Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á Hvanneyri fimmtudaginn 21. mars voru veitt verðlaun, sem kalla má þau æðstu sem veitt eru vegna sauðfjárræktar.
Halldórsskjöldurinn
Hinn glæsilegi Halldórsskjöldur er veittur af fagráði í sauðfjárrækt sauðfjárræktarbúi ársins og var hann nú afhentur í þriðja sinn. Búið er valið útfrá heildareinkunn ánna í kynbótamati auk þess sem búið þar að standast ýmis viðmið, m.a. að komast á lista yfir úrvalsbú. Sá listi er aðgengilegur inn á heimasíðu RML ásamt öðrum niðurstöðum úr skýrsluhaldinu fyrir síðasta ár.
Að þessu sinn var það Gýgjarhólskot í Biskupstungum sem stendur efst búa. Líkt og fram kom í umfjöllun um búið, hefur það á síðustu 10 árum staðið 9 sinnum efst yfir landið fyrir afurðir en þarna fer saman mjög öflugt ræktunarstarf og bústjórn sem stuðlar að hámarks afurðum.
Besti lambafaðirinn
Sæðingastöðvarnar veita verðlaun þeim lambaföðir sæðingastöðvanna sem þykir hafa skarað fram úr á liðinu hausti. Að þessu sinni var það Gullmoli 22-902 frá Þernunesi sem hlaut verðlaunin. Hans helsti keppinautur var Glæsir 19-887 frá Litlu-Ávík en þeir áttu þá lambhrúta hópa sl. haust sem voru að jafnaði með flest heildarstig. Gullmoli átti stærri afkvæmahóp, skilaði meiri þunga og voru synir hans m.a. hæstir fyrir lærastig og samræmi. Þar sem Gullmoli er einn af upphafs hrútum stöðvanna sem ber ARR genasamsætuna var það ákaflega ánægjulegt að hann skuli jafnframt vera yfirburðar kynbótagripur sem lambafaðir.
Gullmoli stendur nú með 118 stig í BLUP kynbótamati fyrir gerð, 100 fyrir fitu og 125 stig fyrir fallþunga – bein vaxtaráhrif.
Mynd: Gullmoli
Mesti kynbótahrúturinn
Verðlaun fyrir mesta kynbótahrútinn eru veitt þeim stöðvahrút sem bæði hefur staðið sig vel sem lambafaðir og sem ærfaðir. Hrútar sem keppa um þennan titil þurfa að eiga upplýsingar um dætur sem tilkomnar eru með sæðingum og komin er a.m.k. tveggja ára reynsla á dæturnar samkvæmt uppgjöri skýrsluhaldsins í sauðfjárrækt.
Sá hrútur sem valinn var að þessu sinn er Blossi 16-837 frá Teigi 1 í Fljótshlíð. Yfirburðir Blossa sem kynbótagrips felast fyrst og fremst í því hve frjósamar og mjólkurlagnar dætur hans eru. Í kynbótamati stendur Blossi með 106 stig fyrri gerð, 99 fyrir fitu, 115 fyrir fallþunga – bein áhrif og 116 fyrir fallþunga – mæðraáhrif. Þá er hann með 124 fyrir frjósemi og 120 fyrir mjólkurlagni.
Mynd: Blossi
Hér að neðan er tengill á upptöku frá fagfundinum, en á mínútu 4:18:00 hefst þessi liður í dagskránni. Þar má því heyra meira um afrek verðlaunahafa og sjá afhendingu verðlaunanna.
Sjá nánar:
Upptaka frá fagfundinum
/okg