RML á landsfundi sauðfjárbænda

Soffi 10-885
Soffi 10-885

Á landsfundi sauðfjárbænda í Reykjavík í síðustu viku kynnti RML starfsemi sína sem tengist sauðfjárrækt með því að setja upp kynningarbás á seinni fundardeginum. Þar var fundargestum m.a. boðið að taka þátt í getraun þar sem spurt var um fáein atriði er tengjast ræktunarstarfinu. Lagt var upp með að leggja ekki alltof léttar spurningar fyrir bændur. Líklega var þó gengið heldur langt í þeim efnum því aðeins einn þátttakandi svarið öllum þremur spurningunum rétt. Það var Guðbrandur Björnsson bóndi að Smáhömrum í Strandasýslu og hlýtur hann að launum ráðgjöf að eigin vali frá RML að verðmæti 20.000 krónur. 

Getraunina má sjá hér að neðan en það var einkum fyrsta spurningin sem vafðist fyrir þátttakendum.

1. Allir stöðvahrútarnir hér að neðan áttu fleiri en 100 dætur í framleiðslu á sauðfjárbúum um allt land árið 2016. Þeir hafa allir reynst frábærir ærfeður. Einn þeirra átti 163 dætur sem fengu að meðaltali 5,46 í afurðaeinkunn. Náðu hinir dætrahóparnir ekki svo hárri meðaleinkunn. Í lýsingu í hrútaskrá á sínum tíma var þessi ágæti ærfaðir sagður feiki bollangur og hetjulegur á velli.

a) Gumi 09-880 ( )
b) Strengur 09-891 ( )
c) Soffi 10-885 (X)
d) Laufi 08-848 ( )
e) Stakkur 10-883 ( )

2. Einn eftirtalinna stöðvahrúta átti 1822 dætur í framleiðslu á sauðfjárbúum um allt land árið 2016. Átti þessi hrútur langflestar dætur á lífi árið 2016. Hver þessara hrúta er þetta?

a) Raftur 05-966 ( )
b) Grábotni 06-833 (X)
c) Borði 08-838 ( )
d) Kjarkur 08-840 ( )
e) Bósi 08-901 ( )

3. Þorgeir og Kristín eru fyrrverandi sauðfjárbændur sem eiga nú 10 ær og 1 hrút til þess að hafa enn tilefni til að vakna á morgnanna. Ærnar eru allar móflekkóttar og hrúturinn móhöttóttur og er hann faðir allra lamba sem von er á. Nú styttist í sauðburðinn og hvernig skyldu nú lömbin verða á litinn?

a) Búast má við öllum mögulegum sauðalitum ( )
b) Þau verða mórauð,móflekkótt, mógolsótt eða móbotnótt ( )
c) Þau geta orðið svartflekkótt, móflekkótt eða gráflekkótt ( )
d) Þau verða öll móflekkótt (X)
e) Þau verða svört, mórauð, svartflekkótt eða móflekkótt ( )

abb/okg