Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Kynbótasýningar hefjast fljótlega á Íslandi en boðið verður upp á 15 sýningar í ár víðs vegar um landið fyrir utan Fjórðungsmót Austurlands sem haldið verður að þessu sinni í Hornafirðinum. Heimsmeistaramót íslenska hestsins verður haldið í Berlín dagana 4. – 11. ágúst. Stefnt er að því að 6 kynbótahross fari fyrir hönd Íslands á mótið eins og verið hefur, í flokka stóðhesta og hryssna; fimm, sex og sjö vetra og eldri. Val kynbótahrossa á HM verður að liggja fyrir 1. júlí í ár og verður því valið úr kynbótahrossum sem sýnd verða á sýningum á undan þeirri dagsetningu. Sýningaráætlun ársins og allar reglur um kynbótasýningar má finna hér á vefnum. Hérna er ætlunin að fara yfir val kynbótahrossa inn á Fjórðungsmótið og einnig nokkur atriði er varða kynbótadómana.
Fjórðungsmót á Austurlandi
Fjórðungsmót verður haldið í Hornafirðinum í ár, nánar tiltekið á Fornustekkum, félagssvæði Hornfirðings, dagana 11. – 14. júlí. Hross sem eru í eigu aðila á Austurlandi, Eyjafirði og Þingeyjarsýslum en einnig á suðurlandi vestur að Þjórsá eiga þáttökurétt á mótinu og er miðað við að lágmarki 25% eignarhlut. Það er því mikilvægt að eigendur kynbótahrossa fari yfir upplýsingar um heimilisfang sitt í heimaréttinni í WorldFeng en það er hægt að lagfæra þær upplýsingar í flipanum Um mig í heimaréttinni ef þær eru ekki réttar. Ef hross skiptir um eiganda í vor verða eigendaskiptin að hafa farið fram fyrir kynbótadóm á viðkomandi hrossi. Ákveðin fjöldi efstu hrossa í hverjum flokki eiga þátttökurétt á mótinu og er miðað við að 46 kynbótahross verði á mótinu. Til að auðvelda bestu klárhrossum með tölti að komast inn á mótið verður 10 stigum bætt við aðaleinkunn klárhrossa í sætisröðun hrossa inn á mótið. Þetta er sama leið og var farin fyrir síðasta landsmót hvað klárhrossin varðar. Þegar kynbótasýningarnar byrja á Íslandi verður birtur stöðulisti í WorldFeng sem sýnir hvaða hross eru inni á mótinu hverju sinni. Ef fleiri en eitt hross eru jöfn í síðasta sæti inn á mótið þá er þeim öllum heimil þátttaka á mótinu. Eigendur hrossa sem vinna sér þátttökurétt á mótinu en ætla sér ekki að mæta með þau af einhverjum ástæðum er beðnir að láta vita fyrir 25. júní, þannig að hægt sé að bjóða hrossum sem eru neðar á listanum þátttöku á mótinu.
Fjöldi kynbótahrossa á FM 2019:
4 vetra | 5 vetra | 6 vetra | 7 v. og eldri | Samtals | |
Stóðhestar | 5 | 6 | 5 | 5 | 21 |
Hryssur | 5 | 8 | 7 | 5 | 25 |
Ný vinnuregla við kynbótadóma
Ný vinnuregla við kynbótadóma tekur gildi í vor og á hún við dóma á vilja og geðslagi en frá og með vorinu verður bæði hægt að hækka og lækka einkunnir fyrir vilja og geðslag á yfirlitssýningum. Þetta er að sjálfsögðu eini eiginleiki reiðhestskostanna sem þetta á við en annars eru einkunnir einungis til hækkunar á yfirlitssýningum. Hvað varðar lækkun á einkunn fyrir vilja og geðslag er dómurum það leyfilegt ef hesturinn sýnir augljós merki um óþjálni, ofríki, spennu eða viðkvæmni. Þessi breyting var samþykkt á ræktunarleiðtogafundi FEIF landanna nú í febrúar en sjálfsagt þykir að hafa þessa heimild ef hesturinn sýnir neikvæða þætti þessa eiginleika sem ekki komu fram við sýningu í dómi þar sem hann var einn í brautinni. Enda er íslenska hestinum riðið bæði einum og í samreið. Er þessi breyting gerð til að tryggja betur að einkunnir fyrir vilja og geðslag endurspegli frammistöðu hestsins í gegnum alla sýninguna og er því mati á þessum eiginleika ekki lokið fyrr en að yfirlitssýningu lokinni.
Þá er áfram í gildi eftirfarandi vinnuregla sem snýr að vilja og geðslagi:
Til að bæta mat á samstarfsvilja og þjálni skal, fyrir hærri einkunnir fyrir vilja og geðslag, horft til þess að hrossið sé hægt niður á fet í viðsnúningum á brautarendum. Ef ekki er hægt að hægja hrossið niður og snúa við innan afmörkunar brautarinnar, þá er 8.0 hámarks einkunn fyrir vilja og geðslag. Þó má gera undantekningu þegar um sýningu á mjög greiðu stökki og skeiði er að ræða svo fremi að niðurhægingin sé mjúk og átakalaus. Hverfi hross úr sjónsviði dómara eða sýnir mikla óþjálni er 7.0 hámarkseinkunn fyrir vilja og geðslag. Til að hljóta hækkun fyrir vilja og geðslag á yfirlitssýningu þarf að sýna greinilega fram á að hægt sé að hægja hrossið mjúkt og átakalaust niður innan afmörkunar brautarinnar.
Ástæðan fyrir þessari reglu er sú að gera dómnefndum betur kleift að sjá þegar hrossið er hægt niður í enda brautar og snúið við en það er mikilvægt við mat á þjálni. Ef hrossinu er riðið lengra en afmörkun brautarinnar sjá dómarar ekki niðurhægingar og viðsnúninga nægilega vel og takmarkar því mat á þjálni hestsins. Þá er það að sjálfsögðu merki um óþjálni ef ekki er hægt að hægja hrossið niður og snúa við innan brautar. Hámarkseinkunn er því sett sem 8.00 sé hrossinu riðið út fyrir afmörkun brautar. Undantekningu má gera á þessari reglu ef hrossinu er riðið til mikilla afkasta á skeiði og stökki. Það er gert til að bjóða afrekshrossum, ungum sem eldri, möguleika á hestvænum niðurhægingum. En það er að því gefnu að hraðinn sé afar mikill og niðurhægingin eigi sér að mestu stað innan brautar. Þá er það merki um þjálan og mikinn vilja ef hægt er að hægja niður á fet á flestum gangtegundum í enda brautar og spinna hrossið upp til afkasta endurtekið í plús og mínus átt hestsins. Það skal því horft til þess ef hinar hærri einkunnir fyrir vilja og geðslag eru gefnar.
Mat á hófum
Mat á hófum hefur verið að þróast á síðastliðnum árum og hefur verið að færast til þeirrar áttar að verðlauna í ríkara mæli form hófsins og rétt hlutföll innan hófsins; þætti er stuðla að heilbrigði og réttu álagi. Það hefur verið lögð áhersla á það í gegnum tíðina að hælarnir séu ekki of lágir og/eða slútandi og að hófarnir séu ekki útflenntir. Nú á að leggja einnig ríkari áherslu á það að hælarnir séu ekki of háir og/eða of brattir enda veldur það of miklu álagi á aftanverðan hófinn og fótinn. Miðað er við að það sé sami halli á kjúku og hóf. Einnig er hugmyndin að taka betur á of þröngum hófum enda eru það hófar sem taka ekki nægilega vel við álagi og virka ekki nægilega vel til að dempa þau högg sem hesturinn verður fyrir við snertingu hófsins við jörðina. Hugmyndin er að matið byggist meira á þessum þáttum en dýpt hófsins en fer dýpt hans að mestu eftir því hversu vaxinn hófurinn er. Byrjað var að horfa til þessa breytta mats á hófum í fyrra og það er stefnan að halda áfram á þessari braut.
Þessu tengt hefur lengi verið við lýði sú regla að hófar skulu ekki vera málaðir eða klístraðir (t.d. ólíubornir) í byggingardómi. Ætlunin er að fylgja þessu betur eftir í ár enda byrgir það dómurum nægilega góða sýn á hófinn.
Þá mun fara fram í ár gagnasöfnun á þáttum er tengjast hóf hestsins en ætlunin er að mæla, fyrir utan tálengd hófsins eins og verið hefur, einnig breidd hófsins um hófhvarf, breidd hófsins niðri við skeifu og að lokum lengd hælsins. Þetta er gert til að safna tölulegum upplýsingum um form hófsins til að vinna með næsta vetur en þessar mælingar munu ekki hafa áhrif á matið á hófum enn sem komið er. Þetta ætti ekki að bæta miklum tíma við mælingar hestsins og verður spennandi að skoða þessar mælingar eftir sumarið.
Sýningarárið 2019 og ekki síst Fjórðungsmót Austurlands og Heimsmeistaramótið er sannkallað tilhlökkunarefni og væntum við hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins góðs samstarfs við hrossaræktendur og sýnendur nú í vor sem endranær.
Sjá nánar:
Upplýsingar um kynbótasýningar
þk/okg