Fundur NorFor í Danmörku

Í síðustu viku var árlegur fundur NorFor um stefnumörkun haldinn í Danmörku. Á fundinn mæta fulltrúar frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Íslandi. Tilgangurinn með fundinum er að fara yfir það hvaða markmið frá fyrra ári hafa náðst og setja fram markmið fyrir næsta ár. Meðal efnis sem fjallað var um á þessum fundi var sameiginlegur hugbúnaður, ný útfærsla á hagkvæmustu fóðuráætluninni og hvernig við vildum sjá kerfið þróast í nánustu framtíð.

Einnig hélt NorFor vinnufund fyrir ráðunauta sem nota kerfið við fóðurráðgjöf. Fundurinn var haldinn í Kaupmannahöfn. Ráðunautar frá RML sem fóru þangað voru Berglind, Guðfinna Lára og Eiríkur Loftsson. Vinnufundurinn samanstóð af fyrirlestrum og umræðum. Það efni sem var kynnt fyrir ráðunautum var samantekt á AAT- og PBV-viðmiðunargildum og framleiðslu, fóðurnýting og át. Eftir það voru markvissar umræður í hópum þar sem sjónarmið og reynsla ráðunauta frá mismunandi löndum komu fram. Gestafyrirlesari kom og talaði um heilfóður (the concept of compact TMR) en það eru mjög einsleitar heilfóðurblöndur sem gripirnir hafa enga möguleika á því að velja heldur éta af fóðurganginum fóður í þeim hlutföllum sem bóndinn vill hafa. Í kjölfarið var farið yfir kosti og galla mismunandi heilfóðurblandara.

Hópurinn fór í eina heimsókn til bónda. Búið sem var heimsótt var Gjorslev Gods en þar eru um 275 kýr sem eru mjólkaðar í hringekju. Mjólkurkýrnar eru í lausagöngufjósi í þremur hópum. Fyrsti hópurinn er lítill en í honum eru nýbærur og gamlar kýr sem eru með einhver vandamál og geta ekki verið í stóra hópnum eða á básum og fá að vera á hálmi. Í öðrum hópi eru kvígur á legubásum og þriðji og stærsti hópurinn er eldri kýr, á legubásum. Básarnir eru með sandi, en það var einmitt eitt af því sem bóndinn breytti nokkrum árum eftir að fjósið var tekið í notkun og hann sá alls ekki eftir mottunum.

Geldu kýrnar voru auðvitað ekki með mjólkurkúnum. Upplýsingar um afurðir kúnna áq bænum fengust útprentaðar úr skýrsluhaldinu en afurðirnar eru meðal annars 14.173 kg orkuleiðrétt mjólk á árskú, fita 3,53% og prótein 3,28%. Bóndinn gefur TMR, sem þýðir að hann blandar öllu fóðrinu saman í heilfóður og gefur ekkert þar fyrir utan. Hann gerir eina blöndu fyrir kvígur en aðra fyrir fullorðnar og nýbærur fá þá blöndu líka, svo gerir hann sérstaka blöndu fyrir geldu kýrnar. Gróffóðrið sem hann ræktar er maís og refasmári (lusern). Hann ræktar ekki gras eins og við erum vön en jarðvegurinn þar sem hann býr hentar vel fyrir ræktun eins og þessa. Aðkeypt fóður er hrávara eins og soja, sykurrófur, melassi, repjukökur, fita, steinefni og viðbótarsalt.

Mjög góðar umræður sköpuðust á vinnufundinum þar sem fulltrúar frá öllum löndunum lögðu sitt af mörkum og íslensku ráðunautarnir geta tekið ýmsan fróðleik með sér heim og nýtt áfram í þróun á fóðurráðgjöf hér heima.

boo/okg