Sauðfjárrækt fréttir

Síðustu prentanir vorbóka 2025

Nú á allra fyrstu dögum apríl verða sendar til prentunar vorbækur fyrir þá sauðfjárbændur sem merkt hafa við 31. mars sem prentunardag, en einnig fyrir þá bændur sem hafa sérstaklega beðið um prentun á þessum tíma, hvort sem merkt er við 31. mars í Fjárvískerfinu hjá þeim eða ekki.
Lesa meira

Sérstakur stuðningur vegna greiningar áa á áhættubúum

Samkvæmt nýgerðum samningi milli RML og atvinnuvegaráðuneytisins um riðuarfgerðargreiningar er gert ráð fyrir sérstökum stuðningi vegna greininga á fullorðnum ám á áhættubúum. Markmiðið með þessum sérstaka stuðningi er að draga úr tíðni VRQ-genasamsætunnar í hjörðum sem skilgreindar eru samkvæmt MAST sem áhættuhjarðir. Áætlað að niðurgreiðsla á hvert sýni sé 1.000 kr., þó með þeim fyrirvara að fjármunir sem ætlaðir eru í verkefnið dugi.
Lesa meira

Pöntun á sýnatökubúnaði og fyrirkomulag hvatastyrkja vegna riðuarfgerðargreininga 2025

Nú er frágenginn samningur milli atvinnuvegaráðuneytisins og RML um tilhögun hvatastyrkja vegna riðuarfgerðagreininga. Fyrirkomulagið er með mjög keimlíkum hætti og á síðasta ári. Helstu breytingar eru þær að nú er settur fyrirvari um hámarksfjölda greininga sem fást niðurgreiddar á hverju búi. Þá verða ekki niðurgreiddar greiningar á sýnum úr gimbrum sem eiga foreldra sem eru arfhreinir V/V, V/MV eða MV/MV (V = ARR = dökkgrænt flagg, MV =T137, C151,H154 = ljósgrænt flagg). Þær munu sjálfkrafa fá merkingu í Fjárvís (grænröndótt flagg) sem gefur til kynna að þær beri V eða MV arfgerð.
Lesa meira

Tilboð á þokugensgreiningum

Í kjölfar þess að hrúturinn Fannar 23-925 frá Svínafelli greindist með þokugen hafa borist fyrirspurnir um þokugensgreiningar. Slíkar greiningar eru ekki í boði hjá Íslenskri erfðagreiningu. Matís býður nú upp á tilboð sem gildir til 11. apríl, í samstarfi við RML. Senda þarf hylki með vefjasýni eða stroksýni úr nefi á starfsstöð RML í Reykjavík eða á Hvanneyri. Mikilvægt er að sýnið sé aðgreint frá öðrum sýnum, haft í sér poka og því fylgi blað þar sem fram kemur að óskað sé eftir þokugensgreiningu og tilgreint númer sýnis og grips. Bóndinn forskráir sýnið á viðkomandi grip í Fjárvís.is undir „forskráning á öðrum arfgerðargreiningum“.
Lesa meira

Fagfundur sauðfjárræktarinnar 2025

Fagráð í sauðfjárrækt stendur fyrir sínum árlega fagfundi 12. apríl. Að þessu sinni er fundurinn haldinn á Húsavík og hefst kl. 10:30 og er áætlað að dagskrá ljúki kl. 15:00. Fundurinn fer fram á Fosshóteli en þar verður árshátíð sauðfjárbænda haldin um kvöldið. Fundurinn er öllum opinn.
Lesa meira

Fjárfestingastuðningur – umsóknarfrestur

Nú styttist óðfluga í lokafrest umsókna um fjárfestingastuðning vegna fyrirhugaðra framkvæmda ársins 2025, ásamt því að framhaldsumsóknum þarf að skila inn fyrir þau verkefni sem það á við. Umsóknarfrestur fyrir umsóknir í sauðfjárrækt er 15. mars og umsóknarfrestur fyrir umsóknir í nautgriparækt er 31. mars. Framkvæmdir sem eru yfir einni milljón króna eru styrkhæfar og er allt styrkhæft sem viðkemur endurnýjun, endurbótum og nýbyggingum. Þess ber þó að geta að tæknibúnaður er ekki styrkhæfur, nánari upplýsingar um það veita ráðunautar.
Lesa meira

Afkvæmarannsóknir hjá bændum 2024

Haustið 2024 voru gerðar upp 65 styrkhæfar afkvæmarannsóknir hjá bændum. Í heild voru afkvæmahóparnir 601 og þar af eiga veturgamlir hrútar 422 afkvæmahópa. Umfangið er nokkuð minna en haustið 2023 en þá voru búin 71 og afkvæmahóparnir 720. Afkvæmahópunum hefur því fækkað tiltölulega meira en búunum. Nú eru 70% hrútanna í afkvæmarannsóknunum veturgamlir en haustið 2023 var hlutfall veturgamalla hrúta 59%. Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi riðuarfgerðum leiðir til þess að notkun á lambhrútum hefur aukist og færri eldri hrútar eru í notkun.
Lesa meira

Ofurfrjósemi í dætrum Fannars og Kurdos

Í kjölfar fósturtalninga, sem nú eru í gangi víða á sauðfjárbúum, hafa komið fram allmargar ábendingar um mikla frjósemi í dætrum Fannars 23-925 frá Svínafelli. Því var ákveðið að láta arfgerðagreina sýni úr Fannari með tilliti til frjósemi. Niðurstaðan úr þeirri greiningu er sú að Fannar er sannarlega arfblendinn fyrir þokugeni. Nú er það svo að aðeins hluti hrútanna sem koma inn á stöð eru skoðaðir með tilliti til þoku og hefur það verið gert ef vísbending er um að nákomnir foreldrar beri genið. Í tilfelli Fannars er móðir hans ekki með afgerandi hátt frjósemismat en hinsvegar má rekja ættir hennar í þoku 50-900 frá Smyrlabjörgum í gegnum Hún 92-809 frá Hesti sem stendur á bakvið Fannar í sjöunda lið.
Lesa meira

Forskráning eldri sýnahylkja sem ekki hafa verið skráð á bú í Fjárvís

Í dag var lokað fyrir möguleikann „Forskrá eldri hylki“ í Fjárvís. Þeir sem eiga enn sýnahylki sem afgreidd voru á árunum 2022 og 2023 geta engu að síður notað þau, en nú þarf að forskrá þau sýni hjá RML. Alltaf á að senda útfyllt fylgiblöð með sýnum þar sem fram koma upplýsingar um númer sýna og númer gripa. Í þessu tilfelli er sérstaklega mikilvægt að ekki gleymist að láta þessar upplýsingar fylgja með svo hægt verði að forskrá sýnin á rétta gripi.
Lesa meira

Þriðja ARR uppsprettan staðfest

Staðfest hefur verið nýtt upphafsbú ARR genasamsætunnar, í Skammadal í Mýrdal. Má því segja að nú sé þriðja ættlínan komin fram sem ber hina verndandi genasamsætu ARR.
Lesa meira