur og var unnið með styrkveitingu frá Framleiðnisjóði Landbúnaðarins. Vegna ályktunar frá Búnaðarþingi 2013 sem var í þá veru að efla skyldi ráðgjöf varðandi ábúendaskipti á bújörðum var ráðist í þetta verkefni. Meginmarkmið verkefnisins var að þróa ráðgjöf vegna ættliðaskipta og upphafs búrekstrar.
Lesa meira

Ársuppgjör - niðurstöður skýrsluhaldsársins í mjólkurframleiðslunni 2014

Niðurstöður skýrsluhaldsársins í mjólkurframleiðslunni 2014 hafa verið reiknaðar og birtar á vef okkar. Þeir framleiðendur sem skiluðu afurðaupplýsingum á árinu voru 579 en á síðasta ári voru þeir 584. Virkir skýrsluhaldarar voru 575 við lok ársins 2014 og skýrsluskil voru 99% þegar gögnin voru tekin út á síðastliðnu miðnætti, aðfaranótt 23.janúar. Niðurstöðurnar eru þær helstar að 23.861,3 árskýr skiluðu 5.721 kg nyt að meðaltali.
Lesa meira

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins auglýsir starf garðyrkjuráðunautar

Garðyrkjuráðunautur veitir alhliða og markvissa ráðgjöf í garðyrkju og ylrækt með það að markmiði að stuðla að aukinni framleiðni, hagkvæmni og eflingu þessarar mikilvægu greinar landbúnaðarins. Við leitum eftir einstaklingi sem hefur mikinn áhuga á garðyrkju og er tilbúinn til þess að setja sig vel inn í starfsumhverfi greinarinnar
Lesa meira

Opið hús hjá starfsstöð RML á Hvanneyri

Nú stendur yfir opið hús hjá RML á starfsstöðinni á Hvanneyri, að Hvanneyrargötu 3. Í húsinu eru ásamt RML sex önnur fyrirtæki eða stofnanir, Búnaðarsamtök Vesturlands, Matvælastofnun, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, Vesturlandsskógar, Landgræðsla ríkisins og Skorradalshreppur.
Lesa meira