Námskeið í loftslagsvænum landbúnaði

Í byrjun næsta árs fer af stað verkefnið „Loftslagsvænn landbúnaður“ sem er á vegum Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Undirbúningur verkefnisins hefur staðið yfir af hálfu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Landgræðslunnar, Skógræktarinnar, Landssamtaka sauðfjárbænda og Bændasamtaka Íslands. Markmið verkefnisins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá búrekstri og auka bindingu kolefnis með breyttum áherslum í landnýtingu. Megináherslan verður til að byrja með lögð á sauðfjárrækt og er það í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar. 

Námskeið fyrir bændur
Í febrúar verða haldin heils dags námskeið í loftslagsvænum landbúnaði þar sem bændum og öðrum landeigendum gefst kostur á að efla þekkingu sína á loftslagsmálum og hvaða aðgerðir eru vænlegar til árangurs, svo sem með breyttri landnýtingu, ræktun, áburðarnotkun og fóðrun. Námskeiðsstaðir verða ákveðnir með tilliti til fjölda skráninga á hverju svæði. Takmarkað framboð verður á námskeiðum og því mikilvægt að áhugasamir skrái sig sem fyrst, hér í gegnum heimasíðuna eða með því að hringja í síma 516-5000.

Þátttökubú
Þeim sem eru þátttakendur í gæðastýrðri sauðfjárrækt og hafa lokið námskeiði í Loftslagsvænum landbúnaði mun gefast kostur á að sækja um að verða þátttökubú í verkefninu. Þátttökubúum gefst kostur á aðstoð við að vinna tímasetta áætlun um minnkun á kolefnisspori í búrekstrinum og einnig aðstoð við að koma áætlunum sínum í framkvæmd. Unnið verður út frá forsendum hvers og eins. Ávinningur þátttakenda verður einkum fólginn í betra landi, bættum rekstri, betri nýtingu aðfanga, verðmætari auðlind og hámörkun afurða.

Sjá nánar
Skráning á námskeið

bpb/okg