Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Sauðkindin er grasbítur og jórturdýr. Eins og önnur jórturdýr sækir hún næringu í efnaflokkana kolvetni, prótein og fitu en þarf einnig vatn, stein- og snefilefni og vítamín. Með hjálpa örvera í meltingarvegi nær sauðkindin öllum lífsnauðsynlegum næringarefnum úr plöntum til að knýja efnaskiptaferla sína. Tegundir plantna henta misvel til að afla nauðsynlegra næringarefna og þroskastig plantna hefur einnig mikil áhrif á næringargildi þeirra.
Við mat á fóðurþörfum er í fyrsta lagi horft til þarfa kindarinnar fyrir orku og prótein en síðan einnig til þarfa fyrir einstök steinefni. Orka í fóðri fyrir jórturdýr er metin í mjólkurfóðureiningum FEm og orkuþarfir þeirra í sömu einingu. Þörf jórturdýra fyrir prótein er metin í grömmum af AAT á dag en AAT er heildarmagn af próteini sem skilar sér frá meltingarfærum yfir í efniskipti dýrsins. Prótein í fóðri er metið í þessum sama mælikvarða.
Næringarþarfir sauðkindarinnar eru breytilegar og þar hafa þættir eins og aldur og afurðaálag mikil áhrif. Grunnþörf fyrir næringu er þó alltaf til staðar og kallast viðhaldsþörf. Viðhaldsþörf er breytileg eftir þunga einstakra gripa. Kindin getur ekki étið ótakmarkað magn af fóðri til að uppfylla næringarþarfir sínar og átgeta er því einn þeirra þátta sem þarf að átta sig á við fóðrun sauðfjár. Átgeta er háð fóðurgæðum en einnig aldri, stærð og stöðu kindar í framleiðsluferlinum.
Fóðrun áa er gjarnan skipt í fjögur megintímabil;
a) Haustfóðrun og fengieldi
b) Miðsvetrarfóðrun
c) Síðustu 6 vikur meðgöngutíma
d) Eftir burð þar til beitin fullnægir fóðurþörfum
Fóðurþarfir gimbra falla ekki inn í þennan ramma þar sem þær eru einnig að taka út vöxt og hafa þar með sérstakar fóðurþarfir þess vegna allan veturinn. Um fóðrun þessa aldurshóps gildir því um margt annað en um fóðrun fullorðinna áa.
Sauðfé á Íslandi sækir viðurværi sitt algerlega í beitargróður í a.m.k. fimm mánuði yfir árið. Stór hluti þessarar beitar er sóttur í úthaga en beit á ræktað land er þó víðast mikilvæg bæði á vorin og á haustin.
Til þess að fræðast heilstætt um fóðurþarfir og fóðrun sauðfjár, fóðuröflun og beit á ræktað land og úthaga, má benda á bókina Sauðfjárrækt á Íslandi sem gefin var út af Uppheimum árið 2013, í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands.