Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Kúaskoðanir er eitt af þeim verkefnum sem RML sinnir við framkvæmd ræktunarstarfs í nautgriparækt. Dæmdir eru byggingareiginleikar hjá kúm á fyrsta mjaltarskeiði en skoðunin er forsenda fyrir því að hægt sé að reikna út kynbótamat fyrir þessa eiginleika. Tuttugu og þrír eiginleikar eru metnir skv. línulegum skala þar af tuttugu og einn af ráðunaut RML og tveir af bónda. Verkefnið er viðamikið þar sem um 9 -10.000 kvígur bera sinn fyrsta burð á hverju ári um land allt. Hafa ber í huga að um 30% þeirra kvígna sem bera sinn fyrsta burð eru undan heimanautum eða um 3.000 á hverju ári. Ákveðið var strax í upphafi starfsemi RML að forgangsraða sameiginlegum fjármunum á þann hátt að þeir nýttust sem best fyrir ræktunarstarfið og þeir yrðu eingögnu nýttir til skoðunar á kvígum undan sæðinganautum en bændur greiddu sjálfir fyrir skoðun á kvígum undan heimanautum.
RML fær 3% af því fé sem ráðstafað er til mikilvægra sameiginlegra verkefna í kynbótastarfinu. Fyrir árið 2023 voru þetta um sjö og hálf milljón sem nægði fyrir skoðun á um 3.500 kvígum. Á þeim árum sem RML hefur haft umsjón með kúaskoðunum hafa á hverju ári verið skoðaðar á bilinu um 5.600 -7.200 kvígur og það sem upp á hefur vantað hefur verið greitt af rekstrarframlagi RML.
Forsendur verkefnisins munu eflaust breytast með tilkomu erfðamengisúrvals en unnið er að því að setja upp nýtt ræktunarskipulag með hliðsjón af því. Við sjáum það í okkar úttektum að kúaskoðanir eru fram til þessa nægilega margar til að skila þeim gögnum sem þarf í hið sameiginlega ræktunarstarf en það er megintilgangur verkefnsins. Hitt er svo fullkomlega eðlilegt að bændur vilji láta skoða allar sínar kýr og finnist eðlilega framhjá þeim gengið ef of langur tími líður á milli skoðana.
Fyrr í sumar gerði Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir ítarlega greiningu á verkefninu innan RML þar sem markmiðið var að skoða hversu stórt hlutfall kvígna undan sæðinganautum væru skoðaðar á fyrsta mjaltaskeiði og hvort það væri munur á milli svæða varðandi kvíguskoðanir. Þar kom í ljós að þrátt fyrir að um 80% af kúm undan sæðingarnautum séu skoðaðar á fyrsta mjaltaskeiði þá hefur of langur tími liðið á milli heimsókna á bú á ákveðnum svæðum.
Niðurstöður þessarar greiningar hafa verið kynntar fyrir stjórn RML og í kjölfarið munum við bjóða upp á kynningar á þessum niðurstöðum og samtal um hvernig við getum gert betur. Jafnframt munum við hefja vinnu nú þegar við að stytta tíma á milli dóma sem orðið hefur á einstaka svæðum/stöðum.
Ljóst er að verkefnið þarf að þróast með breyttum áherslum í ræktunarstarfinu en einnig þarf að leita leiða til þess að halda kostnaði niðri án þess að það komi niður á verkefninu. Fyrir stuttu var tekið í gagnið kúaskoðunarapp sem RML lét þróa í samstarfi við Mtech í Finnlandi til þess að minnka/auðvelda ráðunautum vinnu sína og minnka kostnað. Í gangi er verkefni hjá RML í samstarfi við LBHÍ þar sem verið er að skoða áhrif erfðamengjaúlvals á ræktunarstarfið sem grunn að framtíðarskipulagi. Það er ljóst að erfðatækni, kyngreint sæði og jafnvel fósturvísaflutningar munu hafa áhrif á ræktunarstarfið, hvaða bein áhrif á útlitsdóma kúa er kannski ekki ljóst á þessari stundu en væntanlega verða þau einhver.
Ég vil að lokum nota tækifærið til að þakka bændum fyrir mikin áhuga og góðan samstarfsvilja í þessu verkefni sem og öðrum tengdu sameiginlegu ræktunarstarfi en ég greini ekki annað en að þessi samvinna við ræktunarstarfið gangi almennt mjög vel og sé til fyrirmyndar en alltaf má betur betur gera við að reyna efla starfið og er umræða og rýni á framkvæmdina á hverjum tíma af hinu góða.
/hh