Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Fyrir skömmu kom út grein eftir Egil Gautason sem stundar doktorsnám við Háskólann í Árósum sem nefnist "Relationship of Icelandic cattle with Northern and Western European cattle breeds, admixture and population structure". Hún fjallar um skyldleika íslenskra kúa við önnur kúakyn og inniheldur fyrstu rannsóknaniðurstöður doktorsverkefnis Egils sem miðar að innleiðingu erfðamengisúrvals fyrir íslenska kúastofninn. Í greininni fer Egill yfir skyldleika íslenska kúakynsins við önnur kúakyn ásamt því að skoða áhrif innflutnings á stofninn og erfðafræðilega byggingu hans.
Íslenska kúakynið er norrænt en frábrugðið öðrum kúakynjum
„Niðurstöðurnar til norræns uppruna, og þá að sjálfsögðu líklegast frá Noregi, en þar sem arfgreiningar eru ekki til fyrir gömlu norsku landkynin, var ekki hægt að staðfesta það. Ég rannsakaði sérstaklega skyldleika við Bretlandseyjar, og það er ekkert sem bendir til skyldleika íslenskra kúa við bresk kyn. Íslenskar kýr tilheyra hópi norðurnorrænna kúakynja. Önnur kúakyn sem tilheyra þeim hópi eru meðal annars sænskar fjallakýr, finnsku landkynin Suomenkarja/Finncattle, og svartsíðóttar Þrænda- og Norðlandskýr. Íslenska kýrin er eini stóri og óblandaði stofninn innan þessa hóps. Þessar niðurstöður eru í samræmi við fyrri rannsóknir, en nýrri rannsóknaraðferðir og betri gögn gera þessa niðurstöðu algjörlega óyggjandi“, segir Egill.
Rannsóknin rennir stoðum undir erfðafræðilega sérstöðu íslenska kúakynsins en samsætutíðni er verulega frábrugðin öllum þeim 28 kúakynjum sem voru til samanburðar. Verndargildi stofnsins er því án efa mjög mikið.
Innflutningur ekki haft áhrif á stofninn
Egill skoðaði einnig áhrif innflutnings fyrr á öldum, sem virðast nánast engin, en gögnin eru vandtúlkuð fram yfir það. „Gögnin benda mögulega til þess að gripir af ýmsum kynjum hafi verið fluttir inn á 19. eða 20. öld, án þess að hafa haft mikil áhrif. Áhrif innflutnings danskra rauðra kúa er varla finnanlegur, sem kom nokkuð á óvart þar sem nokkrar heimildir eru um innflutning slíkra gripa. Þá hafa holdakynin Galloway, Limousin og Aberdeen Angus haft mjög hverfandi áhrif á íslenska stofninn“, segir Egill ennfremur.
Egill rannsakaði erfðafræðilega byggingu íslenska kúastofnsins (kerfisbundinn breytileika samsætutíðni) og benda niðurstöður hans til erfðalegrar einsleitni, þ.e. að innan kynsins er ekki að finna neina undirstofna. Sá litli kerfisbundni breytileiki sem er til staðar má skýra með áhrifum þriggja nauta, þeirra Stígs 97010, Fonts 98027 og Laska 00010. Þrátt fyrir mikla einsleitni er ekkert sem bendir til þess að erfðabreytileika skorti til áframhaldandi ræktunar. Ekki er að finna neinn kerfisbundinn breytileika milli einstaklinga umfram skyldleika við ákveðin naut. Einsleitni stofnsins er gagnleg fyrir erfðamat þegar til þess kemur.
Meðhöfundar Egils eru Anna A. Schönherz, Goutam Sahana og Bernt Guldbrandtsen sem öll starfa við Háskólann í Árósum, nánar tiltekið í Foulum.
Þeir sem hafa aðgang Acta Agriculturae Scandinavica geta nálgast greinina með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.
/gj