Skýrsla um hagrænt vægi eiginleika í nautgriparækt

Skýrsla um hagrænt vægi eiginleika í nautgriparækt hefur nú verið birt hér á vefnum en eins og nafnið bendir til fjallar hún um mat á hagrænu vægi eiginleika í kynbótastarfi nautgriparæktarinnar. Skýrslan var unnin á vegum RML af þeim Jóni Hjalta Eiríkssyni og Kára Gautasyni. Um er að ræða umfangsmikið verk sem staðið hefur yfir í tvö ár. Þessi vinna er mikill fengur fyrir nautgriparæktina og í reynd nauðsynlegur grunnur að ákvarðanatöku um ræktunarmarkmið fyrir íslenska kúastofnsins.

Helstu niðurstöður eu þessar:
- Þær áherslur sem unnið hefur verið með í kynbótastarfinu eru ekki fjarri því sem hagkvæmast er. Þó má minnka vægi afurða en auka vægi júgur- og spenagerðar og frjósemi auk endingar hjá þeim gripum sem hafa einkunn fyrir endingu.
- Bændur leggja minni áherslu á að bæta afurðasemi en útleiðsla hagrænna gilda bendir til að sé hagkvæmast.
- Sú árlega erfðaframför sem ætla má að sé í stofninum skilar hagræðingu upp á nálægt 150 milljónir króna á ári fyrir samfélagið í heild.
- Þeir fjármunir sem fara í kynbótastarfið eins og það er rekið í dag skila sér til baka á fáum árum með margföldum ávinningi ef horft er til lengri tíma.

Eins og fram hefur komið hefur fagráð í nautgriparækt ákveðið að nýta niðurstöður verkefnisins hið fyrsta og verður heildareinkunn breytt við næstu kynbótamatskeyrslu til samræmis við niðurstöður þess.

Sjá nánar:
Skýrsla um hagrænt vægi eiginleika í nautgriparækt

/gj