Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Undanfarið hefur verið töluverð umfjöllun um störf starfshóps um hestanöfn á íslenskum fréttamiðlum og einstakar ákvarðanir hans. Til að gefa hestamönnum meiri innsýn inn í störf nafnahópsins og þýðingu fyrir markaðsetningu íslenska hestsins langar okkur að koma eftirfarandi á framfæri.
Allt frá því að útflutningur á hrossum frá Íslandi hófst, hafa reiðhross frá Íslandi fengið að halda sínum íslensku nöfnum á erlendri grund. Samhliða því skapaðist sú góða hefð að hestar fæddir erlendis hafa ávallt verið nefndir íslenskum hestanöfnum.
Fyrir tuttugu árum þegar upprunaættbókin WorldFengur, var formlega tekin í notkun, á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Austurríki, voru engin viðmið varðandi hestanöfn til staðar. Að vísu var að finna klausu í regluverki FEIF um að hross sem væru skráð í WorldFeng ættu að bera hestanafn samkvæmt íslenskri nafnahefð. Aðildarlönd FEIF voru misvel í stakk búin til að fylgja reglunni við nafnaskráningar hrossa og því var ritháttur fjölda hestanafna mjög breytilegur og töluvert um stafsetningarvillur eða að erlend nöfn væru skráð í WorldFeng. Dæmi eru um að sama nafnið væri ritað á fjóra til fimm mismunandi vegu, þó að aðeins einn viðurkenndur íslenskur ritháttur væri til staðar. Einnig bar nokkuð á því að nöfn væru ekki notuð rétt samkvæmt íslenskri málhefð, til dæmis stóðhestar með hryssunöfn og öfugt. Með tilkomu „nafnabankans“ hefur tekist að samræma rithátt og aðrar skráningar á nöfnum hrossa í WorldFeng.
Árið 2016 var samþykkt á aðalfundi Alþjóðasamtaka íslenska hestsins (FEIF) að hross sem eru skráð í upprunaættbók WorldFengs ættu að bera íslensk hestanöfn. Fyrstu nafnareglur tóku gildi þann 1. apríl 2017. Rétt er að geta þess að aðildarlönd FEIF eru 22 talsins og fulltrúi frá hverju landi greiðir atkvæði um reglusetningar og breytingar þeirra. Núverandi hestanafnareglur má finna í WorldFeng í vinstri stiku undir „Nafnabanki“.
Ákvarðanir starfshóps um hestanöfn eru gjarnan bornar saman við reglur og ákvarðanir mannanafnanefndar. Í því samhengi er rétt að geta þess að sú nefnd starfar samkvæmt öðrum nafnareglum en starfshópur um hestanöfn. Megininntak hestanafnareglna er að fylgja þeirri hefð að nöfn sem skráð eru í ættbókina skuli vera á íslensku; kvenkyns fyrir hryssur og karlkyns fyrir hesta. Þegar nöfnum er hafnað er það í langflestum tilvikum vegna þess að ekki er hægt að finna neina tengingu við íslenskt mál eða þá að um hvorukynsorð er að ræða.
Í dag eru 10.200 samþykkt nöfn í nafnabankanum sem flest hafa orðaskýringar á íslensku, ensku, og þýsku, auk þess sem franskar orðskýringar eru í vinnslu. Þá er hægt að leita eftir einstökum orðum í orðaskýringum nafnanna á öllum þremur tungumálunum. Hljóðskrár fylgja mörgum nöfnum og að auki eru nöfnin flokkuð eftir merkingu í 17 flokka til að auðvelda hestamönnum að finna rétta nafnið á hrossið sitt. Ef nafn finnst ekki á hestanafnalistanum er hægt að senda inn tillögu um nýnefni sem lendir á borði starfshóps um hestanöfn. Samræmist nafn, sem sótt er um, nafnareglum WorldFengs, er það skráð inn á hestanafnalistann ásamt viðeigandi skýringum.
Íslenskt hestanafn hefur bæði menningarlegt og markaðslegt gildi fyrir íslenska hestinn. Það er því bæði mikilvægt og ánægjulegt að lönd sem rækta íslensk hross, hvar sem er í heiminum, skuli standa með nafnareglunni. Hestamenn geta kallað hrossin sín hvaða nafni sem er, en þegar hrossin eru skráð í upprunaættbókina WorldFeng skal skrá þau með íslenskum hestanöfnum samkvæmt nafnareglum FEIF.
Sem betur fer fylgja flestir hestaeigendur nafnareglum og skilja mikilvægi þeirra þannig að nöfn eins og Arwen, Bronco, Clinton, Mustang, My Lady, Nágranni-Ljón átta-sjö, Pocahonta, Raven-Flóki eða Wotan ættu ekki að fyrirfinnast í upprunaættbók íslenska hestins.
Nokkur dæmi um nöfn sem hefur verið hafnað:
Hvorugkynsorð: Apótek, Apparat, Dýnamít, Dómínó, Fiðrildi, Fjör, Granít, Heljargljúfur, Hjarta, Írafár, Kirsuber, Koníak, Leiðarljós, Lerki, Leyndarmál ofl.
Ekki íslenska: Panther, Mithrandir, Lovely, Lord Mason, Kopernika, Ranumi, Jaade, Jotne, Izmir, Idawen, Hvide, Hiromi, Heidewitzka, Harlequin, Grazia, Ganymed, Froshi, Euphoria, Deijanira, D´artagnan, Caesar, Berenice, Bahia, Avicii, Attica og svo mætti lengi telja.
Starfshópur um hestanöfn