Enn fjölgar „ARR bæjum“

Nú standa yfir greiningar á sýnum úr kindum úr Dölunum. Það er annarsvegar restin af hjörðinni í Vífilsdal og hinsvegar frá fimm bæjum sem eiga kindur sem skyldar eru þeim kindum sem fundust með ARR í Vífilsdal. Hluti af niðurstöðunum er nú komnar og þar með orðið ljóst að tveir nýir bæir bætast í hóp „ARR búa“, en ARR hefur verið staðfest í tveim kindum á Háafelli í Miðdölum og í þremur kindum í Geirshlíð í Hörðudal. Þessar kindur eru, líkt og allar þær sem þegar hafa fundist í Vífilsdal, afkomendur Golsa 02-346 frá Háafelli. Í Geirshlíð er um að ræða þrjár ær, tvær af þeim eru svargolsóttar, önnur hyrnd en hin kollótt. Þriðja ærin í Geirshlíð er hvít að lit, hyrnd og er hún sammæðra þeirri golsóttu hyrndu. Á Háafelli fannst ARR í tveim ám, báðar hyrndar og hvítar að lit.

Mynd: 21-160 frá Geirshlíð – ein af nýju „ARR kindunum“.

/okg