Hvaðan kemur ARR arfgerðin?

Í kjölfar þess að hin verndandi arfgerð príonpróteinsins (ARR) fannst í kindum á Þernunesi við Reyðarfjörð bárust böndin að Kambi í Reykhólasveit. Tengingin við Kamb er í gegnum kindina Njálu sem er frá Kambi og er formóðir allra sex gripanna sem báru ARR í Þernunesi og þar af móðir tveggja þeirra.

Á Kambi voru tekin 45 sýni og var þar reynt að velja einstaklinga sem höfðu sem mestan skyldleika við Njálu. Í gær bárust niðurstöður úr leitinni – enginn gripur með ARR. Næsta skref er því að skoða fleiri kindur í Þernunesi og reyna að fá betri mynd á það hvar þessi merka arfgerð liggur í ættum. Í gær voru tekin 95 sýni í Þernunesi sem nú eru á leið til greiningar.

Þá er að hefjast víðtæk leit um allt land í gegnum átaksverkefnið. Þessa dagana er verið að undirbúa umfangsmestu arfgerðargreiningar sem gerðar hafa verið í sauðfjárræktinni þar sem markmiðið er að hvetja bændur til að hefja skipulega ræktun fyrir þolnari arfgerðum gegn riðuveiki. Mikill áhugi hefur verið fyrir því verkefni. Sótt hefur verið um að láta greina rúmlega 34.000 kindur og eru umsækjendur rétt tæplega 500 talsins. Byrjað verður að svara þátttakendum á föstudaginn (4. febrúar) og er stefnt að því að allir fái tölvupóst með upplýsingum um þátttöku þeirra í verkefninu.

Næstu vikur og mánuðir munu því vonandi varpa betra ljósi á það, hvaðan ARR arfgerðin kemur og hversu útbreidd hún er í stofninum.

/okg