Vel heppnaður ársfundur RML

Föstudaginn fyrsta nóvember var ársfundur RML haldinn í fyrsta skipti. Hugmyndin með fundinum var að gefa bændum kost á að eiga bein skoðanaskipti við stjórn og starfsmenn um RML ásamt því að gefa ennþá betri upplýsingar um starfsemi fyrirtækisins. Fundurinn var vel sóttur og honum var einnig streymt. Á fundinum fór stjórnarformaður RML, Sveinn Rúnar Ragnarsson, yfir skýrslu stjórnar. Karvel L. Karvelsson, framkvæmdastjóri, fór yfir starfsemi félagsins og stefnumótun. Á eftir fóru fram almennar umræður um málefni félagsins sem fundarstjóri fundarins, Margrét Ágústa Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Bændasamtakanna stýrði. Mjög gagnlegar og gagnvirkar umræður urðu í kjölfarið, þar sem fundarmenn spurðu og fóru yfir ýmis mál tengd RML.


Hluti af stjórn RML og varastjórn ásamt framkvæmdastjóra BÍ. Mynd: Borgar Páll

Að loknum umræðum voru tvö af verkefnum RML kynnt. Fyrra verkefnið var nýlega innleidd ráðgjöf sem nefnist bændahópar og hefur enn sem komið er eingöngu verið í boði í jarðrækt. Þórey Ólöf Gylfadóttir ráðunautur kynnti bændahópana. 

Seinna verkefnið kynnti Sigurður Torfi Sigurðsson en þar var um að ræða samstarfsverkefni sem RML sinnir í samstarfi við Grænlendinga og Færeyinga. 

Sjá nánar: 
Upptaka af fundinum
Upplýsingar um bændahópa
Upplýsingar um Nora verkefni

/hh, okg