Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Við lok aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda voru veitt verðlaun sæðingastöðvanna fyrir besta lambaföðurinn starfsárið 2012-2013 og fyrir mesta alhliða kynbótahrútinn 2014. Faghópur sauðfjárræktar ákveður hvaða hrútar eru valdir ár hvert. Ás 09-877 frá Skriðu fékk verðlaun sem besti lambafaðirinn og Kjarkur 08-840 frá Ytri-Skógum fékk verðlaun sem mesti alhliða kynbótahrúturinn. Ræktendur hrútanna sem verðlaunaðir voru hlutu farandgripi sem Sigríður Kristjánsdóttir á Grund útbjó þegar þessar verðlaunaveitingar hófust árið 2009. Á meðfylgjandi mynd má sjá ræktendur með viðurkenninguna, Sigurð Sigurjónsson, Ytri-Skógum, Þór Jónsteinsson og Sigríði K. Sverrisdóttur, Skriðu. Myndina tók Sigurður Már Harðarson, blaðamaður Bændablaðsins.
Ás 09-877 frá Skriðu - Besti lambafaðir sæðingastöðvanna starfsárið 2012-2013
Vorið 2009 fæddist gemlingslamb norður í Hörgárdal. Hvítur hyrndur hrútur sem síðar átti eftir að verða í hópi fremstu kynbótahrúta landsins m.t.t. kjötgæða. Hrútur þessi er Ás 09-877 frá Skriðu og er hann af sæðingastöðvunum útnefndur Besti lambafaðirinn árið 2014. Hann er úr ræktun þeirra Þórs Jónsteinssonar og Sigríðar K. Sverrisdóttur sem stunda sauðfjárrækt í Skriðu með eftirtektarverðum árangri.
Ás er töluvert fjarskyldur þeim meginhrútalínum sem hafa verið á stöðvunum undanfarin ár. Hann er skyldleikaræktaður út af Smára 06-058 sem keyptur var að Skriðu frá hinu þekkta sauðfjárræktarbúi Smáhömrum í Steingrímsfirði og er af hinum hyrnda stofni þess bús. Foreldrar Áss, Fálki 08-057 frá Skriðu og Mörk 08-257 eru hálfsystkini undan Smára. Ekki er að finna stöðvarhrúta í ættartré Áss í fyrstu þrem ættliðunum en Spakur 00-909 frá Arnarvatni kemur fyrir í fjórða lið í gegnum Smára.
Ás var valinn á stöð sumarið 2012 á grunni athyglisverðrar reynslu úr sinni heimasveit. Hann fékk mikla notkun haustið 2012 og var þá í hópi mest notuðu hrúta stöðvanna. Í þeim stóra hópi lamba sem komu til skoðunar síðastliðið haust undan Ás, var að finna marga úrvalsgripi og fjölda sona sem skipuðu sér í efstu sæti yfir landið.
Afkvæmin eru að jafnaði þéttvaxin, fremur lágfætt en væn. Bakvöðvinn getur verið breytilegur en þó að jafnaði yfir meðallagi miðað afkvæmi annarra stöðvarhrúta og fitan hófleg. Lærholdin eru yfirleitt úrvalsgóð og er Ás annar tveggja hrúta sem skarta hæstu meðaltali fyrir þann eiginleika af stöðvarhrútum síðasta haust. Yfirburðir Áss kristallast í háu kynbótamati fyrir gerð (119 stig) og fitu (115 stig) og er hann í hópi hæst dæmdu hrúta yfir landið fyrir þá eiginleika og langefstur af þeim hrútum sem til greina komu í þessu vali. Ólíkt mörgum stöðvarhrútum, hækkaði mat Áss fyrir kjötgæðaeiginleika eftir að hin víðtæka reynsla fékkst á hann í gegnum sæðingarnar.
Ás skipar sér ótvírætt í hóp yfirburða kynbótagripa m.t.t. kjötgæða og er því vel að því kominn að fá nafnbótina besti lambafaðirinn árið 2014.
Kjarkur 08-840 - Mesti alhliða kynbótahrúturinn 2014
Viðurkenning sæðingastöðvanna fyrir að vera mesti alhliða kynbótahrúturinn árið 2014 kemur í hlut Kjarks 08-840 frá Félagsbúinu að Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum þar sem hann fæddist vorið 2008.
Tilvist Kjarks er nokkrum tilviljunum háð, litlu munaði að hann næði ekk inn í lífhrútahópinn í Ytri-Skógum haustið 2008 en þar lenti hann sökum þess að ákveðið hafði verið að setja á tvo syni Kveiks 05-965. Kveikur hlaut þessi sömu verðlaun árið 2010. Veturinn 2008-2009 var Kjarkur í vandaðri afkvæmarannsókn á heimabúi, í þeirri rannsókn vöktu mesta athygli afkvæmahóparnir undan Kjarki og hinum Kveikssyninum, Stera 08-349. Hópar þeirra voru hnífjafnir að lokinni skoðun lifandi lamba en við slátrun afkvæma þeirra voru fituleysisyfirburðir Kjarks skýrir og veittu honum inngöngu á sæðingastöð þá um haustið.
Veturinn 2009-2010 fékk Kjarkur mikla notkun á sæðingastöð og stór hópur sona hans kom til skoðunar haustið 2010. Afkvæmi hans sýndu góða bakvöðvaþykkt og litla fitu en breytileiki í læraholdum þeirra var meiri en í afkvæmahópnum heima í Skógum haustið 2009. Notkun hans var því minni veturinn 2010-2011 og til stóð að fella Kjark haustið 2011. Dætur hans höfðu sýnt góða frjósemi þá um vorið sem varð til þess að hann fékk að njóta vafans veturinn 2011-2012. Dætur hans sýndu síðan glæsilega niðurstöðu sem afurðaær haustið 2011 sem skilaði Kjarki einu hæsta BLUP-kynbótamati landsins fyrir afurðasemi sem hefur lítillega lækkað frá þeim tíma. Kjarkur fékk síðan gríðarlega mikla notkun veturinn 2012-2013 og voru nærri 400 synir hans skoðaðir vítt um land haustið 2013.
Afkvæmi Kjarks hafa alltaf verið aðeins undir meðaltali í þunga en með þykkan bakvöðva, fitulítil og gerð þeirra breytileg þó ætíð komi fram nokkrir toppar undan honum. Dætur hans hafa síðan reynst mjög frjósamar og góðar afurðaær.
Kjarkur var sinn fimmta vetur á sæðingastöð nú í vetur og hafa rúmlega 4000 ær verið sæddar við honum. Víða má finna góða syni hans og nú þegar eru tveir þeirra komnir til notkunar á sæðingastöð, þeir Hængur 10-903 og Salamon 10-906.
Kjarkur 08-840 stendur því vel undir heiðursnafnbótinni mesti alhliða kynbótahrúturinn 2014.
ee/eib