Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautgriparæktinni 2018 hafa verið reiknaðar og birtar á vef okkar.
Á árinu 2017 tók gildi sú breyting að afurðaskýrsluhald er nú skilyrði fyrir greiðslum samkvæmt samningi um starfsskilyrði í nautgriparækt. Þetta þýðir að skýrsluhald er í raun skylda fyrir alla framleiðendur mjólkur og nautakjöts, í það minnsta sé ætlunin að halda gripa- og beingreiðslum. Vegna þessa er þátttaka í skýrsluhaldi hérlendis um 100%.
Mjólkurframleiðslan
Þeir framleiðendur sem skiluðu einhverjum upplýsingum um afurðir kúa sinna á nýliðnu ári voru 569 en á árinu 2017 voru þeir 581. Niðurstöðurnar eru þær helstar að 26.207,7 árskýr skiluðu 6.275 kg nyt að meðaltali. Það er afurðaaukning um 116 kg frá árinu 2017 en þá skilaði 26.352,1 árskýr meðalnyt upp á 6.159 kg. Jafnframt eru þetta mestu meðalafurðir frá upphafi vega og þriðja árið í röð sem þær ná yfir 6.000 kg eftir árskú. Umreiknaðar í orkuleiðrétta mjólk (OLM) eru meðalafurðir síðasta árs 6.516 kg/árskú.
Meðalbústærð reiknaðist 47,1 árskýr á árinu 2018 en sambærileg tala var 45,4 árið á undan. Meðalbústærð reiknuð í skýrslufærðum kúm var nú 63,0 kýr en 2017 reiknuðust þær 60,9. Samtals voru skýrslufærðar kýr ársins 35.823 talsins.
Á árinu 2018 var framsetningu á mánaðarlegum niðurstöðum skýrsluhaldsins breytt. Uppgjörssvæði voru stækkuð. Þetta var meðal annars gert til þess að gera meðaltöl marktækari. Þá var farið að birta mun fleiri lykiltölur en áður.
Á árinu voru mestar meðalafurðir á Austurlandi, 6.649 kg, og síðan kemur Norðurland eystra með 6.481 kg. Stærst eru búin að meðaltali á Austurlandi, 49,7 árskýr, en næststærst á Suðurlandi, 49,0 árskýr.
Mestar meðalafurðir á Hóli í Svarfaðardal – en metið á Brúsastöðum stendur
Mest meðalnyt eftir árskú á nýliðnu ári, 2018, var á búi þeirra Karls Inga og Erlu Hrannar á Hóli í Svarfaðardal en búið stóð annað í röð afurðahæstu búa árið áður. Afurðir kúnna á Hóli voru að meðaltali 8.902 kg/árskú og fóru nærri tveggja ára gömlu Íslandsmeti kúnna á Brúsastöðum í Vatnsdal sem er 8.990 kg. Brúsastaðir í Vatnsdal er einmitt það bú sem skipar annað sæti listans að þessu sinni með 8.461 kg/árskú en hafði vermt efsta sætið árið áður auk áranna 2013, 2014 og 2016.
Þriðja í röðinni við uppgjörið nú var bú Guðlaugar og Jóhannesar Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit á norðanverðu Snæfellsnesi en þar var meðalnyt árskúnna 8.452 kg. Í fjórða sæti var Hvanneyrarbúið ehf. á Hvanneyri í Andakíl í Borgarfirði þar sem meðalafurðir árskúnna voru 8.289 kg og fimmta búið var Félagsbúið á Syðri-Grund í Grýtubakkahreppi með 8.237 kg eftir árskú. Sjötta í röðinni var bú Gunnbjarnar ehf. í Gnúpverjahreppi hinum forna eða Eystrihreppi eins og hann var áður nefndur. Meðalnytin þar var 8.223 kg eftir árskú. Þessum búum til viðbótar náðu átta bú yfir 8.000 kg meðalafurðum eftir árskú.
Randafluga 1035 í Birtingaholti 4 mjólkaði mest
Nythæsta kýrin á landinu árið 2018 var Randafluga 1035 í Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi, dóttir Bola 620, sem var sonur Kastala 07003, en hún mjólkaði 13.497 kg með 4,17% fitu og 3,13% próteini. Burðartími Randaflugu féll mjög vel að almanaksárinu en hún bar sínum fjórða kálfi 3. janúar 2018. Randafluga fór hæst í 55,1 kg dagsnyt á nýliðnu ári en var komin í geldstöðu í desember s.l. Hún sýndi strax á sínu fyrsta mjólkurskeiði mikla afurðagetu er hún fór í 30 kg dagsnyt og náði mjaltaskeiðsafurðum upp á 9.344 kg. Skráðar æviafurðir hennar á fjórum mjaltaskeiðum voru 44.998 kg um síðustu áramót. Randafluga stendur þegar þetta er skrifað með 113 í kynbótamat, þar af 132 fyrir afurðir og á nautastöðinni á Hesti sinnir nú rétt um ársgamall sonur hennar og Úranusar 10081, Humall 18001, því hlutverki sínu að gefa sæði til kynbóta á íslenska kúastofninum.
Önnur í röðinni árið 2018 var kýr nr. 1038 í Hólmi í Austur-Landeyjum, undan Vindli 05028, en hún mjólkaði 13.736 kg með 4,53% fitu og 3,24% próteini. Þessi kýr bar öðrum kálfi sínum 17. desember 2017 og fór hæst í 48,1 kg dagsnyt á árinu 2018. Skráðar æviafurðir hennar eru 22.112 kg. Þriðja nythæsta kýrin var kýr nr. 848 í Flatey í Hornafirði, undan Otri 11021, en nyt hennar á árinu var 13.678 kg með 3,69% fitu og 3,16% próteini. Hún bar sínum þriðja kálfi 23. nóvember 2017, fór hæst í 48,1 kg dagsnyt og skráðar æviafurðir hennar eru 23.559 kg. Fjórða nythæsta kýrin var kýr nr. 482 á Syðri-Grund í Grýtubakkahreppi, dóttir Kambs 06022, en hún mjólkaði 13.521 kg með 3,94% fitu og 3,41% próteini. Hún bar þriðja sinni og þá tvíkelfingum á Þorláksmessudag 2017, fór hæst í 43,5 kg dagsnyt á árinu 2018 og skráðar æviafurðir eru 29.221 kg. Fimmta í röðinni var Drottning 1945 í Birtingaholti 1 í Hrunamannahreppi, dóttir 1780, sonar Kola 06003. Drottning bar öðrum kálfi sínum 16. desember 2017 og fór hæst í 50,5 kg dagsnyt á mjólkurskeiðinu en hún skilaði 13.481 kg á árinu með 4,13% fitu og 3,46% prótein. Skráðar æviafurðir Drottningar eru 23.737 kg.
Alls skilaði 91 kýr afurðum yfir 11.000 kg og þar af 16 yfir 12.000 kg. Árið 2017 náðu 77 kýr nyt yfir 11.000 kg.
Braut 112 á Tjörn á Skaga við 100 tonna múrinn
Af þeim kúm sem eru á lífi í dag státar nú Braut 112 á Tjörn á Skaga, dóttir Stígs 97010, af mestum æviafurðum. Um áramótin hafði hún mjólkað 98.955 kg þannig að óðfluga styttist í 100 tonnin. Braut 112 er fædd 12. september 2005 og átti sinn fyrsta kálf 23. október 2007 en alls hefur hún borið 10 sinnum að meðtöldum tveimur fósturlátum. Þrátt fyrir þau áföll er Braut nú búin að mjólka 98.955 kg mjólkur. Mestum afurðum á einu almanaksári náði hún 2011, 10.961 kg. Mestum afurðum á einu mjólkurskeiði, í það minnsta hingað til, hefur hún náð á yfirstandandi mjólkurskeiði, 18.354 kg, um síðustu áramót. Þetta mjólkurskeið er orðið langt en hún bar síðast 7. febrúar 2017. Endist henni aldur og heilsa verður það enn lengra. Hún var hins vegar enn að og við mælingu í desember var Braut í 23 kg dagsnyt. Hún á því góða möguleika á að rjúfa 100 tonna múrinn á allra næstu misserum.
Næst Braut 112 stendur Jana 432 á Ölkeldu 2 í Staðarsveit á Snæfellsnesi en hún hafði um síðustu áramót mjólkað 95.069 kg.
Núverandi Íslandsmet í æviafurðum á Mókolla 230, dóttir Snarfara 93018, á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð, 117.635 kg.
Mjólkurframleiðendum öllum, en ekki síst ábúendum á Hóli í Svarfaðardal og Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi, óskum við til hamingju með glæsilegan árangur og þökkum samstarfið á nýliðnu ári.
Nautakjötsframleiðslan
Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni 2018 hafa verið reiknaðar og birtar á vef okkar.
Sú breyting að afurðaskýrsluhald er nú skilyrði fyrir greiðslum samkvæmt samningi um starfskilyrði í nautgriparækt þýðir að skýrsluhald er í raun og veru skylda fyrir alla framleiðendur mjólkur og nautakjöts, í það minnsta ætli menn að halda gripa- og beingreiðslum. Þetta hefur orðið til þess að skapa grunn að skýrsluhaldi í nautakjötsframleiðslu, nokkuð sem er nýtt hérlendis.
Undir lok síðasta árs var byrjað að birta uppgjör fyrir nautakjötsframleiðsluna og nær það uppgjör til þeirra búa þar sem haldnar eru kýr til kjötframleiðslu. Þessar niðurstöður ná ekki yfir slíkar kýr sem eru á búum þar sem er mjólkurframleiðsla. Þetta má líta á sem bæði kost og galla.
Skýrsluhald nautakjötsframleiðslunnar árið 2018 nær til 105 búa og þar af er að finna holdakýr skráðar af erlendu kyni á 67. Fjöldi kúa á þessum búum var við uppgjör ársins 2.217 talsins og var meðalfjöldi kúa á bú 21,1 sem reiknast yfir í 17,1 árskú á bú. Alls var um að ræða 1.747 burði á þessum búum á árinu 2018 sem jafngildir 0,79 burðum/kú.
Heildarframleiðsla ársins á þessum 105 búum nam rúmlega 488 tonnum sem þýðir að þau framleiða rétt rúm 10% alls nautgripakjöts á landinu. Meðalframleiðsla á bú var 4.650 kg en heildarfjöldi slátraðra gripa var 2.041. Meðalþungi kúa frá þessum búum var 203,8 kg og meðalþungi ungneyta var 246,1 kg og voru þau að jafnaði 732,3 daga gömul við slátrun. Það jafngildir vexti upp á 320,5 g/dag, sé reiknað út frá fallþunga. Til samanburðar var slátrað 9.314 ungneytum á landinu öllu sem vógu 240,2 kg að meðaltali við 738,8 daga aldur. Þessi sérhæfðu bú sem yfirlitið nær til ná því gripunum heldur þyngri við lægri aldur að jafnaði en gerist á öðrum búum.
Mestur þungi og vöxtur
Hér á eftir er litið yfir alla nautakjötsframleiðslu í landinu, þar sem kjöt frá búum með mjólkurframleiðslu er ekki undanskilið.
Þyngsta ungneytið sem slátrað var árinu var naut nr. 1132 á Breiðabóli á Svalbarðsströnd. Sá gripur var holdablendingur af Angus-kyni undan Anga 95400 og vóg 532,5 kg er honum var slátrað við 29 mánaða aldur. Hann flokkaðist í UN U2+. Þau ungneyti sem náðu yfir 450 kg fallþunga á árinu 2018 voru sex talsins og frá þremur búum, Breiðabóli á Svalbarðsströnd, Nýjabæ undir Eyjafjöllum og Hamri í Hegranesi.
Mestan vöxt ársins átti kvíga númer 462 á Halldórsstöðum í Skagafirði. Henni var slátrað tæplega 15 mánaða og vóg fallið þá 309 kg. Kvígan var 60% Galloway og flokkaðist í UN R+2+. Í þessum útreikningum er miðað við 20 kg fallþunga við fæðingu. Gripirnir sem gengu næst kvígunni á Halldórsstöðum voru frá Svertingsstöðum 2, Lækjartúni og Nýjabæ.
Að lokum er full ástæða til þess að óska þeim framleiðendum sem náð hafa góðum árangri við framleiðslu á nautakjöti til hamingju með þann árangur og vart á neinn hallað þó ábúendur á Breiðabóli, Nýjabæ, Hamri, Halldórsstöðum, Svertingsstöðum 2 og Lækjartúni séu sérstaklega nefndir í því sambandi.
Fjallað verður um uppgjörið í grein í Bændablaðinu sem kemur út þann 31. janúar.
Sjá nánar:
Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar
/sk