Bætt beitarstjórnun - lykill að auknum afurðum - Fagráðstefna um beitarstjórnun og sníkjudýravarnir á sauðfjárbúum

Augljóst samband er milli þéttleika í högum og afurðasemi búfjár. Einhvers staðar er skurðpunktur þar sem hámarksnýtingu er náð. Ef farið er yfir þann punkt er jafnvel bæði farið að ganga á landgæðin og búreksturinn orðinn óhagkvæmari sökum lakari afurða. Ástæður þess að afurðir minnka geta bæði verið að framboð af góðri beit er of lítið og að smitálag í högum er of mikið. Með góðu beitarskipulagi má vinna gegn þessum fylgifiskum aukins beitarálags. 

Víða erlendis þar sem búið er við mikinn þéttleika sauðfjár í högum er lögð þung áhersla á beitarstýringu og varnir gegn sníkjudýrum. Mótstaða gegn ormasmiti er t.d. sumstaðar tekin inn í ræktunarstarfið. Hér á landi eru aðstæður á vissan hátt ólíkar því sem gerist almennt erlendis. Engu að síður eru víða dæmi hérlendis þar sem beitarþungi er mikill vor og haust og miklar líkur á að mikið smitálag í högum hamli vexti lamba.

Rannsóknir og leiðbeiningar tengdar beitarstjórnun og sníkjudýravörnum fyrir sauðfjárbændur hafa ekki verið stundaðar í miklum mæli á síðustu árum og eru orðnir nokkrir áratugir síðan helstu rannsóknir fóru fram á þessu sviði hér á landi.

Fagráð í sauðfjárrækt ákvað því að taka þennan málaflokk fyrir á fagráðstefnu sem haldin verður í tengslum við aðalfund LS nú í mars. Markmiðið er að fá innsýn í það hvernig leiðbeiningum er háttað í dag hjá þjóð sem leggur mikið upp úr góðri beitarstýringu en jafnframt að draga fram þá reynslu og þekkingu sem okkar sérfræðingar hafa fram að færa um beitarstjórnun á ræktuðu landi og varnir gegn sníkjudýrasmiti.

Á ráðstefnunni munu þrír sérfræðingar í málefnum tengdum beit og sníkjudýravörnum flytja erindi. Fyrstan skal nefna Skotann Rhidian Jones sem vinnur hjá SAC Consulting. SAC er skammstöfun fyrir Scottish Agricultural College og er það partur af skoska landbúnaðarháskólanum SRUC. Rhidian starfar sem ráðgjafi fyrir bændur, m.a. í beitarnýtingu og sjúkdómavörnum. Hann mun fjalla um beitarskipulag, mat á hæfilegu beitarálagi, sníkjudýravarnir með lyfjum og beitarskipulagi og hvernig staðið er að kynbótum fyrir mótstöðu við ormasmiti. Dr. Jóhannes Sveinbjörnsson, bóndi á Heiðarbæ og sérfræðingur hjá LbhÍ, mun fjalla um nýtingu ræktaðs lands og beitarstjórnun út frá íslenskum aðstæðum og rannsóknum. Þá mun Hákon Hansson dýralæknir fjalla um forvarnir og meðhöndlun við orma- og hníslasmiti hér á landi.

Ráðstefnan fer fram í Bændahöllinni föstudaginn 27. mars. Hún stendur frá 14:30 til 17:30 og er öllum opin. Hér er gott tækifæri fyrir bændur til að auka þekkingu sína. Þetta er málaflokkur sem við þurfum örugglega að gefa meiri gaum en bætt beitarstjórnun getur verið lykillinn að auknum afurðum hjá mörgum sauðfjárbændum.

ee/okg