Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar við lok október - ný framsetning

Biðill frá Torfum í Eyjafjarðarsveit - undan Gými 11007 og Brúði 448
Biðill frá Torfum í Eyjafjarðarsveit - undan Gými 11007 og Brúði 448

Niðurstöður afurðaskýrslnanna í nautgriparæktinni nú í október hafa verið birtar á vef okkar. Ákveðnar breytingar hafa orðið og Guðmundur Jóhannesson ábyrgðarmaður í nautgriparækt hjá RML kynnti þær í grein á bls. 45 í Bændablaðinu þ. 1. nóvember sl. og vísast til þeirrar greinar hér. Rétt er að geta þess og hafa í huga við lesturinn að niðurstöðurnar í t.d. skýrsluhaldi mjólkurframleiðenda byggjast á skilum mjólkurskýrslna og annarra skráninga en þær höfðu ekki náð 100% þegar uppgjörið var reiknað.

Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 536 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 107 búa þar sem eingöngu var framleitt nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 25.415,2 árskúa á búunum 536 var 6.314 kg á síðustu 12 mánuðum og reiknaðist 35 kg. lægri en við lok september. Meðalfjöldi árskúa á búunum 536 var 47,4.

Meðalnyt árskúa var mest á síðustu 12 mánuðum á búi Karls Inga og Erlu Hrannar á Hóli í Svarfaðardal þar sem meðalkýrin skilaði 8.738 kg. að jafnaði. Búið á Hóli var nr. 2 á þessum lista við seinasta uppgjör og hafði verið þar í röðinni í nokkurn tíma. Annað í röðinni nú en í fyrsta sæti seinast og marga mánuði þar á undan, var bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal, en hver árskýr þar mjólkaði nú að jafnaði 8.677 kg. Þriðja í röðinni nú, hið sama og undanfarið, var bú Gunnbjarnar ehf. í Skáldabúðum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en þar reiknaðist meðalnyt árskúnna 8.457 kg. Fjórða búið á listanum og í sjötta sæti við lok september var Hvanneyrarbúið í Andakíl í Borgarfirði, þar sem hver árskýr skilaði að jafnaði 8.347 kg. sl. 12 mánuði. Fimmta búið og í sama sæti og síðast, var síðan bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit á Snæfellsnesi og þar mjólkuðu árskýrnar að jafnaði 8.333 kg.

Nythæst sl. 12 mánuði var kýr nr. 848 (f. Otur 11021) í Flatey á Mýrum við Hornafjörð en hún mjólkaði 13.951 kg. með 3,78% fitu og 3,15% prótein. Önnur í röðinni en efst fyrir mánuði var Vakt 835 (f. Hegri 03014) í Reykjahlíð á Skeiðum sem mjólkaði 13.769 kg. síðustu 12 mánuði. Þriðja í röðinni en önnur við seinasta uppgjör var Randafluga 1035 (f. Boli 0620, sonur Kastala 07003 og dóttursonur Sóla 98017) í Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi, en nyt hennar reyndist nú vera 13.623 kg.

Alls náðu 119 kýr á búunum, sem afurðaskýrslum fyrir október hafði verið skilað frá áður en uppgjörið var reiknað, að mjólka 11.000 kg. og þar yfir á síðustu 12 mánuðum. Af þeim skiluðu 30 yfir 12.000 kg. nyt á tímabilinu og þar af náðu 7 hærri nyt en 13.000 kg. síðustu 12 mánuðina.

Meðalfjöldi kúa á kjötframleiðslubúunum reiknaðist 21,6 og meðalkjötframleiðsla á þeim búum sl. 12 mánuði reyndist 4.536,1 kg. Meðalfallþungi ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, frá þessum búum undanfarna 12 mánuði var 240,1 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra við slátrun var 739,6 dagar.

Það er von okkar að hin nýja framsetning gagnanna verði notendum vefsins til fróðleiks og ánægju.

 

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk