Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var af fagráði í sauðfjárrækt föstudaginn 28. febrúar veittu sæðingastöðvarnar farandgripi sína. Þetta árið var það Hestbúið sem hlaut viðurkenningu fyrir Durt 16-994 frá Hesti sem var útnefndur besti lambafaðirinn og byggir það mat á niðurstöðum haustsins 2019. Síðan hlutu þau Sigfús og Lilja bændur á Borgarfelli í Skaftártungu viðurkenningu fyrir Klett 13-962 frá Borgarfelli sem mesta kynbótahrútinn 2020. Valið á mesta kynbótahrútnum byggir á alhliða reynslu og er krafa um að tveggja ára reynsla sé kominn á dætur tilkomnar í gegnum sæðingar. Sauðfjárræktarráðunautar RML velja þessa gripi og veita þeim umsagnir.
Durtur 16-994 frá Hesti, Borgarfirði.
Besti lambafaðir stöðvanna árið 2019 er Durtur 16-994 frá Hesti.
Durtur er sonur Rudda 15-737 frá Hesti og dóttursonur Danna 12-923 frá Sveinungsvík. Í þriðja ættlið standa þeir á bakvið hann; Garri 11-908 frá Stóra-Vatnshorni, Grábotni 06-833 frá Vogum 2 og Hergill 08-870 frá Laxárdal. Í fljótu bragði virðist því „Hestblóðið“ ekki þykkt sem um æðar hans rennur. Hins vegar er það í gegnum suma þessa áðurnefndu stöðvahrúta sem rekja má ættir hans í helstu stórstjörnur Hestbúsins á síðari árum og má þar nefna Kveik 05-965, Raft 05-966 og Lóða 00-871.
Durtur var valinn á sæðingastöð á grunni afkvæmarannsóknar á Hesti haustið 2017. Hann fékk strax ágætar viðtökur. Haustið 2018 voru stigaðir 80 synir hans vítt og breytt um landið. Þar kom fram mikið af kostagripum og vinsældir hans jukust í kjölfarið. Síðasta haust átti hann næst stærsta hóp lambhrúta sem til skoðunar kom eða 250 hrútlömb. Þá hefur Durtur þegar skilað öflugum syni inn á stöðvarnar, Glæponi 17-809 frá Hesti.
Afkvæmi Durts eru yfirleitt þroskamikil, með góðan bakvöðva og úrvals lærahold. Ullin er lakasti eiginleiki þeirra. Durtur er engin fituleysiskind en gefur þó ekki óhóflega feitt. Kynbótamat hans fyrir fitu er nú 99 stig. Hann skilar frábæru holdfyllingarmati hjá sláturlömbum. Kynbótamat hans fyrir þann eiginleika stendur nú í 125 stigum. Þar með trónir hann á toppnum fyrir þann eiginleika með afgerandi hætti af núlifandi stöðvahrútum sem hlotið hafa reynslu í gegnum sæðingar.
Durtur gefur úrvals gerð og góðan þroska. Hann hlýtur nafnbótina „besti lambafaðirinn“ fyrir árið 2019.
Klettur 13-962 frá Borgarfelli.
Mesti alhliða kynbótahrútur sæðingastöðvanna árið 2020 er Klettur 13-962 frá Borgarfelli í Skaftártungu.
Að Kletti standa sterkar ættir sem byggja á hinni öflugu fjárrækt heima á Borgarfelli í bland við kynbótahrúta af sæðingastöðvunum. Faðir hans er sonur Stála 06-831 frá Teigi í Fljótshlíð og móðir hans dóttir Kveiks 05-965 frá Hesti. Bæði föðurmóðir og móðurmóðir rekja ættir sínar að Hesti að hluta til og þarf ekki að rekja ættir þeirra langt aftur til að finna höfðingja eins og Hyl 01-883, Bút 93-982 og Möl 95-812. Gunnlöð 08-932 móðir Kletts var frábær afurðaær. Hún bar 24 lömbum og af þeim 13 valin til lífs. Gunnlöð var með 9,9 afurðastig að loknu æviskeiði sínu 9 vetra gömul.
Klettur var valinn til notkunar á sæðingastöðvunum sumarið 2016. Hann fékk strax góðar viðtökur hjá bændum vítt og breytt um landið og var árlega í hópi mest notuðu stöðvahrútanna þá þrjá vetur sem hann þjónaði þar. Samkvæmt Fjárvís hafa verið skráðar 3.150 sæddar ær við Kletti.
Afkvæmi Kletts eru jafnan fremur þroskamikil, þykkt bakvöðva og stigun þeirra hefur legið nærri meðaltölum stöðvahrútanna og þessi lömb eru yfirleitt fremur fitulítil. Hann stendur nú í 109 stigum fyrir gerð samkvæmt BLUP kynbótamati og 115 stigum fyrir fitu. Klettur fer ákaflega vel af stað sem ærfaðir eins og væntingar stóðu til. Dæturnar eru prýðilega frjósamar og stendur hann nú í 112 í kynbótamati fyrir þann eiginleika. Þær virðast jafnframt mjög mjólkurlagnar og þar stendur kynbótamat Kletts í 116. Klettur er því kominn í hóp öflugustu ærfeðra sem fram hafa komið í ræktunarstarfinu.
Klettur er að verða mikill ættfaðir og nú þegar hafa komið fram nokkrir synir hans sem virðast mjög spennandi lambafeður. Næsta víst má telja að afkomendur Kletts verði að finna í hópi stöðvahrútanna á komandi árum.
Klettur er sannarlega einn af öflugustu alhliða kynbótagripum stöðvanna og er vel að því kominn að vera útnefndur „mesti kynbótahrútur sæðingastöðvanna árið 2020“.
ee/okg