Sýningargjald af kynbótahrossum á Landsmóti

Á Landsmóti 2016 á Hólum verður nauðsynlegt að innheimta sýningargjald af einstaklingssýndum kynbótahrossum á mótinu. Samningar hafa náðst á milli Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og Landsmóts ehf. um skiptingu kostnaðar við sýningar kynbótahrossa á mótinu og verður hægt að hafa þetta gjald nokkru lægra en á öðrum kynbótasýningum. Gjaldið mun því verða 11.500 kr. fyrir utan vsk., samtals 14.260 kr. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta er gert en það er nokkuð síðan gjald hefur verið innheimt af kynbótahrossum á Landsmóti. Um árabil voru teknar 500 kr. af hverju sýndu kynbótahrossi sem runnu í svokallaðan Landsmótssjóð sem átti að dekka kostnað við sýningar kynbótahrossa á mótunum. Þessar 500 kr. voru í fyrra látnar renna til reksturs kynbótasýninganna til að lágmarka hækkun á sýningargjöldum sem þá var nauðsynleg vegna rekstrarhalla á sýningunum. Þessi upphæð dugði heldur ekki að fullu til að reka sýningu kynbótahrossa á Landsmóti. Þess vegna gerist þess þörf núna að innheimta þetta gjald en ánægjulegt er engu að síður að niðurstaðan skuli vera lægra gjald en á öðrum kynbótasýningum.

þk/okg