Nautgriparækt fréttir

Afkoma nautakjötsframleiðenda 2021-2023

Komin er út skýrsla um rekstur og afkomu í nautaeldi fyrir árin 2021-2023 en hún byggir á gögnum frá 37 nautgripabúum. Á árinu 2023 var nautakjötsframleiðslan á þessum búum samtals um 22% af framleiðslu nautakjöts á landvísu. Skýrslan lýsir mjög jákvæðri þróun í afkomu búanna á tímabilinu. Þegar upp er staðið ná afurðatekjur þó ekki að mæta framleiðslukostnaði að fullu. Eins og áður er áberandi hvað bændur eru að reikna sér lág laun miðað við vinnuframlag.
Lesa meira

Niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar í janúar

Niðurstöður skýrslna nautgriparæktarinnar fyrir síðustu 12 mánuði, nú að nýliðnum janúar, hafa verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað um hádegisbil þann 11. febrúar. Hér á eftir er farið yfir nokkur atriði úr niðurstöðunum en rétt er að benda á töflur þær sem tengill er í hér neðst í fréttinni. Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 442 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar nær nú til 113 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu.
Lesa meira

Kúaskoðun: Niðurstöður og samræmingarfundur

Á árinu 2024 voru skoðaðar 6.552 kýr á 295 búum víðs vegar um landið. Það gerir 22,2 kýr á bú að meðaltali. Helstu niðurstöður kúaskoðunar 2024 hafa verið birtar hérna á vefnum hjá okkur, sjá tengil neðar. Kúaskoðun þessa árs er hafin enda er þetta verkefni sem er stöðugt í gangi. Í síðustu viku hittust dómarar á Hvanneyri til þess að ráða ráðum sínum, samræma beitingu dómskalans og fara yfir ýmis atriði varðandi framkvæmd verkefnisins. Samræmingarfundurinn fór fram samhliða kennslu í kúadómum við Landbúnaðarháskólann. Verkleg kennsla og samræming kúadómara fór fram í fjósinu á Hvanneyri og við það tækifæri smellti Björn Ingi, fjósameistari, af meðfylgjandi mynd af þeim starfsmönnum RML sem koma að kúaskoðun á þessu ári.
Lesa meira

Ársuppgjör skýrslna nautgriparæktarinnar árið 2024

Hér á eftir er farið yfir helstu niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar hér á landi fyrir árið 2024. Grein þessi er samhljóða þeirri sem nú birtist í Bændablaðinu. Eins og gefur að skilja þarf svona yfirlit ákveðinn undirbúning og því þarf einn daginn að ákveða að bíða ekki lengur eftir upplýsingum þeim sem enn kunna að vera ókomnar inn í grunn þann sem gögnin sem unnið er með eru sótt í. Sem dæmi má nefna voru upplýsingarnar um kjötframleiðsluna sóttar til vinnslu fyrir ríflega viku síðan og svipað gildir um mjólkurframleiðsluna, þannig að gögn sem bárust síðar eða eiga eftir að berast ná því miður ekki inn í uppgjörið. Telja má þó víst að þær tölur sem ekki náðu inn fyrir miðjan mánuðinn, breyti litlu sem engu um landsmeðaltöl því heimtur gagna mátti telja góðar á þeim tíma. Fyrst lítum við yfir mjólkurframleiðsluna en fast á eftir fylgir sú yfirferð sem varðar kjötframleiðsluna á nýliðnu ári.
Lesa meira

Upptaka af kynningarfundi um kyngreint sæði

Við vekjum athygli á að upptaka af kynningarfundi um kyngreint sæði er nú aðgengileg til áhorfs. Hægt er að nálgast upptökun með því að velja upptökur af fyrirlestrum hérna hægra megin á forsíðunni og fletta svo niður í nautgriparækt eða með því að nota hlekkinn hér fyrir neðan.
Lesa meira

Tilraun með kyngreint nautasæði

Í desember s.l. komu sérfræðingar frá STgenetics og kyngreindu sæði úr íslenskum nautum í fyrsta skipti í sögunni. Tekið var sæði (X-sæði) úr fimm nautum sem koma nú til notkunar. Jafnhliða var tekið sæði úr Angus-nautinu Lunda til kyngreiningar og þá í hina áttina þannig að þar er um ræða sæði sem gefur nautkálfa (Y-sæði). Kyngreint sæði úr Lunda verður til almennrar notkunar utan tilraunar. Nú er þetta sæði að koma til dreifingar með þeim hætti að gerð verður tilraun til þess að sjá mun á fanghlutfalli hefðbundins og kyngreinds sæðis. Við blöndun, meðhöndlun og frystingu á þessu sæði var hverri sæðistöku skipt í tvennt, annar hlutinn var frystur á hefðbundinn hátt en hinn hlutinn kyngreindur og frystur. Sæðinu verður dreift með þeim hætti að ekki liggur fyrir hvort er hvað og er þetta gert til þess að fá sem marktækasta niðurstöðu á árangurinn. Þannig á að vera tryggt að val á gripum og meðhöndlun sæðisins mun ekki hafa áhrif á niðurstöðuna.
Lesa meira

Kynningarfundur um kyngreint sæði

Þriðjudaginn 14. janúar n.k. verður haldinn kynningarfundur um framkvæmd tilraunar með kyngreint nautasæði. Á fundinum verður farið yfir helstu atriði varðandi framkvæmd tilraunarinnar og þau atriði sem snúa að bændum varðandi val gripa og sæðingar þannig að árangur verði sem bestur. Á fundinum verður jafnframt farið yfir þau naut sem kyngreint var sæði úr og verða í tilrauninni.
Lesa meira

Fyrsta sæðing með kyngreindu sæði á Íslandi

Nú í desember var íslenskt nautasæði tekið til kyngreiningar á Nautastöðinni á Hesti í fyrsta skipti í Íslandssögunni. Kyngreint var sæði úr fimm íslenskum nautum og einu Angus-holdanauti. Kyngreinda sæðið verður notað í tilraun og er nú þegar á leið til frjótækna. Notkun getur hafist jafnóðum og örlitlum lagfæringum á Huppu er lokið. Í tilrauninni verður kannað hvert fanghlutfall er þegar notað er kyngreint sæði annars vegar og venjulegt sæði hins vegar. Framkvæmd tilraunarinnar verður kynnt nánar í komandi viku.
Lesa meira

Sæðingaappið FANG komið í notkun í Eyjafirði og S-Þing.

Sæðingaappið eða smáforritið FANG hefur verið tekið í notkun í Eyjafirði og S-Þing. Með forritinu geta bændur pantað sæðingar hvenær sem er sólarhringsins í farsíma, spjaldtölvu og/eða borðtölvu. FANG keyrir sem app á Android-símum en notendur iPhone geta notað vefútgáfu forritsins. Forritið er tiltölulega einfalt í notkun en hægt er að skoða leiðbeiningar hér á síðunni.  Markmiðið er að þetta sé notendavænt og auðveldi pantanir á sæðingum og skráningum fyrir frjótækna. Þá er einnig markmið að minnka allar handskriftir sem hafa fylgt okkar núverandi kerfi síðustu áratugina og á sama tíma takmarka og helst útiloka villur sem hafa átt sér stað, ásamt því að gera störf frjótækna skilvirkari. Ávinningur þessa smáforrits (apps) er margþættur fyrir bændur og frjótækna og vonumst við eftir að sem flestir tileinki sér notkun þess.
Lesa meira

Niðurstöður skýrslna nautgriparæktarinnar eftir nýliðinn nóvember

Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 445 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði nú til 112 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.680,0 árskúa á búunum 445 var 6.534 kg. eða 6.795 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) á uppgjörstímabilinu. Meðalfjöldi árskúa á fyrrnefndum 445 búum var 55,5. Meðalfjöldi kúa á þeim 112 hreinu kjötframleiðslubúum sem uppgjörið nær yfir reiknaðist 30,3 við lok október en árskýrnar á þeim búum voru á þeim tíma 27,4 að jafnaði. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum var 7.205,4 kg. á undanförnum 12 mánuðum. Meðalfallþungi 9.589 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum búunum sem uppgjörið nær yfir, hvort sem um ræðir bú þar sem stunduð var kjötframleiðsla eða mjólkurframleiðsla, eða blanda af hvoru tveggja, undanfarna 12 mánuði, var 256,9 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 732,1 dagur.
Lesa meira