Sjö ný reynd naut í dreifingu

Jarfi 16016. Mynd: NBÍ
Jarfi 16016. Mynd: NBÍ

Fagráð í nautgriparækt ákvað á fundi sínum í gær að setja sjö ný reynd naut í notkun úr nautaárgöngum 2015 og 2016. Þarna er um að ræða síðasta hópinn úr 2015 árgangnum og fyrstu naut úr 2016 árgangi. Hinn firnasterki Bambi 08049 er um þessar mundir öflugur í íslenska kúastofninum og afkomendur hans áberandi. Við val nautanna er þó einnig reynt að horfa til óskyldra nauta svo sem kostur er.

Nautin sem koma ný til notkunar eru Steinar 15042 frá Steinum í Stafholtstungum undan Bamba 08049 og Eik 242 Gæjadóttur 09047, Mikki 15043 frá Hóli í Svarfaðardal undan Sandi 07014 og Urði 343 Bambadóttur 08049, Sjúss 15048 frá Daufá í Skagafirði undan Flekk 08029 og Rósalind 441 Glæðisdóttur 02001, Tanni 15065 frá Tannstaðabakka í Hrútafirði undan Sandi 07014 og Silfru 553 Koladótur 06003, Knöttur 16006 frá Búvöllum í Aðaldal undan Bolta 09021 og Lænu 659 Bambadóttur 08049, Bikar 16008 frá Stóru-Hildisey 2 í Landeyjum undan Bamba 08049 og Bollu 831 Vindilsdóttur 05028 og Jarfi 16016 frá Helgavatni í Þverárhlíð undan Bamba 08049 og Völku 743 Stílsdóttur 04041.

Áfram verða þeir Hæll 14008, Hnykkur 14029, Kláus 14031, Stáli 14050, Bjarki 15011, Risi 15014, Köngull 15019, og Ábóti 15029 í notkun.

Nautsfeður verða Hæll 14008, Risi 15014, Steinar 15042, Mikki 15043, Tanni 15065 og Knöttur 16006.

Úr notkun fara Bakkus 12001, Pipar 12007, Loki 12071, Dúett 12097, Steri 13057, Golíat 15018, Jólnir 15022, Svampur 15027 og Flóði 15047, ýmist vegna breytinga á mati, ætternis eða mikillar notkunar.

Sæði úr nýju reyndu nautunum er frá og með gærdeginum komið í dreifingu á nokkrum svæðum og mun við næstu áfyllingar standa til boða um allt land.

Við val nautanna var horft eins og kostur er til þess að bjóða upp á valkosti hvað ætterni snertir samhliða því að koma nýjum nautum í dreifingu í samræmi við óskir bænda. Það er alveg ljóst að nautin sem fædd eru 2016 koma til notkunar með algjöran lágmarksfjölda dætra á bak við sinn dóm en í ljósi sterkrar stöðu þeirra þótti réttlætanlegt að setja þau í notkun. Það er þó viðbúið að mat þeirra taki breytingum við næstu keyrslu kynbótamats og kemur þá engum á óvart.

Í heild sinni er sá hópur sem nú kemur til notkunar um eða rétt yfir meðallag í afurðagetu en júgurgerð er sérlega góð ásamt mjöltum og skapi. Spenagerð þessara nauta er aðeins breytileg og ber þar helst á löngum og/eða grönnum spenum. Þetta eru atriði sem rétt er að hafa í huga við pörun ásamt ætterni.

Upplýsingar um nautin er að finna á nautaskra.net