Ársuppgjör - niðurstöður skýrsluhaldsársins í mjólkurframleiðslunni 2016

Barmur frá Stóru-Sandvík
Barmur frá Stóru-Sandvík

Niðurstöður skýrsluhaldsársins í mjólkurframleiðslunni 2016 hafa verið reiknaðar og birtar hér á vef okkar. Hér á eftir verður farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu. Þeir framleiðendur sem skiluðu upplýsingum um afurðir kúa sinna á nýliðnu ári voru 575 en á árinu 2015 voru þeir 580. Niðurstöðurnar eru þær helstar að 24.999,2 árskýr skiluðu 6.129 kg nyt að meðaltali. Það er afurðaaukning um 278 kg frá árinu 2015 en þá skiluðu 25.609,9 árskýr meðalnyt upp á 5.851 kg. Jafnframt eru þetta mestu meðalafurðir frá upphafi vega og í fyrsta skipti sem þær ná yfir 6.000 kg eftir árskú.

Meðalbústærð á landinu reiknaðist 43,5 árskýr á árinu 2016 en sambærileg tala var 44,0 árið á undan. Meðalbústærð reiknuð í skýrslufærðum kúm var nú 59,5 kýr en 2015 reiknuðust þær 56,8.

Mestar meðalafurðir voru í Skagafirði

Þegar litið er á niðurstöður eftir svæðum kemur í ljós að í Skagafirði eru meðalafurðir mestar, 6.486 kg eftir árskú, en skammt undan er Austurland með 6.424 kg á árskú. Þar hafa afurðir aukist mjög milli ára en árið 2015 voru þær 5.848 kg/árskú. Þriðja sæti verma Árnesingar en þar skilaði árskýrin að meðaltali 6.379 kg. Stærst voru búin í Eyjafirði, 53,5 árskýr en minnst í Suður-Þingeyjarsýslu 27,9 árskýr.

Meðalbúið aldrei stærra

Meðalbústærð jókst umtalsvert milli ára enda jókst innlegg mjólkur um 4,3 milljónir lítra milli ára. Meðalinnlegg á bú með innlegg allt árið nam 250.182 lítrum samanborið við 233.991 lítra á árinu 2015. Þetta er aukning upp á 6,92%. Á sama tíma fækkaði innleggjendum mjólkur um 40 talsins og voru kúabú í framleiðslu 580 talsins nú um áramótin 2016/17.

Íslandsmet á Brúsastöðum í Vatnsdal

Mest meðalnyt eftir árskú á nýliðnu ári, 2016, var á búi Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal, 8.990 kg á árskú. Þar með féll fimm ára gamalt Íslandsmet þeirra Ólafs og Sigurlaugar í Hraunkot í Landbroti en það var 8.340 kg á árskú á árinu 2011. Búið á Brúsastöðum var fimmta afurðahæsta búið á árinu 2015 en vermdi efsta sæti listans árin 2013 og 2014. Árangur þeirra hjóna Gróu Margrétar Lárusdóttur og Sgurðar Eggerz Ólafssonar á Brúsastöðum undanfarin ár er stórglæsilegur enda hefur eftir honum verið tekið. Þau hlutu m.a. Landbúnaðarverðlaunin 2015 og má taka undir orð þáverandi landbúnaðarráðherra við afhendingu verðlaunanna um að búinu sé sinnt af miklum myndarskap, jafnt hvað umhirðu og góðan árangur varðar en jafnframt og ekki síður hvað ytra umhverfi og ásýnd viðkemur. Annað búið í röðinni árið 2016 var bú Þrastar Þorsteinssonar á Moldhaugum í Eyjafirði en þar var nytin 8.274 kg eftir árskú. Þriðja í röðinni við uppgjörið nú var bú Guðlaugar og Eybergs á Haunhálsi í Helgafellssveit en þar var meðalnyt árskúna 8.173 kg. Í fjórða sæti var bú Félagsbúsins á Syðri-Grund í Höfðahverfi við Eyjafjörð þar sem meðalafurðir árskúnna voru 8.129 kg. Fimmta búið var bú Péturs Friðrikssonar á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd, meðalnytin þar var 8.091 kg eftir árskú. Næsta bú, nr. 6 á listanum, var bú Félagsbúsins á Espihóli í Eyjafirði með meðalafurðir upp á 8.049 kg eftir árskúna. Sjöunda og síðast þeirra sem náðu meðalafurðum yfir 8.000 kg/árskú var bú Pálma Ragnarssonar í Garðakoti í Hjaltadal en þar reiknaðist meðalnyt árskúnna 8.029 kg. Meirihluti þeirra búa, sem hér hafa verið talin, fannst á hliðstæðum lista fyrir ári síðan og þau þeirra sem ekki voru í 10 efstu sætunum þá mátti finna á fyrstu síðu listans yfir afurðahæstu búin árið 2014, þannig að hér eru þeim sem til þekkja öll nöfn kunnugleg. Á 80 búum reiknaðist meðalnyt árskúa yfir 7.000 kg árið 2016 en 51 bú náði því marki árið 2015.

Nína 676 á Brúsastöðum í Vatnsdal mjólkaði mest og setti nýtt Íslandsmet

Nythæsta kýrin á skýrsluhaldsbúunum árið 2016 var Nína 676, undan Ófeigi 02016, en hún mjólkaði 13.833 kg með 4,02% fitu og 3,95% prótein og sló þar með tíu ára gamalt Íslandsmet Blúndu 468 á Helluvaði á Rangárvöllum sem var 13.327 kg. Burðartími Nínu féll ágætlega að almanaksárinu en hún bar sínum þriðja kálfi 7. febrúar 2016. Það þarf ekki að orðlengja að Nína er gríðarmikil mjólkurkýr og sýndi það strax á sínu fyrsta mjólkurskeiði er hún fór hæst í 32 kg dagsnyt. Á nýliðnu ári fór hún hæst í 55,0 kg dagsnyt og var enn í 28 kg nyt í desember s.l. Skráðar æviafurðir hennar voru 31.387 kg um síðustu áramót en sinn fyrsta kálf átti hún 25. janúar 2014, þá 24 mán. að aldri.

Önnur í röðinni árið 2016 og skammt á hæla Nínu 676 var Hrísa 336 í Austurhlíð í Skaftártungu, undan Skurði 02012, en hún mjólkaði 13.779 kg með 4,20% fitu og 3,33% prótein. Þessi kýr bar sínum fimmta kálfi 17. desember 2015 og fór hæst í 43,8 kg dagsnyt á árinu 2016. Skráðar æviafurðir hennar eru 43.160 kg. Þriðja nythæsta kýrin var Stebba Dýra 684 á Brúsastöðum í Vatnsdal, undan Salómon 04009, en nyt hennar á árinu var 13.621 kg með 3,59% fitu og 3,84% prótein. Hún bar sínum öðrum kálfi 12. desember 2015, fór hæst í 50 kg dagsnyt og skráðar æviafurðir hennar eru 25.504 kg. Fjórða nythæsta kýrin var Skvís 1161 á Gili í Skagafirði, sonardóttir Víðkunns 06034, en hún mjólkaði 13.594 kg með 4,17% fitu og 3,82% prótein. Hún bar sínum öðrum kálfi 2. desember 2015, fór hæst í 46 kg dagsnyt á árinu og skráðar æviafurðir eru 22.915 kg. Fimmta í röðinni var Króna 131 í Ásgarði í Reykholtsdal, fædd á Gunnlaugsstöðum í Stafholtstungum. Króna sem er sonardóttir Stígs 97010, bar sínum sjöunda kálfi 26. nóvember 2015 og fór hæst í 51 kg dagsnyt en hún skilaði 13.400 kg á árinu með 3,78% fitu og 3,22% prótein. Skráðar æviafurðir Krónu eru 69.769 kg.

Rétt er að vekja athygli á þeirri kú sem skipar sjöunda sæti listans að þessu sinni. Þar fer hin gamalkunna Urður 1229, dóttir Laska 00010, á Hvanneyri en hún mjólkaði 13.148 kg á árinu með 2,84% fitu og 2,86 prótein. Hún var felld núna 11. janúar s.l. vegna elli og var þá búin að skila sínu og vel það. Skráðar æviafurðir hennar á sjö mjólkurskeiðum eru 77.468 kg. Hún bar 1. kálfi 22. des. 2009 og mjólkaði í 7,0 ár að meðaltali 11.020 kg á ári. Þessu til viðbótar skilaði hún kynbótanautinu Úranusi 10081, en faðir hans er Síríus 02032. Úranus kom nú á haustdögum úr afkvæmaprófun og stendur meðal efstu nauta í heildareinkunn. Annar sonur Urðar, Plútó 14074, bíður nú afkvæmadóms en faðir hans er Toppur 07046. Að auki er hún móðurmóðir Bagga 14043 frá Hvanneyri sem sömuleiðis bíður nú niðurstöðu afkvæmadóms.

Alls skilaði 71 kýr afurðum yfir 11.000 kg og þar af 20 yfir 12.000 kg. Árið 2015 náðu 44 kýr nyt yfir 11.000 kg.

Mjólkurframleiðendum öllum, en ekki síst ábúendum á Brúsastöðum, óskum við til hamingju með glæsilegan árangur og þökkum samstarfið á liðnu ári.

 

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

 

/gj

/sk