Breytingar á vali nautsmæðra og kúaskoðun

Gata 385, móðir Víðkunns 06034.
Gata 385, móðir Víðkunns 06034.

Fagráð í nautgriparækt hefur að venju haft ýmis mál varðandi framkvæmd ræktunarstarfsins í nautgriparæktinni til umræðu. Ráðið hefur nú ákveðið að gera nokkrar breytingar sem eru til þessa fallnar að gera vinnu við kynbótastarfið hagkvæmari og skilvirkari.

Þar ber fyrst að nefna val á nautsmæðrum en við skilgreiningu á þeim verður nú notast við aðaleinkunn í stað afurðaeinkunnar. Nú verður lágmark í aðaleinkunn nautsmæðra miðað við 107, jafnframt verður gerð sú krafa á nautsmæður að þær hafi að lágmarki 100 í kynbótaeinkunn fyrir mjaltir og að lágmarki 90 í kynbótaeinkunn fyrir fitu. Grundvöllur þessarar breytingar er að athuganir hafa sýnt að með þessu móti fáist sterkari hópur nautsmæðra ef horft er á alla eiginleika sem eru inni í ræktunarmarkmiðunum fyrir íslensku mjólkurkúna. Eina undantekningin snertir eiginleikann mjaltir og því hefur verið ákveðið að allavega fyrst um sinn séu gerðar lágmarkskröfur um kynbótamat fyrir þann eiginleika. Þar sem afurðamat gripa byggir eingöngu á próteinafurðum og próteinafurðir því mjög áhrifamikill eiginleiki í heildareinkunn grips hefur einnig verið ákveðið að hætta að hafa sérstakt lágmark á próteinhlutfalli hjá nautsmæðrum en setja þess í stað lágmark á kynbótaeinkunn nautsmæðra fyrir fitu. Eftir sem áður verða síðan gerðar lágmarkskröfur um einkunn fyrir júgur, spena, mjaltir og skap úr kúaskoðun. Sama breyting mun taka gildi fyrir efnilegar kvígur, þar verður nú notast við aðaleinkunn til skilgreiningar í stað afurðaeinkunnar. Þetta mun þýða einhverjar tilfærslur á nautsmæðraflöggum í gripalistum inni í HUPPU og biðjum við bændur að veita því athygli. Eitthvað af kúm, sem nú eru merktar sem nautsmæður, mun falla út af þeim lista en hafi þær nú þegar verið sæddar með nautsfeðrum viljum við að sjálfsögðu fá að vita af kálfum undan þeim þegar þeir fæðast þó svo að flaggið sé hugsanlega farið af móðurinni vegna þessara breytinga.

Talsverðar breytingar verða einnig gerðar á framkvæmd kúaskoðunar. Í fyrsta lagi hefur fagráð í nautgriparækt ákveðið að kvígur undan heimanautum verði ekki skoðaðar sem hluti af gagnasöfnun fyrir hið sameiginlega ræktunarstarf enda sé sú gagnasöfnun fyrst og fremst hugsuð til að safna upplýsingum til afkvæmaprófana á sameiginlegum kynbótagripum. Bændum stendur að sjálfsögðu til boða að láta skoða þær kvígur, sem ekki eru undan sæðinganautum, gegn greiðslu.

Jafnframt þessu verður nú hætt að dæma kvígur bæði eftir svokölluðum „gamla“ og „nýja“ skala, heldur verður eingöngu notast við línulegt mat. Þessi ákvörðun er byggð á niðurstöðum athugunar sem Ágúst Sigurðsson hefur gert á erfðafylgni eiginleika úr dómskölunum tveimur þar sem í ljós kemur að með notkun á báðum skölunum er verið að dæma sömu eiginleikana tvisvar. Þar sem línulega matið er þess eðlis að það er nákvæmari lýsing á einstökum eiginleikum hvers grips verður það notað og þróað áfram. Þessar breytingar koma strax til framkvæmda.

Þetta þýðir að kýr sem eingöngu verða metnar með línulegu mati munu ekki fá hinar gamalkunnu einkunnir sem notaðar hafa verið áratugum saman. Þær fá því ekki einkunnir eins og 8 fyrir júgur og lögun, 9 fyrir staðsetningu spena og lengd o.s.frv. Þess í stað verður línulega matið reiknað í eina heildareinkunn og byggir sá útreikningur á frávikum í mati viðkomandi grips frá „besta“ mati í hverjum eiginleika. Eftir sem áður verður heildareinkunnin ekki svo ólík heildarstigum úr útlitsdómi samkvæmt „gamla“ skalanum. Glæsilegar kýr munu fá heildareinkunn um eða nærri 90 stigum en lakar gerðar kýr munu hins vegar fá mun lægri einkunn. Þá koma verulegir byggingargallar, eins og aukagöt á spenum, samvaxnir spenar o.fl., til frádráttar.

 

geh/gj