Skeiðgenið - birting í WorldFeng

Nýjung hefur nú verið bætt inn í WorldFeng en það eru upplýsingar um arfgerð hrossa í DMRT3 erfðavísinum. Í DMRT3 erfðavísinum geta verið tvær samsætur, A og C, sem eru í raun tvær útgáfur af þessum erfðavísi og geta hross því borið þrjár mögulegar arfgerðir: AA, CA og CC. Vegna tengsla A samsætunnar við skeiðgetu hefur A samsætan verið kölluð skeiðgenið í daglegu tali. Rannsóknir hafa sýnt að DMRT3 er stórvirkur erfðavísir sem hefur mikil áhrif á hreyfingar hrossa og líklega sá erfðavísir sem hefur einn og sér mest áhrif á ganghæfni hrossa.

Áhrif arfgerðanna
AA arfgerðin er forsenda skeiðgetu og hross sem hafa að lágmarki 7.0 í einkunn fyrir skeið í kynbótadómi eru örugglega AA hross. AA arfgerðin hefur einnig jákvæð áhrif á getu hrossa á tölti og niðurstöður rannsókna gefa til kynna að tölt sé AA hrossum eðlislægara en öðrum hrossum. CA arfgerðin hefur aftur á móti jákvæð áhrif á grunn gangtegundirnar: fet, brokk og stökk, þar sem CA hross eru oftar takthrein og svifmikil á brokki og stökki, samanborið við AA hross. Minnsti hluti íslenska hrossastofnsins eru hross sem bera CC arfgerðina en ræktendur vilja væntanlega flestir forðast að rækta CC hross vegna þess hversu gangtreg þau eru flest og þar af leiðandi tímafrekara að gera úr þeim eftirsóknarverð reiðhross.

Arfgerðargreining
Upplýsingar um DMRT3 arfgerð hrossa birtist á grunnsíðu hvers hests. Ef búið er að arfgerðagreina hrossið birtist eftirfarandi táknmynd í bláum lit en upplýsingar um 672 arfgerðargreind hross eru nú þegar komnar inn í WorldFeng:

Arfgerðarspá
Nú er hægt að meta líkur margra hrossa á DMRT3 arfgerð, útfrá ætterni og dómum á skeiði og brokki. Við vitum t.d. með miklu öryggi að ef hrossið er með 7.0 eða hærra fyrir skeið eða undan alhliða hrossum þá er hrossið arfhreint fyrir skeiðgeninu (AA arfgerð). Þorvaldur Árnason hefur reiknað líkur allra hross í Worldfeng á DMRT3 arfgerðinni og arfgerð þeirra hrossa sem hægt er að meta með 100% öryggi birtist í Worldfeng. Ef um arfgerðarspá er að ræða birtist eftirfarandi táknmynd í ljósum lit en upplýsingar um tæplega 85 þúsund hross eru nú þegar komnar inn í WorldFeng:

Ljóst er að mörg klárhross þarf að arfgerðargreina til að vera viss um arfgerðina, þar sem þau eru blandaður hópur af AA, CA eða CC hrossum (meirihluti þeirra er CA hross). Þetta er í raun nauðsynlegt að gera. Í fyrsta lagi getur verið áhugavert að nota CA hross í ræktun ef ætlunin er t.d. að skapa úrvals keppnishross í fjórgangi, í ljósi hinna jákvæðu áhrifa CA arfgerðarinnar á grunn gangtegundirnar. Í öðru lagi vilja væntanlega flestir forðast að para saman tvö CA hross, vegna þess að þá eru 25% líkur á CC hrossi sem er væntanlega gangtregt og dýrt í tamningu vegna þess tíma sem það tekur að gangsetja það eins og fram hefur komið. Ef ræktendur eru með klárhryssur í ræktun er afar áhugavert fyrir þá að vita með vissu arfgerð hryssnanna og mun það leiða til nákvæmari paranna. Einnig er áhugavert fyrir eigendur stóðhesta sem eru klárhestar að upplýsa ræktendur um arfgerð þeirra. Arfgerðargreining á klárhrossum ætti í raun að verða venjubundinn hluti af starfi ræktenda.

Rétt er að benda á að í “Valpörunum” í WorldFeng eru líkindi á DMRT3 arfgerð allra hrossa birt þar sem hægt er að reikna líkurnar á þessari arfgerð en með mismunandi öryggi. Sú spá sem birtist á grunnsíðu hvers hross er eingöngu birt sé um 100% öryggi á spánni að ræða eins og nefnt hefur verið.

Arfgerð óþekkt
Ef DMRT3 arfgerð hestsins er óþekkt, þ.e. ekki hægt að spá fyrir um arfgerðina með 100% öryggi, birtist eftirfarandi táknmynd í WorldFeng:

Með birtingu þessar upplýsinga vita nú hrossaræktendur hvaða hross þarf að arfgerðargreina. Það er hægt að spá fyrir um arfgerð sumra klárhrossa með tölti með 100% öryggi út frá dómum skyldra hrossa. Önnur klárhross með tölti sem á að nota til ræktunar ætti að arfgerðargreina, þar sem upplýsingar um arfgerð þeirra getur haft mikil áhrif á þá ákvörðun sem tekin er um pörun þeirra. Það hefur verið sýnt fram á að 1 af hverjum 10 hrossum sem hefur 100% öryggi á spánni eru engu að síður með ranga spá en það getur verið vegna rangra ættfærslna eða óöryggis í spá um arfgerð hrossa sem sýnd eru sem klárhross. Þetta hlutfall mun lækka er upplýsingar um fleiri arfgerðargreind hross liggja fyrir. Vegna þessa er mælt með því að afgerðargreina öll klárhross.

Nánari upplýsingar
Þegar smellt er á táknmyndina í WorldFeng birtist texti með útskýringum á táknmyndinni og áhrifum skeiðgensins á ganghæfni íslenskra hrossa. Þar er hlekkur inn á grein sem birtist í Journal of Animal Breeding and Genetics eftir undirritaðan og fleiri sem fjallar um rannsókn sem höfundar framkvæmdu á áhrifum skeiðgensins á ganghæfni íslenskra hrossa. Einnig er hlekkur inn á heimasíðu Capilet Genetics sem er sænskt fyrirtæki sem á einkaleyfi á arfgerðargreiningum fyrir DMRT3 erfðavísinum en þar er einnig að finna frekari upplýsingar um DMRT3 erfðavísinn. Matís er það fyrirtæki sem framkvæmir þessar arfgerðargreiningar hér á landi. Nú hefur verið nokkuð dýrt að arfgerðagreina fyrir DMRT3 erfðavísinum þar sem Capilet Genetics innheimtir ákveðið gjald af hverri arfgerðargreiningu. Samningar hafa nú náðst við Capilet Genetics um afslátt af þeirra gjaldi og verður innan skamms kynnt lægra verð til handa hrossaræktendum á Íslandi.

Þorvaldur Kristjánsson, ábyrgðarmaður hrossaræktar.

þk/okg