Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Með stækkandi kúabúum og aukinni tækni, einkum og sér í lagi aukinni sjálfvirkni hefur þörf fyrir auðveldan og áreiðanlegan flutning gagna frá hinum ýmsu mjaltakerfum til gagnagrunna nautgriparæktarinnar aukist. Þetta á einkum við um sjálfvirkar mjaltir eða mjaltaþjóna þar sem miklu magni flókinna gagna er safnað á degi hverjum. Þetta á ekki síst við um Norðurlöndin þar sem hlutfall búa með mjaltaþjóna er 30-40% og jafnvel hærra í einstökum löndum.
Flutningur gagna milli gagnagrunna nautgriparæktarinnar og mjaltakerfa virðist í fljótu bragði ekki flókið mál. Reyndin er þó önnur. Hafa verður í huga að mjaltakerfi eru af mörgum gerðum og nota margar gerðir hugbúnaðar sem er byggður upp á mismunandi vegu. Þá eru gagnagrunnar nautgriparæktarinnar ekki eins í hverju landi fyrir sig. Þetta auðveldar ekki verkefnið og gerir nautgriparæktarsamtökum, sérstaklega þeim smærri, erfitt fyrir. Þess vegna hafa Norðurlöndin tekið höndum saman til þess að leysa þetta verkefni.
Norræn samvinna
Eftir að hafa unnið að lausnum hvert fyrir sig ákváðu Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð að slá höndum saman og vinna sameiginlega lausn árið 2013. Þróun lausnarinnar lauk árið 2015 og þá var ákveðið að ganga til samninga við framleiðendur hinna ýmsu mjaltakerfa um að tengjast lausninni. Mtech Digital Solutions í Finnlandi varð fyrir valinu með að þróa lausnina. Lausnin eða viðmótið gengur undir heitinu NCDX eða Nordic Cattle Data Exchange. Ísland gekk til liðs við NCDX árið 2017 sem fullgildur stofnaðili enda var gert ráð fyrir því frá upphafi.
Núverandi staða NCDX
Lausnin eða viðmótið er komið í notkun og flytur gögn milli gagnagrunna nautgriparæktarinnar á Norðurlöndunum og mjaltakerfa. Hægt er að þróa lausnina frekar og bæta við eða breyta því hvaða gögn eru flutt á milli eftir því sem tækni og áherslum fleygir fram.
NCDX er skipulagt þannig að Mtech sér um samninga við nautgriparæktarsamtök og framleiðendur mjaltakerfa. Nautgriparæktarsamtök eða yfirumsjónaraðilar skýrsluhalds í hverju landi þurfa því einungis að sjá um tengingu sinna gagnagrunna við viðmótið. Sama á við um framleiðendur mjaltakerfanna. Þeir þróa tengingu sinna kerfa við viðmótið, hver fyrir sitt kerfi. Þannig þarf hver og einn aðili einungis að þróa eina lausn.
Fyrir nokkru sameinuðust aðilar í Ástralíu, Austurríki, Belgíu, Kanada, Þýskalandi, Hollandi og Bandaríkjunum um að skoða í sameiningu mögulegar tæknilausnir. Niðurstaðan varð að norræna kerfið NCDX uppfyllti þær kröfur sem settar voru. Gengið var til samninga um kaup á hugbúnaðinum og um leið hefur verið stofnað félag, iDDEN (The International Dairy Data Exchange), um áframhaldandi þróun á kerfinu þar sem Norðurlandaþjóðirnar ganga sameinaðar inn í samstarfið undir merkjum NCDX.aps með 1/7 eignarhlut.
Með stofnun iDDEN hafa 13 lönd með samtals 20 miljón mjólkurkýr sameinast um þróun á tæknilausn sem gerir gagnaflæði milli tölvustýrðra mjaltakerfa og annara bústjórnarlausna einfalt og skilvirkt.
NCDX hefur sýnt sig í að vera einföld og áreiðanleg lausn til gagnaflutnings sem er auðvelt að þróa frekar og tengja fleiri gagnagrunnum og kerfum en nú er.
Í dag er NCDX tengt Lely og DeLaval og unnið er að lausn hvað varðar tengingu við GEA. Staða hvers kerfis er breytileg eftir löndum en hérlendis er tenging við Lely í prófun og á næstu mánuðum verður hafist handa við að tengjast DeLaval. Rétt er að taka fram að einungis nýrri gerðir DelPro-hugbúnaðar frá DeLaval munu geta tengst NCDX þar sem DeLaval mun ekki þróa samskiptalausn fyrir eldri gerðir.
Uppfært 5. nóvember 2020