Kynbótamat sauðfjár

Kynbótamat (BLUP)
Kynbótamat er reiknað út frá upplýsingum úr skýrsluhaldi, í því felst mat á kynbótagildi gripanna þ.e. hverju þeir eru líklegir til að skila til afkvæma sinna. Í sauðfjárrækt er reiknað kynbótamat fyrir gerð og fitu sláturlamba, ómvöðva og ómfitu úr lambadómum, fallþunga og lífþunga haustlamba, ásamt frjósemi og mjólkurlagni áa. Kynbótamatið er staðlað þannig að meðaltal síðustu 10 árganga er 100.

Gerð, fita og ómvöðvi
Ómvöðva (ÓMV) - og ómfitu (ÓMF) mælingar úr lambaskoðunum, sem byggja á bakvöðvamælingu og fitu yfir bakvöðva, eru keyrðir sem tengdir eiginleikar saman í mati með GERÐ og FITU sláturlamba. Með því eykst öryggi kynbótamatins fyrir slátureiginleikana og það lagar bjögun á gerðarmati hrúta sem mikið er sett á undan. Í líkönum fyrir GERÐ, FITU, ÓMV og ÓMF er leiðrétt fyrir þungaflokki, kyni, búi og ári.

Fallþungi
Fallþunga- og lífþungamælingar haustlamba eru keyrðar saman í kynbótamati sem tengdir eiginleikar. Einkunnir fyrir þunga skiptast svo niður í einkunnir fyrir bein áhrif og mæðraáhrif. Einkunnir fyrir bein áhrif eiga að vera mat á vaxtargetu lambanna sjálfra. Einkunnir fyrir mæðraáhrif eiga að vera mat á afurðasemi áa/dætra. Í líkönum fyrir þunga er leiðrétt fyrir kyni, burði lamba, fjölda lamba sem gengu með móður, aldri móður, búi, ári og aldri lamba við vigtun/slátrun.

Mjólkurlagni og frjósemi
Upplýsingar um afurðastig og fædd lömb fyrstu fjögur afurðaár áa er notað til að reikna mat fyrir mjólkurlagni og frjósemi. Í samsettri einkunn fyrir mjólkurlagni hefur hvert ár jafnt vægi (25%). Í samsettri einkunn fyrir frjósemi er vægi hvers árs breytilegt, vægi 1 vetra er 10%, vægi 2 vetra er 60%, vægi 3 og 4 vetra er 15% hvort ár.

Heildareinkunn kynbótamats
Gerð 25%
Fita 5%
Fallþungi bein áhrif 20%
Fallþungi mæðraáhrif 20%
Frjósemi 30%


Frétt um kynbótamat fyrir nýja eiginleika og nýja heildareinkunn frá því í mars 2023:
Fréttin vægisbreytingar og fjölgun eiginleika

ÞÞ/HH