Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Í ljósi nýlegrar umræðu um breytingar á kynbótadómum, sem voru samþykktar á FEIF-þingi í vetur, er rétt að árétta nokkur atriði. Það er að sjálfsögðu um að gera að fara vel yfir þessar breytingar og kynna þær sem best. Greinar hafa t.d. birst um efnið, ein slík er aðgengileg inn á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og er linkur inn á hana neðst í þessum pistli.
Stökk. Í fyrsta lagi hvað varðar stökk í nýjum skala er ekki farið fram á að sýnt sé bæði vinstra og hægra stökk. Tekið er fram að sýning á hægra og vinstra stökki geti haft jákvæð áhrif á einkunnagjöfina, sé það vel framkvæmt af hestinum, en það er alls ekki krafa. Það er í raun ekkert nýtt í sýningu á hægu og greiðu stökki. Breytingin felst í að búið er að skilgreina hægt stökk sem sér eiginleika og hafa því hægt og greitt stökk nú sitt hvort vægið í aðaleinkunn. Það hefur einmitt verið kallað eftir því að hægu stökki sé gefin meiri gaumur í ræktunarkerfinu. Önnur breyting er að nú erum við með ítarlegri dómskala fyrir hægt (og greitt) stökk en dómskalinn fyrir hægt stökk var fremur haldlítill fyrir. Þetta mun vonandi bæta mat á stökki og samræma það enn frekar milli dómnefnda.
Tölt. Í nýjum dómskala er ekki farið fram á að sýnd sé gangskiptingin fet – hægt tölt – fet. Það sem er talað um í nýjum skala er hins vegar að fyrir hinar hærri einkunnir fyrir hægt tölt (9,0 eða hærra) þurfi hesturinn að geta gengið upp í jafnvægisgott hægt tölt af feti. Sýnandinn getur riðið hestinum upp í hægt tölt í aðdraganda 150 eða 100 metra kafla brautarinnar (eftir því hvað hann vill sýna langan kafla á hægu tölti). Gangskiptingin fet – hægt tölt þarf því ekki að gerast fyrir framan dómpallinn, enda er ekki verið að meta gangskiptinguna sem slíka, heldur gæði hæga töltsins þegar það er sýnt á þennan veg. Þetta er afar gott mat á gæðum töltsins; hreinleika þess og mýkt og ekki síður á eðlisfótaburði og fjaðurmagni. Meiri áhersla er á fjaðurmagn á hægri ferð í nýjum dómskala sem við teljum að sé til framdráttar. Þá getur hesturinn fengið 9,0 fyrir tölt út án þess að sýna hæga töltið á þennan veg, enda nóg að vera með 8,5 (fjögurra vetra hross: 8,0) fyrir hægt tölt til að geta fengið 9,0 fyrir tölt.
Hvað töltið varðar þá er rétt að til þess að hljóta einkunn upp á 9,0 eða hærra fyrir tölt sé gerð krafa um að sýndar séu hraðabreytingar (þ.e. greinileg uppkeyrsla og/eða niðurhæging) og að sýnt sé fram á að hesturinn haldi jafnvægi á gangtegundinni þegar greinilega losað er um tauminn. Þetta er afar gott próf á hvort hesturinn sé í jafnvægi á tölti og sjálfberandi og verður vonandi eitt af þeim atriðum sem hjálpar okkar að rækta aðgengileg reiðhross fyrir þann breiða hóp fólks sem nýtur reiðhestskosta íslenska hestsins. Þessi verkefni, séu þau vel framkvæmd, geta að auki vegið til hækkunar á einkunnum neðar í skalanum. Í sambandi við verkefnið að losa um tauminn er farið fram á að losað sé alveg um taumsamband í 3 sekúndur (taumur gefinn fram); að það sé næg prufa á það hversu sjálfberandi hesturinn er.
Kynningar og samtal um breytingarnar. Hvað varðar þennan þátt vinnunnar má að sjálfsögðu alltaf gera betur. Ég tel þó að reynt hafi verið að hafa þetta samtal við ræktendur opið á meðan vinnunni stóð og að ferlið nú hafi líklega aldrei verið opnara. Þessi vinna við breytingarnar á dómkerfinu hófst formlega árið 2016 með afar vel sóttri og skemmtilegri ráðstefnu í Spretti. Þar var farið yfir dómkerfið í heild sinni, fólki skipt upp í vinnuhópa þar sem efnið var rætt og umræðan í hverjum hópi kynnt í lokin. Sú hugmyndavinna sem þar fór fram með hestafólki og ræktendum var árangursrík og nýttist vel við vinnuna sem í hönd fór. Þá voru síðan haldnir árlegir fundir um allt land þar sem vinnan var kynnt á því stigi sem hún var hverju sinni og fundarfólk beðið um að láta í ljósi skoðanir sínar á henni. Haldnir voru tveir sérstakir vinnufundir með ræktendum og hestafólki árið 2018, bæði á Selfossi og Sauðárkróki, þar sem fólki var skipt í vinnuhópa og ýmis atriði dómskalans og framkvæmd dóma voru rædd. Á síðastliðnum tveimur árum hafa verið haldnir yfir 20 fundir þar sem vinnan við dómkerfið hefur verið rædd. Þá hafa ýmis atriði dómskalans verið rædd á flestum, ef ekki öllum, aðalfundum Félags hrossabænda á meðan vinnunni stóð. Öll sú fjölþætta umræða sem hefur farið fram á þessum fundum hefur nýst afar vel og afar margt ratað inn í dómskalann. Þá má að lokum nefna að í byrjun febrúar 2019 var allt efnið (uppfærð ræktunarmarkmið, uppkast að nýjum dómskala og vægistuðlum eiginleikanna) sent á formenn allra hrossaræktarsambanda um landið. Þeir voru beðnir um að kynna þetta og ræða eins og þeir teldu best í sínum ranni og koma með tillögur að betrumbótum. Ég tel einmitt að samtal ræktenda og þeirra sem koma að dómkerfinu sé gott og öllum tillögum að betrumbótum sé tekið af opnum huga.
Þó nú sé komið fram með ákveðnar breytingar á dómkerfinu heldur þessi vinna við þróun dómkerfisins að sjálfsögðu áfram. Það er ekki búið að loka á eitt né neitt til framtíðar og lykillinn að framtíðinni er opin og frjó hugsun allra þeirra sem koma að ræktunarmálum íslenska hestsins; hvort sem það eru ræktendur, sýnendur eða dómarar. Þegar kemur að ræktun hestsins, og sköpun almennt, er aldrei neitt fullgert en það er einmitt það sem gerir alla þessa vinnu svo spennandi.
Sveinn Steinarsson
Þorvaldur Kristjánsson
Sjá meira:
Grein um nýjungar í dómskalanum
/okg