Kort með gagnlegum upplýsingum

Á tímum stafrænna upplýsinga þá er minna um útprentun gagna eins og túnkort. Núna þegar Jörð.is er orðin farsímavæn þá hefur notkun prentaðra túnkorta breyst. Mikilvægi túnkorta og þær upplýsingar sem þau geta gefið eru þó ekki minni. Útprentuð kort af ræktarlandi eru yfirleitt plöstuð og því handhæg til notkunar hvort sem það er við eldhúsborðið eða út í dráttarvél og því gott vinnuplagg við dagleg störf. RML getur unnið ýmsar upplýsingar í landupplýsingaforritinu Qgis og skýrsluhaldsforritinu Jörð.is sem hægt að hafa á kortum sem eru gagnlegar við notkun, til upplýsingaöflunar og geymslu þekkingar. Skráning og kortlagning örnefna staðarhátta er dæmi um gögn sem viðheldur þekkingu og ýtir undir notkun heita við dagleg störf.

Við kortlagningu á legu girðinga er hægt að flokka þær eftir tegundum, aldri, ástandi, viðhaldþörf o.fl. sem hægt væri að nýta áfram til að fá heildar yfirsýn á girðingum jarðarinnar. Þá verður til svokallað girðingarkort. Það kort má nýta til að búa til t.d. endurnýjunaráætlun girðinga og kostnað girðinga og/eða halda utan um upplýsingar sem nýtast við skráningu gagna t.d. fyrir gæðahandbók í sauðfjárrækt. Til verður viðgerðarskrá á þeim girðingum sem eru til staðar og hægt að leggja mat á hvenær og hvort eigi að leggja nýjar girðingar. Inn í þessu kemur oft í ljós að sumar girðingar eru barns síns tíma og hafa ekki tilgang í dag. Bætir það ásýnd umhverfis og minnkar slysahættu fyrir dýr og fólk ef tilgangslausar og jafnvel ónýtar girðingar eru fjarlægðar.

Þegar búið er að útbúa girðingakort koma oftast í ljós lega beitarhólf, stærð og staðsetning. Þá væri útbúið kort með beitarhólfum sem yfirlitsmynd og utanumhald. Hægt er að halda utan um upplýsingar eins og beitagróður og nýtingu beitar. Útbúa beitaráætlanir út frá þeim grunn upplýsingum sem skráðar eru. Þá er áætlaður beitaþungi, beitartími og tegund gripa sem nýta beitina. Getur þetta hentað vel til að stýra álaginu, sér í lagi ef fyrirfram er búið að meta almenna gróðurþekju og gæði gróðursins til beitar.

Þá er hægt að kortleggja aðrar upplýsingar sem sjást ekki með berum augum. Það kann að vera mikilvægt að kortleggja og varðveita upplýsingar um hitt og þetta innan túnsins til að fyrirbyggja að komandi kynslóðir grafi niður á eitthvað sem betra sé að láta kyrrt liggja. Það geta verið gamlar grafir, minjar, pyttir, grjót, ljósleiðara-eða rafmagnsstrengir. Þá getur líka verið gagnlegt að merkja tún sem óskynsamlegt er að endurrækta t.d. vegna þess það er grunnt á klappir eða mjög grýttur jarðvegur.

Hægt er að sérsníða ýmsar upplýsingar á kort þótt einungis hafi verið nefnd fáein dæmi hér. Allt er þetta bundið við hugmyndir að upplýsingum sem gott er að hafa á útprentuðu eða tölvutæku korti sem úreldast ekki strax. Gögn sem eru lifandi og virk eru betur geymd í stafræna heiminum nema útbúin séu kort sem gilda bara stuttan tíma í einu. 

Hér má sjá dæmi um kort með hæðarlínum. Hornstaurar og girðingar ásamt lengdum (grænt og brúnt), beitarhólf (föl rautt með bláum texta) með heiti og stærð svæðis. Örnefni (bleikt og neongrænt) og aðrar upplýsingar (rautt með stjörnu). Það er bara valkvætt hvað kemur fram eða hvernig útfærslan er. Annað dæmi um útfærslu væri tölukóðun upplýsinga og vera með númeraskrá. Allt getur verið á einu korti eða á mörgum kortum allt eftir óskum viðskiptavinar.

Ef áhugi er fyrir kortagerð á vegum RML þá er hægt að hafa samband við Önnu Lóu Sveinsdóttur (s. 516 5006/als@rml.is) um frekari upplýsingar og úrvinnslu.  

/okg