Lífræn ræktun, umhverfi og lýðheilsa

Fimmtudaginn 12. nóvember stóð Fagráð í lífrænum búskap fyrir málþinginu “Lífræn ræktun, umhverfi og lýðheilsa”. 

Fjallað var um ýmsar hliðar á lífrænni ræktun og umhverfismálum; jarðvegsgerðir og kolefnisbindingu, lífrænan áburð, möguleika lífrænt vottaðra íslenskra afurða – og heilnæmi þeirra – og hagnýt atriði varðandi aðlögun að lífrænum búskap. Samhljómur var í fyrirlesurum um að brýn þörf sé á betri nýtingu lífrænna úrgangsefna. 

Cornelis Aart Meijles er umhverfisverkfræðingur og sérfræðingur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins í hringrásarhagkerfum. Hann ræddi um að Ísland hefði mikla sérstöðu í lífrænum landbúnaði því þar eru verðmæti sköpuð úr öllum auðlindum landsins; villtri náttúru og líffjölbreytileika, jarðvegi, köldu og heitu vatni, grænni raforku, kolsýru, menningu, reynslu og þekkingu. Með því að koma hinu mikla magni af lífrænum úrgangi sem fellur til inn í hringrásina megi skapa hagkvæman grunn undir lífrænni ræktun og lækka jafnframt núverandi samfélagslegan kostnað við flutning og meðhöndlun úrgangs. Með því að koma lífmassa fyrir í jarðvegi megi binda meira kolefni varanlega sem „húmus“ í jarðvegi. Eitt prósent meira húmus samsvari um 70 tonna meiri koltvísýringsbindingu á hektara. 

Ný leið til að framleiða lífrænan áburð er hauggerjun eða Bokashi. Við Bokashi aðferðina má nota allskyns lífræn efni sem til falla staðbundið. Kalki, örverublöndu og leir er blandað saman við úrganginn og síðan er þetta látið vera við loftfirrðar aðstæður t.d. undir plasti, þar til gerjunarferlinu er lokið. Ferlið tekur um sex til átta vikur. Þannig má búa til heimafenginn áburð og jarðvegsbæti og loka þannig hringrásinni. Þetta er leið sem getur gengið fyrir heimili, bóndabýli, byggðir eða sveitarfélög. Afurðin er vel niðurbrjótanleg af jarðvegslífi – og ekki til betra fóður fyrir jarðvegslífið, að sögn Cornelisar. Þetta er fremur ódýr aðferð miðað við aðra meðhöndlun. Hægt er að gera þetta innandyra sem úti og ekkert tap er á kolefni eða öðrum næringarefnum í ferlinu og það er nánast lyktarlaust.

Sjá nánar: Ísland ákjósanlegt fyrir lífræna ræktun (Bændablaðið 19.nóv 2020)

/okg