Verð eyrnamerkja í nautgripi lækkar um 15% þann 1. júní n.k.

Þann 1. júní nk. verður breyting á sölufyrirkomulagi plötumerkja í nautgripi og svín við pantanir í einstaklingsmerkingakerfinu MARK (www.bufe.is). Bændasamtök Íslands munu hætta umsýslu með sölu merkjanna og á sama tíma verður hætt að draga kaupverð á plötumerkjum í nautgripi af beingreiðslum til bænda. Kaup og sala á plötumerkjum verður frá og með 1. júní 2015 alfarið á milli merkjasala og bænda, eins og verið hefur við pöntun á t.d. plötumerkjum fyrir sauðfé. Merki verður eftir sem áður hægt að panta í gegnum MARK og þar verður engin breyting á fyrirkomulagi við pöntun. Eina breytingin er, eins og áður sagði, að frá og með 1. júní n.k. verður sendur reikningur með pöntuðum merkjum en kaupverðið ekki dregið af beingreiðslum.

Söluaðili allra plötumerkja í nautgripi er Plastiðjan Bjarg-Iðjulundur á Akureyri en þar hefur ákveðið að lækka verð á Combi-2000 forprentuðum plötumerkjum í bæði eyru fyrir nautgripi, frá og með 1. júní nk. í 252 kr./stk. án vsk, sem er um 15% lækkun frá núverandi verði.

/gj