Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Undanfarin misseri hefur á vettvangi Bændasamtaka Íslands, í samstarfi við Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins og Landbúnaðarháskóla Íslands, verið unnið við undirbúning að mögulegri innleiðingu á erfðamengisúrvali í íslenskri nautgriparækt. Fyrsta hluta þess undirbúnings er um það bil að ljúka, en hann felst í greiningu á ýmsum þáttum er varða erfðafræðilega stöðu stofnsins, skyldleika hans við önnur kúakyn o.s.frv.
Greining á arfgerð 500 reyndra nauta
Þá er hafinn undirbúningur að greiningu á arfgerð nauta sem farið hafa í afkvæmaprófun á vettvangi Nautastöðvar BÍ. Er þar horft til þeirra gripa sem fæddir eru á árunum 1990-2012 og hafa sæðissýni úr tæplega 500 nautum úr þessum árgöngum verið safnað og fara þau vonandi í greiningu í haust. Til að mynda sk. viðmiðunarstofn, það eru gripir sem bæði hafa greiningu á arfgerð og mælingar á svipgerð (afurðir, útlit, frumutala, mjaltir, skap o.s.frv.) þarf þó mun fleiri gripi en þessi 500 naut. Ekki þjónar miklum tilgangi að fara lengra aftur í tímann en 1990, þar sem afkvæmi nautanna sem komu í heiminn á þeim árum skortir svipfarsmælingar á mikilvægum eiginleikum, dæmi um slíkt er línulegt útlitsmat gripa sem hefur verið mælikvarði á byggingu gripanna í um tvo áratugi.
Sýni úr 7.500 gripum
Til að vega á móti því hversu fá reyndu nautin eru, hafa vísindamenn við Árósaháskóla sem verið hafa okkur til ráðuneytis í málinu, lagt til að tekin verði vefjasýni úr 5.000 kúm hið minnsta og mælingar á arfgerð þeirra verið lögð til grundvallar að framangreindum viðmiðunarstofni. Sú sýnasöfnun er að hefjast af fullum krafti. Um hana sjá Baldur Helgi Benjamínsson, verkefnisstjóri hjá BÍ og Guðmundur Jóhannesson, ábyrgðarmaður nautgriparæktar hjá RML. Verkefnið er fjármagnað af Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Landssambandi kúabænda. 124 bú um land allt uppfylla skilyrði verkefnisins um gagnagæði (nýting mjólkur sé á bilinu 90-99,9% undanfarin 3 ár, skýrsluskil og mjólkursýnataka sé regluleg og að minnst 75% af kúm og kvígum á búinu séu undan sæðinganautum). Haft verður samband við bændur á þessum búum áður en sýnataka fer fram. Leitast verður við að taka sýni úr öllum kvendýrum á búinu; kúm og kvígum. Samráð hefur verið haft við Dýraverndarfélag Íslands vegna þessa verkefnis og þar sem verkefnið er flokkað sem dýratilraun, var sótt um leyfi til Matvælastofnunar vegna þess, sem stofnunin veitti um miðjan júní sl., að veittri jákvæðri umsögn Fagráðs um velferð dýra.
Framkvæmd sýnatöku
Tekin verða örsmá vefjasýni úr eyrum gripanna með sk. „tissue sampling unit“ frá hinum þekkta gripamerkjaframleiðanda Allflex. Sýnatökubúnaðurinn samanstendur af töng sem sýnatökuglasi er komið fyrir í. Í loki þess er hringlaga hnífur sem tekur ca. 3 mm sveran kjarna úr húð gripsins, sem dettur ofan í glasið og það lokast um leið og sýnið er tekið. Á hlið glassins er sýnisnúmer sem skráð er samhliða einkvæmu númeri gripsins. Hér má sjá myndband af sýnatökunni. Í skýrsluhaldskerfið Huppu hefur verið útbúinn skráningarhamur, þar sem síðan er hægt að skanna sýnanúmerin beint á viðkomandi grip.
bhb/gj