Hrútaskrá 2015-16 kemur út í lok næstu viku

Kjarkur 11-947
Kjarkur 11-947

Nú hillir undir útgáfu hrútaskrárinnar sem margir eru eflaust farnir að bíða með nokkurri eftirvæntingu. Verið er að leggja lokahönd á skrána fyrir prentun og unnið dag og nótt að því að ná allra nýjustu upplýsingum með í ritið, þ.e. nýju kynbótamati fyrir hrútana. Áður hefur komið fram hér á síðunni hvaða hrútar verða á sæðingastöðvunum í vetur en í skránni verða upplýsingar um samtals 45 kynbótahrúta.

Skráin fer til dreifingar strax að lokinni prentun og verður dreift á hefðbundinn hátt, einkum og sér í lagi á sauðfjárræktarfundum sem haldnir verða um land allt nú undir lok nóvember. Sauðfjársæðingavertíðin hefst svo á jólaföstunni en útsending sæðis frá sauðfjársæðingastöðvunum hefst 1. desember n.k. og mun standa til 21. desember eða samfleytt í þrjár vikur.

Vonir standa til að vefútgáfa af skránni birtist hér á vefnum á morgun eða í síðasta lagi í byrjun næstu viku.

/gj