Afkvæmarannsóknir

Haustið 1998 varð ákveðin bylting í framkvæmd ræktunarstarfsins í sauðfjárrækt hér á landi þegar víðtæk þátttaka bænda hófst í afkvæmarannsóknum. Á þessum tímapunkti var farið að byggja niðurstöður afkvæmarannsókna á nýjum mæli- og matsaðferðum á skrokkgæðum. Hér er annarsvegar átt við ómsjármælingar á lifandi lömbum og hins vegar EUROP kjötmats flokkunarkerfið sem tekið var í upp sláturhúsum haustið 1998. Síðan þá hafa afkvæmarannsóknir verið markvisst notaðar til að velja fyrir aukinni holdfyllingu og minni fitu og óhætt að fullyrða að þetta starf hefur skilað miklum framförum frá því að það hófst.

Í dag er heildareinkunn hrúta í afkvæmarannsóknum byggð á þrem þáttum sem vega jafnt. Það er fallþungaeinkunn, gæðaeinkunn lifandi lamba og kjötmatseinkunn. Ómsjármælingar á lifandi lömbum gegna hér mikilvægu hlutverki. Þær eru ákaflega góð mæling á vöðva- og fituhlutfall skrokksins og í raun eina beina mælingin sem nýtt er í ræktunarstarfinu á vöðvaþykkt. Þar að auki skila þær mjög markvissum kynbótum fyrir verðmætasta skrokkhlutanum sem er hryggurinn.

Reglur um fullgildar afkvæmarannsóknir hafa verið aðeins breytilegar í gegnum tíðina. Þær reglur sem gilda í dag gera kröfu um að í samanburði séu að lágmarki 5 hrútar og af þeim séu a.m.k. 4 veturgamlir. Þetta er gert til þess að leggja áherslu á að auka notkun á lambhrútum og stuðla að því að sem flestir veturgamlir hrútar sé dæmdir á grunni afkvæmadóms. Gerð hefur verið krafa um að undan hverjum hrút séu dæmd á fæti að lágmarki 8 lömb af sama kyni og að fyrir liggi kjötmatsniðurstöður fyrir a.m.k. 15 lömb.
Þegar lagt er upp með afkvæmarannsókn er mikilvægt að reynt sé að draga úr umhverfisáhrifum eins og kostur er svo erfðaáhrif hrútanna komi sem sterkast fram. Þannig er æskilegt að ærhóparnir séu svipaðir af aldir og gæðum, hrútunum sé hleypt til ánna á sama tíma, lömbin fái svipaða meðferð og sé lógað á sama tíma.

Umfjöllun um afkvæmarannsóknir síðustu ára er að finna undir Niðurstöðum skýrsluhalds á heimasíðunni.

Síðast uppfært 15.02.2017