Kynbótasýningar 2022 - sýningaráætlun

Hér að neðan er áætlun fyrir kynbótasýningar árið 2022. Áætlunin er birt með fyrirvara um breytingar sem alltaf geta orðið. Við horfum bjartsýn fram á veginn og reiknum með góðri þátttöku og vonum að sýningarvikurnar nýtist sem best. Það er nokkuð ljóst að mikil eftirvænting ríkir meðal hestamanna fyrir landsmóti á Gaddstaðaflötum dagana 3. til 10. júlí. Opnað verður á skráningar um mánaðamótin apríl/maí en það verður kynnt frekar þegar nær dregur.

Rétt er að minna á eftirfarandi:

Hryssur og geldingar sem mæta til dóms þurfa að hafa staðfestingu á því í WF að búið sé að taka DNA sýni úr þeim til ætternisgreiningar.

Allir stóðhestar verða að vera DNA greindir svo og foreldrar þeirra.

Úr öllum stóðhestum fimm vetra og eldri þarf að taka blóðsýni og það þarf að vera skráð í WF. Það er ekki nóg að búið sé að taka stroksýni.

Röntgenmynda skal hækilliði allra stóðhesta sem náð hafa fimm vetra aldri og niðurstöður skráðar í WF.

Best er að huga að þessum atriðum sem fyrst svo þetta sé allt frágengið áður en kemur að því að skrá hross til sýningar. Röntgenmyndir er heimilt að taka af hestunum hvenær sem er á því ári sem fimm vetra aldri er náð. Starfsmenn RML geta tekið stroksýni en dýralæknar verða að taka blóðsýni og röntgenmyndir. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu RML.

Sjá nánar: 
Kynbótasýningar

/okg