Nautgriparækt fréttir

Upptaka af kynningarfundi um kyngreint sæði

Við vekjum athygli á að upptaka af kynningarfundi um kyngreint sæði er nú aðgengileg til áhorfs. Hægt er að nálgast upptökun með því að velja upptökur af fyrirlestrum hérna hægra megin á forsíðunni og fletta svo niður í nautgriparækt eða með því að nota hlekkinn hér fyrir neðan.
Lesa meira

Tilraun með kyngreint nautasæði

Í desember s.l. komu sérfræðingar frá STgenetics og kyngreindu sæði úr íslenskum nautum í fyrsta skipti í sögunni. Tekið var sæði (X-sæði) úr fimm nautum sem koma nú til notkunar. Jafnhliða var tekið sæði úr Angus-nautinu Lunda til kyngreiningar og þá í hina áttina þannig að þar er um ræða sæði sem gefur nautkálfa (Y-sæði). Kyngreint sæði úr Lunda verður til almennrar notkunar utan tilraunar. Nú er þetta sæði að koma til dreifingar með þeim hætti að gerð verður tilraun til þess að sjá mun á fanghlutfalli hefðbundins og kyngreinds sæðis. Við blöndun, meðhöndlun og frystingu á þessu sæði var hverri sæðistöku skipt í tvennt, annar hlutinn var frystur á hefðbundinn hátt en hinn hlutinn kyngreindur og frystur. Sæðinu verður dreift með þeim hætti að ekki liggur fyrir hvort er hvað og er þetta gert til þess að fá sem marktækasta niðurstöðu á árangurinn. Þannig á að vera tryggt að val á gripum og meðhöndlun sæðisins mun ekki hafa áhrif á niðurstöðuna.
Lesa meira

Kynningarfundur um kyngreint sæði

Þriðjudaginn 14. janúar n.k. verður haldinn kynningarfundur um framkvæmd tilraunar með kyngreint nautasæði. Á fundinum verður farið yfir helstu atriði varðandi framkvæmd tilraunarinnar og þau atriði sem snúa að bændum varðandi val gripa og sæðingar þannig að árangur verði sem bestur. Á fundinum verður jafnframt farið yfir þau naut sem kyngreint var sæði úr og verða í tilrauninni.
Lesa meira

Fyrsta sæðing með kyngreindu sæði á Íslandi

Nú í desember var íslenskt nautasæði tekið til kyngreiningar á Nautastöðinni á Hesti í fyrsta skipti í Íslandssögunni. Kyngreint var sæði úr fimm íslenskum nautum og einu Angus-holdanauti. Kyngreinda sæðið verður notað í tilraun og er nú þegar á leið til frjótækna. Notkun getur hafist jafnóðum og örlitlum lagfæringum á Huppu er lokið. Í tilrauninni verður kannað hvert fanghlutfall er þegar notað er kyngreint sæði annars vegar og venjulegt sæði hins vegar. Framkvæmd tilraunarinnar verður kynnt nánar í komandi viku.
Lesa meira

Sæðingaappið FANG komið í notkun í Eyjafirði og S-Þing.

Sæðingaappið eða smáforritið FANG hefur verið tekið í notkun í Eyjafirði og S-Þing. Með forritinu geta bændur pantað sæðingar hvenær sem er sólarhringsins í farsíma, spjaldtölvu og/eða borðtölvu. FANG keyrir sem app á Android-símum en notendur iPhone geta notað vefútgáfu forritsins. Forritið er tiltölulega einfalt í notkun en hægt er að skoða leiðbeiningar hér á síðunni.  Markmiðið er að þetta sé notendavænt og auðveldi pantanir á sæðingum og skráningum fyrir frjótækna. Þá er einnig markmið að minnka allar handskriftir sem hafa fylgt okkar núverandi kerfi síðustu áratugina og á sama tíma takmarka og helst útiloka villur sem hafa átt sér stað, ásamt því að gera störf frjótækna skilvirkari. Ávinningur þessa smáforrits (apps) er margþættur fyrir bændur og frjótækna og vonumst við eftir að sem flestir tileinki sér notkun þess.
Lesa meira

Niðurstöður skýrslna nautgriparæktarinnar eftir nýliðinn nóvember

Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 445 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði nú til 112 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.680,0 árskúa á búunum 445 var 6.534 kg. eða 6.795 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) á uppgjörstímabilinu. Meðalfjöldi árskúa á fyrrnefndum 445 búum var 55,5. Meðalfjöldi kúa á þeim 112 hreinu kjötframleiðslubúum sem uppgjörið nær yfir reiknaðist 30,3 við lok október en árskýrnar á þeim búum voru á þeim tíma 27,4 að jafnaði. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum var 7.205,4 kg. á undanförnum 12 mánuðum. Meðalfallþungi 9.589 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum búunum sem uppgjörið nær yfir, hvort sem um ræðir bú þar sem stunduð var kjötframleiðsla eða mjólkurframleiðsla, eða blanda af hvoru tveggja, undanfarna 12 mánuði, var 256,9 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 732,1 dagur.
Lesa meira

Nýtt Íslandsmet í æviafurðum

Við uppgjör afurðaskýrslna í mánuði hverjum líta ýmsar tölur dagsins ljós. Í október s.l. urðu tíðindi, eða öllu heldur stórtíðindi, að afrekskýrin Bleik 995 á búi Péturs Friðrikssonar á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd sló Íslandsmetið í æviafurðum og hefur nú mjólkað mest allra íslenskra kúa. Hún hefur nú, á sínum 15. vetri, mjólkað samtals 114.731 kg en eldra Íslandsmet Mókollu 230 á Kirkjulæk var 114.635 kg. Við mælingu þann 31. október s.l. var Bleik í 27,1 kg dagsnyt þannig að leiða má líkum að því að metið hafi fallið undir lok mánaðarins eða síðla dags hinn 28. október.
Lesa meira

Rannsókn á erfðaorsökum kálfadauða er enn í gangi

Sú rannsókn þar sem verið er að kanna hvort gen eða einhverjir erfðaþættir valdi kálfadauða í íslenska kúastofninum er enn í gangi. Mikilvægur liður í rannsókninni er að fá sýni úr kálfum sem sannanlega fæðast dauðir. Nokkur fjöldi sýna hefur náðst á undanförnum misserum en þörf er á fleiri og því er óskað eftir aðstoð bænda. Við biðlum því til ykkar með að taka sýni úr þeim kálfum sem fæðast dauðir og eru undan sæðinganautum. Sýnið er tekið þannig að klipptur er bútur af öðru eyra kálfsins og settur í poka sem merkja þarf með burðardegi og númeri móður. Sýnið er síðan geymt í frysti.
Lesa meira

Niðurstöður afurðaskýrslna nautgriparæktarinnar fyrir nýliðinn september

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar yfir síðastliðna 12 mánuði, nú að loknum september, hafa verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað fyrir hádegi hinn 11. október. Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 434 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði að þessu sinni til 114 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 23.950,2 árskúa á búunum 434 var 6.548 kg. eða 6.809 kg. OLM
Lesa meira

Efstu kvígur í erfðamati

Nú er um eitt og hálft ár liðið frá því að sýnataka úr kvígum varð almenn og lætur nærri að af öllum kvígum fæddum árið 2023 séu 80% arfgreindar og með erfðamat. Þetta hlutfall verður án efa töluvert hærra á yfirstandandi ári. Það fylgir því ætíð nokkur spenna að sjá hvaða mat yngstu gripirnir fá, gripirnir sem munu taka við kyndlinum og verða mjólkurkýrnar í fjósinu að 2-3 árum liðnum. Eðlilega eru mismiklar væntingar gerðar, stundum miklar og stundum minni. Það er alltaf ánægjulegt þegar gripir standa undir væntingum og ekki er ánægjan minni ef niðurstaðan fer fram úr væntingum.
Lesa meira