Niðurstöður skýrsluhalds í sauðfjárrækt 2014

Uppgjöri skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir árið 2014 er að mestu lokið en þessa dagana er verið að ganga frá skráningum á „eftirlegukindum“ sem víða leynast. Reiknaðar afurðir eftir hverja kind eru umtalsvert meiri en fyrir ári síðan eða sem nemur tæpu kílói. Þar munar mestu um hagstætt tíðarfar um norðausturhluta landsins en þar féllu víða vænleikamet síðasta haust. Jafnframt liggur munurinn að einhverju leyti í betri lambahöldum en skv. skýrsluhaldinu komu fleiri lömb til nytja á nýliðnu ári, 2014, en árið 2013 og frjósemi var sú sama og fyrra árið. Líkt og undanfarin ár eru nú birtir listar yfir þau bú í skýrsluhaldinu, þar sem góður árangur náðist. Nánari grein verður gerð fyrir niðurstöðum ársins í Bændablaðinu í mars.

Árið 2014 stóð bú Hermundar Eiríkssonar í Vallanesi í Skagafirði efst með 40,1 kíló eftir hverja kind. Næst kemur bú Eiríks Jónssonar í Gýgjarhólskoti, Biskupstungum með 39,6 kíló en það stóð efst á síðasta ári. Þriðja í röðinni er svo Vogabú 1 í Mývatnssveit með 39,2 kíló. Best gerðu sláturlömbin voru hjá Dagbjarti Boga Ingimundarsyni á Brekku í Núpasveit en meðaltal rúmlega 600 sláturlamba er 11,98 í gerðareinkunn. Félagsbúið á Flögu í Þistilfirði er með einkunnina 11,94 og þriðja í röðinni er svo bú Jóns og Ernu á Broddanesi í Kollafirði með einkunnina 11,85.

Bú með 29 kíló eða meira eftir hverja á, þar sem fleiri ær en 100 eru á skýrslum
Bú með 35 kíló eða meira eftir hverja á, óháð fjölda kinda á skýrslum
Bú með 9,5 eða meira í gerð og kjötmat á fleiri en 100 dilkum 

/eib