Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Aldrei er góð vísa of oft kveðin. Það á einnig við um góð heilræði. Fyrir rétt um ári síðan setti Bjarni Guðmundsson prófessor á Hvanneyri á blað eftirfarandi ábendingar um heyverkun sem rétt er að rifja upp núna:
Hér fara á eftir nokkrar ábendingar um þurrkun og meðferð heys á velli. Þær eru að mestu byggðar á tilraunaniðurstöðum frá Hvanneyri en einnig annarri reynslu sem saman hefur sankast. Engan veginn er þó gefið að allar ábendingarnar eigi við allsstaðar!
1. Þroskastig grasanna. Við góða verkun og geymslu heys eru það þroskastig grasanna við slátt, grastegundir vallarins og rækt í þeim sem mestu ráða um fóðurgildi heysins að vetri. Gætið því vel að vali sláttutímans.
2. Veður og veðurspá. Auk hinnar hefðbundnu veðurspár má minna á prýðisgóða þjónustu Veðurstofu Íslands á heimasíðunni www.vedur.is þar sem m.a. er baksíðan veðurspárit. Þar er langtímaspá sem reynst hefur afar notadrjúg við skipulagningu sláttar og heyverka. Fleiri bjóða slíka þjónustu, t.d. www.yr.no.
3. Tími til sláttar. Í meðaltíð og betri virðist hagur af því að slá mjög árla morguns eða jafnvel að kvöldi. Sé blástur er rétt að breiða strax úr sláttumúgunum, þó síður ef knosara-sláttuvél var notuð. Hvað segir loftrakamælirinn? Sé hann um og neðan við 85% er dágóður þurrkur á nýslegið hey.
4. Sláttunánd. Ekki er rétt að beita sláttuvélinni mjög nærri rót; 5-6 cm stubbhæð er algeng. Í nýræktum er rótin opin og viðkvæm. Sé nærri farið er meiri hætta á plöntuskemmdum og því að mold og áburðarleifar (skítur) mengi heyið og geti valdið vandræðum við súrverkun þess.
5. Heyinu snúið. Flestir reyna að vanda sérstaklega fyrstu umferðirnar við heysnúninginn. Þannig verður þurrkun heysins jafnari, og minni hætta á blautum tuggum (lyskrum) sem valdið geta bölvun í súrverkuninni. Við réttar aðstæður þarf ekki nema smátuggu blauta til þess að óæskilegar örverur fari á kreik í stæðu eða bagga. Í raun ætti ætti nýslegið gras aldrei að fá frið í sláttumúgum, nema slegið sé í rigningu. Í því felast m.a. kostir knosunar. Það þarf nefnilega að hægja á öndun og efnatapi heysins sem hraðast eftir sláttinn!
6. Múgun - Görðun. Margir nýta sér hagstæð áhrif næturmúgunar til þess að jafna og flýta þurrkun heysins. Þegar kemur að hirðingu eru mikil afköst við múgun líka leið til þess að fullnýta afköst dýrustu heyvinnuvélanna: bindivélar, pökkunarvélar, heyhleðsluvagns. Vanda rakstur heysins, einkum hinnar fíngerðu og dýrmætur snemmslægju.
7. Þurrkstig heysins við hirðingu. Margir þættir ráða því. Við votverkun heys í rúllum og ferböggum er mælt með forþurrkun heysins upp fyrir 40-45% (þá er að byrja að koma úr því heylykt). Sama stig hæfir öflugri ylsúgþurrkun. Meiri forþurrkun súrverkaðs heys léttir baggana enn og verkar vel á átlyst og þrif gripanna, a.m.k. sauðfjár og hrossa. Hafi skítur verið borinn á tún má mæla með meiri forþurrkun heysins af því en minni - hún dregur úr líkum á rangri verkun vegna mengunar úr búfjárskítnum.
8. Notkun hjálparefna. Virk hjálparefni geta bætt verkun heysins enda sé vel að verkun heysins staðið að öðru leyti. Flest þeirra eiga best við þegar þurrefni heysins er um og innan við 45%. Þeim þarf að dreifa mjög jafnt og vel í heyið. Þannig er frekast von til að þau greiði fyrir kostnað sinn með efnaríkara og lystugra heyi. Í mælingum á Hvanneyri hafa maurasýrurík hjálparefni reynst vel, einnig Kofasafi. Farið varlega í notkun óreyndra hjálparefna.
9. Vanda baggagerðina. Leggja þarf alúð við baggagerðina. Gefa bindivélinni færi á að matast vel og þjappa heyinu fast saman. Rúllubaggar sem að formi eru sem tommustubbar af hrífuskafti fara betur með heyið í geymslu og skemmast síður en sláturkeppslaga slytti.
10. Plöstun - hjúpun. Sex-falt plast virðist vera hin klassíska regla. Megi treysta góðri meðferð og vörslu má komast af með fjórfaldan hjúp. Sé áraunin hins vegar mikil og líkur á langri geymslu heysins er öryggi af átt-földum plasthjúp. Prófið að reikna áætlað plastverð á hvern bagga ykkar og bera það saman við áætlað verðmæti heysins í bagganum. Það hjálpar við val á fjölda plastlaga. Gæði plastsins er grundvallaratriði.
11. Baggana strax heim í stæðu. Þótt atgangur geti verið mikill í heyönnum er rétt að koma böggunum strax heim í stæðu. Heyið í þeim þarf frið til verkunar. Fuglar geta sótt í plasthjúpaða baggana dreifða um velli. Svo er það búmenning að koma heyinu strax á sinn snyrtilega stað til geymslu. Heyrst hefur af húsfreyju sem neitar bónda sínum um blíðu fyrr en rúllur þeirra hjóna eru komnar heim og til vetursetu.
12. Staðarval baggastæðu. Rúllum og ferböggum hæfir best svalur, skjólsæll og ekki of sólríkur geymslustaður. Sífelldur sveljandi reynir mjög á plasthjúpinn auk þess sem skjól getur ýtt undir það að snjór skýli böggum á vetri.
13. Hey verkað í útstæðu. Hröð og hæfileg forþurrkun (35-38% þe.), söxun heysins og síðan vönduð og mikil þjöppun heysins þannig að sem allra minnst súrefni verði eftir í því. Virkt hjálparefni bætir verkurin heysins oftast og síðan frágangur stæðu og hjúps um hana sem engu lofti leyfir aðgang að heyinu.
14. Kostnaður - Hagkvæmni. Leiða reglulega hugann að því sem verða má til þess að auka hagkvæmni eigin heyöflunar: Hvernig má hafa stjórn á breytilegum og föstum kostnaði við heyskapinn? Hvar fellur til beinn og óbeinn kostnaður? Markvisst og endurtekið mat á þessum liðum skilar sér í bættum búrekstri.
15. Snyrtimennska - búmenning. Fátt er fallegra en vel slegið og hirt tún síðsumars þar sem útihúsin hafa selskap af lítt áberandi en listlega settum heystæðum í þeim mæli sem heyin eru ekki geymt innan dyra.
bpb/okg