Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Tilgangurinn með verðlaunaveitingum og birtingu úrvalslista yfir þá sem skara fram úr er að efla menn til dáða, skapa viðmið og eitthvað til að stefna að. Mikilvægt er að slíkar verðlaunaveitingar séu í takt við stefnuna í sauðfjárræktinni hverju sinni og sem einfaldastar í framkvæmd.
Oft er leitað til ráðunauta með að finna besta gripinn eða bú innan ákveðins svæðis. Ekki hafa verið til neinar samræmdar reglur um slíkt. Er þetta gert með ýmsum hætti í dag enda hverjum félagsskap í sjálfsvald sett hvernig því er hagað.
Fagráð hefur nýlega samþykkt reglur um val á kynbótahrútum og úrvalsbúum sem lagðar voru fram af faghópi RML í sauðfjárrækt. Þar með eru til samræmdar reglur sem allir (t.d. fjárræktarfélög og önnur félög um sauðfjárrækt) geta nýtt sér. Reglurnar eiga að vera nokkuð einfaldar í framkvæmd og falla að þeim markmiðum sem unnið er eftir í sauðfjárræktinni. Hér á eftir fer kynning á þessum reglum en lagt er upp með að endurskoða þær árlega.
Lambafaðirinn
Valið byggir á kynbótamatseinkunn fyrir skrokkgæði (skrokkgæði eru notuð hér í stað kjötgæða) þar sem einkunnir fyrir holdfyllingu (gerð) og fitu vega jafnt. Skilyrðin sem hrúturinn þarf að standast eru:
Hafa 95 stig eða hærra fyrir frjósemi og mjólkurlagni samkvæmt kynbótamati
Hafa að lágmarki 110 stig bæði fyrir gerð og fitu samkvæmt kynbótamati
Hafa 105 eða hærra í einkunn fyrir fallþunga samkvæmt hrútaskýrslu
Að kjötmatsupplýsingar byggi á 30 afkvæmum eða fleiri
Að hrúturinn beri ekki sköpulagsgalla (hafi ekki fengið 7 eða lægra fyrir nokkurn dómsþátt sem einstaklingur) og ekki sé vitað til þess að hann beri erfðagalla.
Með þessum hætti er lögð áhersla á að verðlauna hrúta sem sameina góða gerð og hóflega fitu og gefa vænleika yfir búsmeðaltali. Þegar heildareinkunn fyrir skrokkgæði er reiknuð er sett hámark á fitueinkunnina við 125 stig. Með þessum hætti er heldur dregið úr vægi almestu fituleysis hrútanna. Lágmörk fyrir dætraeiginleika tryggja að ekki sé verið að verðlauna hrúta sem útlit er fyrir að séu óálitlegir alhliða kynbótahrútar en samt gefið ákveðið svigrúm þar sem þessi verðlaun eru hugsuð fyrir hrúta sem eru óreyndir eða lítið reyndir sem ærfeður.
Alhliða kynbótahrúturinn
Valið byggir á kynbótamatseinkunn þar sem jafnt vægi er sett á skrokkgæði, frjósemi og mjólkurlagni.
Skilyrðin sem hrúturinn þarf að standast eru:
Hafa 105 stig eða hærra fyrir gerð og mjólkurlagni samkvæmt kynbótamati
Hafa 100 stig eða hærra fyrir fitu og frjósemi samkvæmt kynbótamati
Kynbótamat dætraeiginleika byggi á 10 dætrum eða fleirum
Að hrúturinn beri ekki sköpulagsgalla (hafi ekki fengið 7 eða lægra fyrir nokkurn dómsþátt sem einstaklingur) og ekki sé vitað til þess að hann beri þekkta erfðagalla.
Með þessum hætti koma eingöngu til greina hrútar sem hafa einkunn yfir meðallagi fyrir alla eiginleika í kynbótamatinu. Meiri kröfur eru gerðar til eiginleika sem eru betri eftir því sem mat þeirra er hærra (gerð og mjólkurlagni) en til eiginleika sem eru æskilegir á ákveðnu bili (fita og frjósemi). Sett er þak á einkunn fyrir fitu og frjósemi við 125 stig. Þannig eru aðeins minnkuð áhrif mestu fituleysishrútanna og ofurfrjósemishrúta (hrúta sem bera stórvirka frjósemiserfðavísa). Líkt og í reglum fyrir lambaföðurinn skal ekki verðlauna hrúta sem hafa sköpulagsgalla eða vitað sé að beri erfðagalla.
Besta fjárræktarbúið
Valið byggir á heildareinkunn í kynbótamati þar sem vegið er saman meðalkynbótamat fyrir skrokkgæði, frjósemi og mjólkurlagni þar sem þessir þrír þættir hafa jafnt vægi. Notast er við meðalkynbótamatseinkunn fullorðinna áa búsins.
Búin þurfa að standast eftirfarandi kröfur:
Kynbótamat - BLUP Lágmörk
Gerð - 100 stig
Fita - 100 stig
Mjólkurlagni - 100 stig
Frjósemi - 100 stig
Kröfur um afurðir:
Fædd lömb - ær 1,9
Lágmarksafurðir eftir hverja á 27 kg
Fædd lömb - veturgamlar ær 0,9
Lágmarkseinkunn fyrir gerð 9,2
Hámarkseinkunn fyrir fitu 7,6
Lágmarkseinkunn fyrir fitu 5,4
Lágmarkshlutfall gerðar og fitu 1,3
Bú sem eru verðlaunuð þurfa að standast kröfur gæðastýringar í sauðfjárrækt án athugasemda. Þá er lagt til að sama búið sé ekki verðlaunað nema á 5 ára fresti.
Skilyrðin sem hér eru sett eru í takt við ræktunarmarkmiðin fyrir frjósemi og skrokkgæði. En markmiðið er að ærin skili tveimur lömbum og veturgömlu ærnar einu. Varðandi skrokkgæði er markmiðið að nánast öll framleiðslan fari í holdfyllingarflokk R eða hærra og þar af 40% í U og E. Flokkun þar sem 60% færu í R og 40% í U skilar 9,2 í einkunn fyrir gerð. Hvað snertir fituna er stefnan sett á fituflokka 2 og 3. Afurðir í kílóum kjöts eftir hverja á eru miðaðar við landsmeðaltal hverju sinni, hér mætti líka nota héraðsmeðaltal ef verið er að verðlauna á héraðsvísu. Með því að gera ekki meiri kröfur um kíló eftir ána er reynt að koma til móts við þá sem lóga snemma og/eða búa við léttari afréttarlönd. Í framtíðinni mætti hugsanlega taka vaxtarhraða inn sem eitt af skilyrðum um afurðir.
Listi yfir úrvalsbú
Bú sem standast kröfur um afurðir samkvæmt reglum um besta fjárræktarbúið ættu að vera öflug alhliða bú. Hefur því verið ákveðið að birta árlega lista yfir þau bú landsins sem standast þessar kröfur og ætti það að vera góð viðbót við þá úrvalslista sem þegar eru birtir í Fjárvís.is og á heimasíðu RML fyrir einstaka eiginleika. Þar verður miðað við bú sem hafa 100 fullorðnar ær eða fleiri á skýrslum. Listinn yfir búin er birtur í stafrófsröð innan héraða og er í heild sinni aðgengilegur inn á heimasíðunni www.rml.is.
Bú þar sem náðist góður árangur skv. skýrsluhaldi 2013 (Úrvalsbú)
Þær reglur sem hér eru kynntar eru hugsaðar til að marka leiðina og nota til viðmiðunar, þó í sumum tilfellum gæti þurft að slaka aðeins á kröfum eða gera útfærslubreytingar þannig að þær henti fyrir minni félög.
ee/eib