Fjölbreytt fóðurráðgjöf hjá RML

Sumarið hefur verið misjafnt eftir landshlutum eins og oft áður og eins og bændur vita hefur veðurfar mikil áhrif á gróffóðrið, bæði magn og gæði. Það er því mjög mikilvægt að gefa sér tíma á haustin til að fara yfir hvers var aflað og hvernig það komi til með að nýtast yfir vetrartímann. Þá er fyrsta ráðið að senda sýni til efnagreininga. Á heimasíðu RML er hægt að panta heysýnatöku. Ráðunautar geta einnig ráðlagt bændum um hversu mörg sýni sé heppilegt að taka á hverjum stað og úr hverju, það þarf að meta út frá aðstæðum hjá hverjum og einum og fer eftir því á hversu löngu tímabili heyskapur fór fram, hversu mikil ræktun er í gangi á bænum og fjölbreytni í ræktun. Eins ræðst af til hvers á að nota fóðrið hversu miklar upplýsingar eru nauðsynlegar og að lokum skiptir verkunaraðferð líka máli. Ráðunautar RML geta einnig gefið bændum upplýsingar um þá möguleika til efnagreininga sem eru í boði, bæði hvað hægt sé að greina og verð en nú býðst bændum að senda sýnin sín á nýja rannsóknarstofu á Hvanneyri, Efnagreiningu ehf., sem verður góð viðbót við þann möguleika að senda sýnin út til Blgg í Hollandi.

Eftir að niðurstöður efnagreininga eru komnar til bænda geta ráðunautar hjálpað til við túlkun þeirra. Þá er farið yfir hvaða eiginleika fóðrið hefur og hvernig það kemur þá til með að nýtast til fóðrunar á þeim gripum sem því er ætlað. Einnig bendum við á ef eitthvað er athugavert eða mikilvægt að hafa í huga varðandi viðbótarfóður, hvort sem er steinefni eða kjarnfóður.

Kjósi bændur frekari ráðgjöf varðandi fóðrunina er bæði hægt að fá hana sérsniðna að hverjum og einum en einnig bjóðum við sérstaka ráðgjafapakka fyrir kúabændur sem við köllum Stabba og Stæðu.

Stabbi er pakki þar sem farið er yfir gróffóðurgæði á búinu og fundið út hvaða viðbótarfóður er heppilegt að gefa með út frá þeim markmiðum sem bóndinn setur varðandi framleiðslu, nyt og efnainnihald. Áætlanirnar miða af því að uppfylla næringarþarfir gripanna og tryggja gott heilsufar og frjósemi, á sem hagkvæmastan hátt. Hérna er gert ráð fyrir því að vinna áætlanir fyrir aðskilda fóðrun, þ.e. þar sem gróffóður og kjarnfóður er gefið sérstaklega. Í Stabba er gert ráð fyrir einni heimsókn yfir veturinn þar sem farið er yfir áætlunina og framkvæmd hennar. Í slíkri heimsókn horfir ráðunautur eftir holdafari hjá kúnum og fóðrunaraðstöðu og kemur með ábendingar sem eru í takt við framkvæmd áætlunarinnar.

Stæða er stærri pakki með sömu grunnmarkmið og Stabbi þ.e. að fara yfir gróffóðurgæði og finna viðbótarfóður sem hentar og enn eru markmiðin að uppfylla næringarþarfir til framleiðslu, tryggja gott heilsufar og frjósemi og allt þetta á sem hagkvæmastan hátt. Innifalin í Stæðu er heysýnataka og í kjölfarið túlkun á niðurstöðum. Unnin er fóðuráætlun út frá þeim markmiðum sem bóndinn setur sér og aðstæður leyfa. Hérna er hægt að vinna áætlanir hvort sem er með aðskilda fóðrun en einnig ef blanda á saman gróffóðri og einhverju viðbótarfóðri, hvort sem um ræðir bygg, kjarnfóður eða hrávöru. Tvær heimsóknir eru innifaldar í Stæðu og ráðunautur metur hold og ástand gripa, aðstöðu til fóðrunar og framkvæmd og kemur með ráðleggingar sem því tengjast og svo að framkvæmd fóðuráætlunar gangi sem best upp. Hérna býðst bændum einnig að fá ráðleggingar varðandi fóðurverkun og beit.

Allar nánari upplýsingar um pakkana er að finna hér á heimasíðu okkar og einnig er hægt að panta pakkaráðgjöf og heysýnatöku í gegnum síðuna. Einnig er hægt að hringja í ráðunauta og fá upplýsingar um hvort tveggja, heysýnin og fóðurráðgjöfina.

boo/okg

Sjá nánar

Stabbi 

Stæða