Kyngreining á nautasæði á Íslandi

Gengið hefur verið frá samkomulagi milli Nautastöðvar Bændasamtakanna (NBÍ ehf.) og STgenetics Europe B.V í Hollandi, dótturfyrirtækis STgenetics í Texas í BNA, um kyngreiningu á íslensku nautasæði. Samkomulagið felur í sér að STgenetics mun kyngreina allt að 2.500 skammta úr íslenskum nautum. Jafnframt er ætlunin að kyngreina eitthvert magn holdasæðis. Framkvæmdin verður með þeim hætti að til landsins kemur rannsóknastofa á hjólum sem lagt verður við Nautastöðina meðan vinnslan fer fram. Með henni kemur þjálfað starfsfólk sem sér um kyngreininguna að öllu leyti. Með þessum hætti sparast fjármunir sem annars hefðu farið í kaup á tækjabúnaði og uppsetningu á rannsóknastofu.

Samkomulagið gildir til eins árs en ætlunin er á þeim tíma að kanna sæðisgæði íslenskra nauta og bera saman fanghlutfall með kyngreindu og hefðbundnu sæði. Viðbúið er að fanghlutfall eftir kyngreiningu sé eitthvað lægra en þegar um hefðbundið sæði er að ræða. Í haust verður því tekið sæði úr nokkrum íslenskum nautum og hverri sæðistöku skipt í annars vegar kyngreint og hins vegar hefðbundið. Þannig næst fram raunhæfur samanburður á þessum tveimur sæðistegundum auk þess sem í ljós kemur hversu vel íslenskt nautasæði þolir kyngreiningu. Rétt er að taka fram að allt sæði sem sett verður í notkun mun standast allar þær gæðakröfur sem jafna eru gerðar til kyngreinds nautasæðis í öðrum löndum.

Þegar kyngreiningu lýkur í haust verður sæðið sett í dreifingu og munu frjótæknar ekki fá vitneskju um hvort um er að ræða hefðbundið eða kyngreint sæði úr þeim nautum sem um ræðir. Við sæðingu vita því hvorki frjótæknir eða bóndi um hvora sæðisgerðina er að ræða, hefðbundið eða kyngreint. Til þess að fá marktæka og góða niðurstöðu þarf að dreifa þessu sæði sem hraðast. Nú er unnið að skipulagi tilraunarinnar í samstarfi við STgenetics og með hliðsjón af sæðisnotkun og öðrum tæknilegum atriðum kann vel að vera að hún verði framkvæmd á ákveðnum svæðum landsins en ekki öðrum. Þá gæti verið æskilegt að binda tilraunina við bú þar sem notkun heimanauta er engin eða mjög lítil til þess að fá marktækari niðurstöður, og fyrr, um ekki uppbeiðsli. Um það verður tilkynnt síðar og jafnframt verður bændum gefinn kostur á að taka ekki þátt, kjósi þeir svo.

Ef við veltum aðeins fyrir okkur af hverju menn ættu eða ættu ekki að taka þátt kemur einkum tvennt til. Fanghlutfall með kyngreindu sæði er líklega lakara en með hefðbundnu sæði og gæti sá munur numið nokkrum prósentum. Það er því ekki óhugsandi að bú með 70% 56 daga ekki uppbeiðsli gæti lækkað í 60-65%. Þetta vitum við ekki og er ein af ástæðum tilraunarinnar að fá svar við þessu. Hitt atriðið, sem telja verður ávinning eða kost, er að miðað er við að sæðingar með hefðbundnu og kyngreindu sæði skiptist til helminga. Bóndi sem tekur þátt getur því reiknað með að fá 20-25% fleiri kvígur að u.þ.b. níu mánuðum liðnum.

Að tilraun og uppgjöri á henni loknu mun samkomulagið við STgenetics koma til endurskoðunar og þá verður tekin ákvörðun um hvernig kyngreiningu nautasæðis hérlendis verður háttað í framtíðinni. Þar þarf m.a. að horfa til þátta eins og hvaða áhrif það hefur á framkvæmd kynbótastarfsins og erfðaframfarir til lengri tíma litið en algjörlega skipulagslaus notkun þess getur leitt til ófarnaðar.