Svipmyndir frá héraðssýningu á Snæfellsnesi

Ráðunautar RML hafa farið víða um sveitir landsins á hrútasýningar nú í haust. Á Snæfellsnesi var haldin héraðssýning 15. október þar sem komu saman bestu lambhrútar úr Snæfells- og Hnappadalssýslu.

Sýningin var haldin í tvennu lagi þar sem varnarhólf skiptir svæðinu í tvennt. Sýningin hófst á Gaul í Staðarsveit hjá þeim Heiðu og Júlíusi en þar mættu til leiks 55 hrútar, 17 mislitir, 9 hvítir kollóttir og 29 hvítir hyrndir. Úr þessum hópi voru valdir fimm efstu hrútar í flokki mislitra, kollóttra hvítra og hyrndra hvítra lambhrúta. Um kvöldið var sýningunni síðan framhaldið í Haukatungu-Syðri 2 í fyrrum Kolbeinsstaðahreppi hjá þeim Ásbirni og Helgu en þar bættust við 24 hrútar, 5 mislitir, 4 hvítir kollóttir og 15 hvítir hyrndir.Samtals voru því sýndir 79 hrútar á báðum sýningunum.

Í Haukatungu voru að lokum veitt verðlaun fyrir efstu hrútana. Besti kollótti hvíti hrúturinn kom frá Dalsmynni en bestu hrútarnir í flokkum hvítra hyrndra og mislitra voru frá Haukatungu-Syðri 2. Besti hrútur sýningarinnar og jafnframt handhafi veglegs farandgrips var valinn besti hrúturinn í flokki hvítra hyrndra hrúta. Þessi hrútur sem er nr. 17 er undan Garra 11-908 og Lukku 10-436 og í eigu Ásbjörns og Helgu í Haukatungu.

Fleiri myndir af sýningunni má skoða með því að smella á tengilinn hér að neðan:

Myndir frá héraðssýningu á Snæfellsnesi

 

hes/okg