Ofurfrjósemi í dætrum Fannars og Kurdos

Fannar frá Svínafelli
Fannar frá Svínafelli

Í kjölfar fósturtalninga, sem nú eru í gangi víða á sauðfjárbúum, hafa komið fram allmargar ábendingar um mikla frjósemi í dætrum Fannars 23-925 frá Svínafelli. Því var ákveðið að láta arfgerðagreina sýni úr Fannari með tilliti til frjósemi. Niðurstaðan úr þeirri greiningu er sú að Fannar er sannarlega arfblendinn fyrir þokugeni.

Nú er það svo að aðeins hluti hrútanna sem koma inn á stöð eru skoðaðir með tilliti til Þoku og hefur það verið gert ef vísbending er um að nákomnir foreldrar beri genið. Í tilfelli Fannars er móðir hans ekki með afgerandi hátt frjósemismat en hinsvegar má rekja ættir hennar í Þoku 50-900 frá Smyrlabjörgum í gegnum Hún 92-809 frá Hesti sem stendur á bakvið Fannar í sjöunda lið.

Það er því ljóst að næsta skref er að athuga hvort Hólmsteinn 24-955 frá Brattsholti hafi fengið genið frá Fannari.

Einnig er nánast víst að Kurdo 20-878 frá Sveinungsvík beri þokugen, en hann hefur skilað mjög frjósömum dætrum og stendur í 130 stigum í kynbótamati fyrir frjósemi. Búið er að reyna að greina gamalt DNA sýni úr Kurdo en það hefur ekki skilað niðurstöðu. Í ljósi þessa gruns var Fursti 22-934 frá Sölvabakka skoðaður með tilliti til þoku þegar hann var tekinn inn á stöð en reyndist hann ekki bera genið. Hinsvegar voru þrjár dætur Kurdos nýlega greindar á einu búi og reyndust þær allar búa yfir þokugeni. Kurdo rekur ættir í Þrist 08-872 frá Steinum og því líklegt að þaðan sé frjósemisgenið komið til hans.

/agg