Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Verðlaunahafar sæðingastöðvanna
Í tengslum við aðalfund LS fór fram verðlaunaveiting sæðnigastöðvanna fyrir besta lambafaðir stöðvanna framleiðsluárið 2015 til 2016 og mesta kynbótahrútinn árið 2017. Það eru ræktendur hrútanna sem hljóta verðlaunin. Valið á verðlaunahrútunum er í höndum faghóps sauðfjárræktar hjá RML.
Besti lambafaðirinn
Í ár var það hrúturinn Burkni 13-951 frá Mýrum 2 í Hrútafirði sem hlaut viðurkenninguna sem besti lambafaðirinn. Við verðlaunum tóku þau Böðvar Sigvaldi Böðvarsson og Ólöf Þorsteinsdóttir, bændur á Mýrum 2 í Hrútafirði.
Burkni hlaut eftirfarandi umsögn:
Viðurkenning sæðingastöðvanna fyrir „Besta lambaföður“ stöðvanna á starfsárinu 2015 - 2016 kemur í hlut Burkna 13-951. Hann er fæddur að Mýrum 2 við Hrútafjörð vorið 2013. Valið byggir á skoðun lamba sem komu til dóms haustið 2016.
Faðir Burkna er Birkir 10-893 frá Bjarnastöðum í Öxarfirði en móðurfaðir hans er Arafat 06-224 frá Bergsstöðum í Miðfirði sem er í langfeðratali afkomandi stöðvahrútanna Kulda 03-924 frá Hesti og Vinar 99-867 frá Voðmúlastöðum.
Burkni vakti fyrst eftirtekt fyrir framúrskarandi niðurstöður í stórri afkvæmarannsókn heima á Mýrum. Gæði hans voru síðan enn betur staðfest í afkvæmarannsókn á vegum sauðfjársæðingastöðvanna fyrir úrvalshrúta úr Miðfjarðarhólfi, sem fram fór að Þóroddsstöðum í Hrútafirði. Þar atti hann meðal annars kappi við hálfbróður sinn að föðurnum Börk 13-952 frá Efri-Fitjum. Í kjölfar glæsilegra niðurstaðna fóru þeir báðir í notkun á sauðfjársæðingastöðvunum haustið 2015.
Stigaðir voru rétt um 200 lambhrútar undan Burkna sl. haust og var þar að finna margan holdahnausinn. Synir hans mældust að jafnaði með þykkastan bakvöðva eða sem nam 31,7 mm. Þá sýna niðurstöður kynbótamats fyrir skrokkgæði að afkvæmi Burkna sameina hvað best góða gerð og hóflega fitu af þeim hrútum sem voru í notkun á stöðvunum veturinn 2015-2016. Burkni stendur mjög ofarlega í kynbótamati fyrir skrokkgæði með 115 (118 fyrir gerð og 112 fyrir fitu). Helsti ljóður á afkvæmum Burkna er að ull þeirra er oft áberandi gul. Burkni skipar sér ótvírætt í hóp yfirburða kynbótagripa m.t.t. kjötgæða og ber því vel nafnbótina „Besti lambafaðirinn“ árið 2016.
Mesti alhliða kynbótahrúturinn
Það var Bekri 12-911 frá Hesti sem var útnefndur „mesti alhliða kynbótahrútur stöðvanna árið 2017“. Fyrir hönd fjárræktarbúsins á Hesti veitt Eyjólfur Kristinn Örnólfsson verðlaununum viðtöku.
Umsögnin sem Bekri fékk er eftirfarandi:
Mesti alhliða kynbótahrútur sæðingastöðvanna árið 2017 er Bekri 12-911 frá Hesti.
Bekri var valinn til notkunar á sæðingastöðvunum að aflokinni afkvæmarrannsókn á Hesti haustið 2013, en hann var þá í hópi fjögurra veturgamalla „Hesthrúta“ sem fengnir voru það haust til að þjóna á stöðvunum.
Ferill Bekra hefur verið mjög farsæll fram til þessa. Hann skipaði sér strax í hóp með betri lambafeðrum stöðvanna og síðan hefur reynsla af dætrum verið mjög jákvæð og ýtt frekar undir vinsældir hans. Eftir fyrstu þrjá vetur á stöð höfðu 2.546 ær verið sæddar við honum samkvæmt skráningum í Fjárvís.is. Haustið 2016 var hann síðan einn af mest notuðu hrútum stöðvanna og útsendir skammtar rétt um 2.000.
Bekri er úrvals lambafaðir. Einkennandi fyrir afkvæmin er góður þroski og mikil holdfylling. Afkvæmin eru yfirleitt jafnvaxin og heilsteyptir einstaklingar, mörg hver glæsigripir sem bjóða af sér góðan þokka. Dæturnar, sem þegar telja á sjötta hundrað á skýrslum, er bæði frjósamar og mjólkurlagnar.
Að baki Bekra standa gríðar sterkir kynbótahrútar en þeir Grábotni 06-833 faðir hans og Raftur 05-966 móðurfaðir hans hafa báðir hampað þeim sömu verðlaunum og Bekri hlýtur nú. Bætist Bekri í hóp þeirra fjölmörgu úrvalsgripa sem fjárræktarbúið á Hesti hefur skilað af sér í gegnum tíðina.
Bekri er heilsteyptur kynbótahrútur sem ber með sóma heiðursnafnbótina „mesti kynbótahrútur stöðvanna 2017“.
Myndin sem fylgir er tekin af ljósmyndara Bændablaðsins og á henni má sjá Eyjólf Kristinn sem tók við verðlaunum fyrir Bekra 12-911 frá Hesti og þau Böðvar Sigvalda og Ólöfu, bændur á Mýrum 2 sem tóku við verðlaunum fyrir Burkna 13-951.
Reglur um verðlaunaveitingu sæðingastöðvahrúta og lista yfir þá hrúta sem áður hafa hlotið verðlaun má finna í gegnum tengilinn hér neðar að neðan:
Hrútaverðlaun sæðingastöðvanna
ee/okg