DNA sýnataka samhliða sauðfjárdómum

Pöntunarformið fyrir lambaskoðanir býður nú upp á, að samhliða sauðfjárdómunum er hægt að panta DNA sýnatöku. Þessi sýni verða send til greiningar hjá Matís. Fyrst og fremst er hér verið að horfa til arfgerðagreininga m.t.t. mótstöðu gegn riðuveiki.

Gert er ráð fyrir að fyrsta sending af sýnum fari í greiningu í lok september. Niðurstöður þeirra sýna ættu að liggja fyrir um miðjan október þannig að nýta megi upplýsingarnar við ásetningsvalið. Miðað verður við að til þess að sýni nái inn í þessa sendingu þurfi að taka þau eigi síðar en 25. september. Niðurstöður fyrir sýni sem tekin verða eftir 25. sept. er ekki hægt að ábyrgjast að liggi fyrir áður en hefðbundinni sláturtíð líkur. Almennt verð á greiningu á vegum RML (riðuarfgerðagreining) er 5.500 kr (+ vsk.) pr. sýni. Hinsvegar ef næg þátttaka næst í septembersendinguna (heildarfjöldi sýna á vegum RML send í lok september) þá verður veittur 10% afsláttur vegna þeirra sýna og myndi þá greiningin kosta 4.950 kr. (+ vsk.). Kostnaður við sýnatöku yrði inn í tímagjaldi vegna sauðfjárskoðunarinnar.

Af hverju að taka sýni?

  • Það er þekkt í okkar sauðfjárstofni að kindur eru misnæmar fyrir því að taka upp riðusmit. Vitað er að breytileiki í ákveðnum sætum á priongeninu skiptir máli.
  • Hér á landi er talað um þrjár arfgerðir sem byggja á breytileika í priongeninu í sætum 136 og 154 en það er svokölluð áhættuarfgerð, hlutlaus arfgerð og lítið næm arfgerð. Víða erlendis má svo finna enn öflugri arfgerð, sem kölluð er verndandi (byggir á breytileika í sæti 171) en sú arfgerð hefur enn ekki fundist hér. Vonandi mun vitneskja um mismunandi arfgerðir m.t.t. þoli gegn riðusmiti aukast á næstu árum.
  • Fyrir bændur sem búa á svæðum sem telja má áhættusvæði gagnvart riðu ætti að vera eftirsóknarvert að vinn að því að útrýma áhættu arfgerðinni og auka tíðni lítið næmu arfgerðarinnar til að stuðla að því að stofninn sé þolnari. Bændur á sölusvæðunum þurfa einnig að leggja þessu lið, enda ætti það að vera góð markaðsvara að eiga til sölu gripi með lítið næma arfgerð en að sama skapi ætti ekki að selja gripi með áhættuarfgerð milli hólfa.
  • Ágæt leið er að greina ásetningshrútana. Því getur verið kostur, að þegar búið er að velja ríflega þann hóp ásetningshrúta sem til álita kemur, að beita niðurstöðum arfgerðagreininga við lokavalið. Fyrir einhverja mun því kannski henta að taka sýni um leið og búið er að skoða og mæla hrútana.

/okg