Greiðslumark mjólkur aukið um 2 milljónir lítra til viðbótar

Yrja 150, móðir Áss 02048
Yrja 150, móðir Áss 02048

Greiðslumark mjólkur fyrir yfirstandandi ár (2014) var í lok síðasta árs aukið upp í 125 milljónir lítra að tillögu Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Í seinni hluta nóvember ákvað ráðherra að greiðslumark ársins 2014 yrði 123 milljónir lítra en nú hefur greiðslumarkið verið aukið enn frekar. Breytingin er gerð í ljósi mikillar söluaukningar síðustu mánuði, einkum á fituríkari mjólkurvörum. Að sama skapi er birgðastaða lakari en verið hefur á sama tíma undanfarin ár.

Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði gerðu tillögu um aukningu greiðslumarks um 7 milljónir lítra í haust og var sú aukning staðfest með reglugerð seinni hluta nóvembermánuðar þar sem greiðslumark komandi árs var ákveðið 123 milljónir lítra. Samtökin endurskoðuðu spá sína um sölu á mjólkurafurðum í byrjun þessa mánaðar og lögðu til að greiðslumark yrði enn aukið um 2 milljónir lítra, sem nú hefur verið ákveðið. Rétt er að taka fram að aukningin hefur ekki áhrif á beingreiðslur til bænda. Áður höfðu afurðastöðvar gefið út að greitt yrði fullt afurðastöðvaverð fyrir alla mjólk á komandi ári og frá því verður ekki hvikað.

Fyrir bændur skiptir ákvörðun Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði á fundi 10. desember síðastliðinn um að breyta verðhlutföllum fyrir efnainnihald mjólkur ekki minna máli. Greitt verður jafnhátt verð fyrir fituinnihald mjólkur og fyrir próteininnihald en undanfarna tvo áratugi hefur vægi próteins verið 75% á móti 25% vægi fitu. Breytingin mun að óbreyttu taka gildi frá og með 1. jan. 2014. Að auki hefur framleiðsluskylda verið aukin úr 90 prósentum upp í 95 prósent, þ.e. til þess að hljóta fullar beingreiðslur þarf að framleiða a.m.k. 95% af greiðslumarki.

Allar þessar breytingar eiga að virka sem hvati til aukinnar framleiðslu á þessu ári enda ljóst að bregðast þarf við aukinni eftirspurn eftir mjólkurvörum. Það er þó einnig ljóst að gangi spár mjólkuriðnaðarins varðandi neyslu eftir dugar þetta skammt og til þess að mæta aukinni eftirspurn þarf að bæta enn í. Það verður vart gert nema með varanlegri fjölgun mjólkurkúa í landinu.

/gj