Yfirlýsing

Vegna greinar sem birtist á vefmiðlinum Hestafréttum þann 5. janúar síðastliðinn og ber titillinn „algjör óvissa um framtíð hrossaræktarráðunauts“. 

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hóf starfsemi sína um áramótin 2012-2013. Fyrirtækið er ehf en að fullu í eigu Bændasamtaka íslands (BÍ) og sér meðal annars um ráðgjöf í hrossarækt, skýrsluhald og framkvæmd kynbótadóma í umboði BÍ.

Búnaðarþing tók ákvörðun um stofnun RML og þar með að öll ráðgjöf í landbúnaði færðist frá BÍ og búnaðarsamböndum yfir í hið nýja félag. Með þessu var starfsheitið landsráðunautur lagt niður. Hins vegar eru leiðtogar (ábyrgðarmenn) fyrir hverja búgrein, þannig tók landsráðunautur í hrossarækt (Guðlaugur Antonsson) við ábyrgð á hrossarækt í RML og sinnti því starfi allt síðasta ár. Guðlaugur óskaði eftir að fá ársleyfi hjá RML frá síðustu áramótum og var orðið við því. Yfirmaður búfjárræktarsviðs tekur því tímabundið við ábyrgðarmannshluverki í hrossarækt. Rétt er að geta þess að fjórir hrossaræktarráðunautar hafa síðastliðið ár starfað með ábyrgðarmanni hrossaræktar og munu þeir að sjálfsögðu starfa áfram að verkefnum á sviði hrossaræktar á landsvísu. Þegar framtíð Guðlaugs hjá RML liggur fyrir verður annað hvort ráðið í starfið eða hann kemur aftur til starfa. Ekki stendur til að leggja niður starf ábyrgðarmanns í hrossarækt og engin óvissa er um framtíð verkefna.

Fréttin er algjörlega úr lausu lofti gripin, hvorki var haft við samband  við undirrituð né Guðlaug Antonsson við vinnslu fréttarinnar. RML hefur starfað allt síðasta ár og verið rækilega kynnt og því ekki neitt dularfullt við félagið. Fagráði hrossaræktar er vel kunnugt um þessa skipan mála en þar sitja forsvarsmenn allra helstu hagsmunaaðila.

Við viljum fullvissa hestamenn um það að öllum verkefnum verður sinnt eins og áður. Eftir sameiningu ráðgjafarþjónustunar eru enn betri möguleikar til þess að takast á við þau stóru og mikilvægu verkefni sem eru innan hrossaræktarinnar. Hestamenn hafa, hjá RML, auk þess aðgengi að margs konar annarri ráðgjöf s.s. varðandi aðbúnað, bútækni, fóðrun og rekstur svo eitthvað sé nefnt.

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Fagstjóri búfjárræktarsviðs og ábyrgðarmaður hrossaræktar RML

Karvel Lindberg Karvelsson
Framkvæmdastjóri RML