Niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar við lok febrúar 2014

679, Þorvaldseyri, móðir Keips 07054.
679, Þorvaldseyri, móðir Keips 07054.

Niðurstöðurnar úr skýrslum nautgriparæktarinnar í febrúar 2014 hafa nú verið birtar á vef okkar. Þegar niðurstöðurnar urðu til á miðnætti aðfaranótt 11. mars var búið að skila skýrslum fyrir febrúarmánuð frá 95% þeirra 582 búa sem nú eru skráð til þátttöku í skýrsluhaldinu. Reiknuð meðalnyt 21.551 árskýr var 5.643 kg síðastliðna 12 mánuði. Reiknuð meðalnyt á öllum búum sem einhverjum skýrslum var skilað fyrir á síðasta ári, 2013, var 5.621 kg en reiknuð meðalnyt 12 mánaða tímabils við lok janúar sl. var 5.652 kg. Meðalfjöldi árskúa á búunum sem skýrslum hafði verið skilað frá á miðnætti aðfaranótt 11. mars var 39,0 en sambærileg tala frá seinasta uppgjöri er 39,1.

Mest meðalnyt á síðustu 12 mánuðum var á búi Sigurðar og Báru í Lyngbrekku á Fellsströnd, 7.759 kg eftir árskú. Bú þeirra var í öðru sæti við síðasta uppgjör. Annað í röðinni á tímabilinu, sem nú var gert upp, var bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal, búið sem stóð efst fyrir mánuði, en þar var reiknuð meðalnyt núna 7.668 kg á árskú. Þriðja í röðinni nú var bú Stóru-Tjarna ehf. á Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði með reiknaða meðalnyt eftir árskú upp á 7.661 kg. Hið fjórða í röðinni var bú Helga Bjarna Steinssonar á Syðri-Bægisá í Öxnadal. Nú var meðalnytin þar 7.475 kg á árskú en umrætt bú var einnig nr. 4 seinast þegar gert var upp. Hið fimmta í röðinni að þessu sinni og einnig í sama sæti í lok janúar var bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit en þar var meðalnytin 7.444 kg á árskú sl. 12 mánuði. Á 25 búum sem skýrslur höfðu borist frá um miðnætti aðfaranótt 11. mars reiknaðist meðalnytin nú 7.000 kg eða meiri og hafði þeim fjölgað um tvö frá næsta uppgjöri á undan.

Nythæsta kýrin á seinustu 12 mánuðum var Sómalind nr. 268 á Stakkhamri í Eyja- og Miklaholtshreppi (f. Reykur 06040) en nyt hennar var 12.214 kg á tímabilinu. Sómalind var nr. 2 á listanum fyrir mánuði. Sú sem nú stóð næst henni í nyt var Huppa nr. 1123 á Stóra-Ármóti í Flóa (f. Kappi 01031) en nyt hennar var 11.738 kg síðustu 12 mánuði. Huppa stóð efst á þessum lista við síðasta uppgjör. Þriðja kýrin í röðinni eftir uppgjör febrúarmánaðar var kýr nr. 471 í Lyngbrekku á Fellsströnd (f. Völusteinn 06020) en nyt hennar var 11.429 kg. Fjórða nythæsta kýrin nú var Elma nr. 379 í Leirulækjarseli á Mýrum (f. nr. 332 undan Þrasa 98052). Elma mjólkaði 11.388 kg á síðustu 12 mánuðum. Fimmta í röðinni var Þvæla nr. 1083 á Stóra-Ármóti í Flóa (f. Ári 04043). Hún skilaði 11.338 kg á uppgjörstímabilinu. Níu kýr mjólkuðu yfir 11.000 kg síðustu 12 mánuði og þar af ein yfir 12.000 kg. Þær sem komust yfir 11.000 við seinasta uppgjör voru átta.

Sjá nánar:
Niðurstöður skýrslnanna í nautgriparæktinni

/sk