Beiðslisgreining og eftirlit

Til þess að hámarka afrakstur kúnna reyna flestir kúabændur að láta kýrnar bera einu sinni á ári. Þetta þýðir að kýrnar þurfa að festa fang u.þ.b. 85 dögum eftir burð. Erfiðleikar við beiðslisgreiningu valda því að þetta markmið næst ekki á mörgum kúabúum.
Kýr beiða með 17-24 daga millibili en að jafnaði líður 21 dagur milli beiðsla. Skipta má beiðslinu í þrjá fasa.

Forbeiðsli
Forbeiðsli stendur í 1-3 daga. Mjög erfitt getur verið að greina nokkur beiðsliseinkenni meðan á forbeiðsli stendur, sérstaklega á veturna þegar sólargangur er stystur. Stundum geta einkennin verið mjög greinileg og erfitt að gera sér grein fyrir hvort kýrin sé komin í hábeiðsli. Það er þó mikilvægt að greina þar á milli og ræður hvað mestu um hvort kýrin muni halda við sæðingunni eða ekki. Alltof algengt er að kýr séu sæddar á forbeiðsli.
Kýrnar verða eirðarlausar og vakandi fyrir umhverfi sínu. Þær leita eftir snertingu við aðra gripi, hnusa af og sleikja kýr/gripi sem þær ná til. Síðustu klukkustundirnar fyrir hábeiðsli sýna kýrnar enn greinilegri einkenni. Þær stökkva á aðra gripi, hvíla hausinn ofan á þeim og lykta af skeið annarra gripa.
Skeiðin og skeiðarbarmarnir verða rakir, rauðleitir og þrútnir. Gráleitt slím getur lekið frá skeiðinni þó svo það geti einnig verið glærleitt.

 

Hábeiðsli
Smám saman færist kýrin yfir í hábeiðsli og einkenni aukast. Ef þú sérð kúna standa undir öðrum kúm er hún tvímælalaust komin í hábeiðsli. Önnur mikilvæg einkenni eru riðl, hvíla hausinn á öðrum gripum, lykta af skeið annarra gripa, minni nyt og minni átlyst.
Kýr í hábeiðsli eru eirðarlausar og vakandi. Þær baula jafnvel og standa oft meðan aðrar kýr liggja. Ef hryggurinn eða malirnar eru snertar sveigja þær oft bakið niður. Sumir gripir sveigja bakið upp og niður og lyfta halanum. Útferð frá skeiðinni er oftast glær, löng og loðir við hala og fætur (hækla).
Við lok hábeiðslis koma fram loftbólur í slíminu. Skeiðin er áfram rök og rauðleit og barmarnir þrútnir.

 

Síðbeiðsli
Smám saman minnka öll einkenni. Áfram getur þó komið seigt, gljáandi slím frá skeiðinni og við lok beiðslis kemur gjarnan blóð fram í slíminu. Skeiðarbarmarnir dragast saman og verða fölir. Töluvert blóð getur lekið frá skeiðinni 1-2 dögum eftir lok hábeiðslis.
Nýtt beiðsli hefst svo 17-20 dögum eftir að blóð kemur frá kúnni.

 

Beiðslisgreinig

  • Góður árangur útheimtir öguð og vönduð vinnubrögð við beiðlisgreiningu. Nákvæmar tímasetningar, reglusemi og góðir verkferlar tryggja besta mögulegan árangur.
  • Mjög gott er að notast við hjálpartæki eins og; veggtöflur, gangmáladagatal og glósubók eða dagbók þar sem skráðar eru allar athugasemdir eða atburðir viðkomandi gangmálum gripanna.
  • Beiðslisgreiningu þarf að framkvæma reglulega á öllum kúm og kvígum.
  • Þó að ekki eigi að sæða viðkomandi grip á yfirstandandi eða næsta beiðsli er mikilvægt að skrá dagsetningar og lengd beiðslis með athugasemdum um einkenni, s.s. útferð og blæðingu að loknu beiðsli.
  • Ef eitthvað óeðlilegt kemur upp á tvímælalaust að kalla til dýralækni. Góð þumalfingursregla er að hafi gripurinn ekki beitt eðlilega innan 60 daga frá burði, að kalla til dýralækni til að skoða gripinn.
  • Líta skal eftir beiðslum a.m.k. tvisvar sinnum á dag, að morgni og síðdegis. Þá getur verið gott að líta eftir beiðsli miðdegis og ekki síst síðla kvölds þegar mest ró er yfir hjörðinni.
  • Ef litið er eftir beiðslum þegar gripirnir eru að éta eða við mjaltir er mikil hætta á að manni yfirsjáist beiðsliseinkenni. Útferð er t.d. best að greina þegar gripirnir liggja.

Vinnið samkvæmt ákveðnu ferli

  1. Stoppið í fjósdyrunum eða á öðrum fyrirfram ákveðnum stöðum þar sem góð yfirsýn næst. Fylgist með öllum gripunum:
    1. Lítið eftir breyttu hegðunarmynstri.
    2. Standa einhverjir gripir meðan aðrir liggja?
    3. Fanga einhverjir athygli þína umfram aðra?
    4. Taktu vel eftir hvort að einhverjir gripa leggjast á undan öðrum eða standa lengur en hinir eftir gjafir eða mjaltir.
    5. Í lausagöngu er rétt að líta eftir hvort einhverjir gripir eru órólegir. Er einhver hópur gripa órólegri en aðrir?
  2. Beinið sérstakri athygli að gripum sem sýndu einkenni fyrir 3 eða 6 vikum.
  3. Skoðið vandlega gripi sem á að sæða. Athugið roða á skeiðarbörmum og lítið eftir útferð – kannið vandlega hvort slím sést á hala og fótum (hæklum). Horfið eftir slímslettum á næstu gripum.
  4. Kannið viðbrögð gripsins (gripanna) við léttri snertingu á baki/malir.
  5. Athugið hvort greina má merki um riðl þegar gripirnir eru á beit.
  6. Skoðið eldri glósur um gripina og takið niður nýjar. Notið gangmáladagatalið óspart.

Tímasetning sæðingar
Það tekur legið ákveðin tíma að hreinsa sig og ná eðlilegri stærð eftir burð. Ef sætt er of snemma eftir burð er hætt við að gripirnir festi ekki fang. Mælt er með að byrja ekki að sæða fyrr en 6 vikum eftir burð.



Hvenær dagsins er best að sæða?

  1. Gripi sem eru að beiða að kvöldi á að sæða snemma næsta dag.
  2. Grip sem eru að beiða snemma morguns á að sæða samdægurs og þá með Spermvital-sæði.
  3. Gripi sem byrja að beiða eftir morgunmjaltir á að sæða næsta dag.

Sæðingaaðstaða
Læti, stress og eltingaleikur hefur neikvæð áhrif á frjósemina. Frjótæknirinn á að geta gengið að gripum sem á að sæða og ekki þurfa að handsama þá.

  • Kýr og kvígur sem eru í lausagöngu á að vera auðvelt að handsama.
  • Best er að aðstoðarmaður sé til staðar við sæðingu en að öðrum kosti þarf að vera auðvelt að festa gripina án aðstoðar.
  • Séu gripirnir sæddir í stíum þarf að vera hægt að þrengja að gripunum þannig að frjótæknirinn geti sætt án örðugleika.
  • Hafið allar upplýsingar tiltækar fyrir frjótækninn, eyrnamerki grips, hvaða naut á að nota, sæðingaspjaldið á vísum stað o.s.frv.
  • Lítið borð eða púlt til að skrifa á og leggja frá sér hluti er sjálfsagt.
  • Aðstaða til hand- og stígvélaþvotta þarf að vera til staðar.

Notið gangmáladagatalið!

Heimild og myndir: Brunst og brunstkontroll. Útgefandi: Geno, Storhamargata 44, 2317, Hamar, Noregi. www.geno.no