Sæðingaappið FANG komið í notkun í Eyjafirði og S-Þing.

Sæðingaappið eða smáforritið FANG hefur verið tekið í notkun í Eyjafirði og S-Þing. Með forritinu geta bændur pantað sæðingar hvenær sem er sólarhringsins í farsíma, spjaldtölvu og/eða borðtölvu. FANG keyrir sem app á Android-símum en notendur iPhone geta notað vefútgáfu forritsins. Forritið er tiltölulega einfalt í notkun en hægt er að skoða leiðbeiningar hér á síðunni. 

Markmiðið er að þetta sé notendavænt og auðveldi pantanir á sæðingum og skráningum fyrir frjótækna. Þá er einnig markmið að minnka allar handskriftir sem hafa fylgt okkar núverandi kerfi síðustu áratugina og á sama tíma takmarka og helst útiloka villur sem hafa átt sér stað, ásamt því að gera störf frjótækna skilvirkari. Ávinningur þessa smáforrits (apps) er margþættur fyrir bændur og frjótækna og vonumst við eftir að sem flestir tileinki sér notkun þess.

Skráningar á sæðingum í FANG forritinu uppfærast jafnóðum í Huppu. Pöntunum sem berast í gegnum FANG fram til kl. 9.30 verður sinnt samdægurs en pantanir eftir kl. 9.30 færast á næsta dag. Fyrst um sinn verður símatími frjótækna í Eyjafirði og S-Þing óbreyttur.

Mjög mikilvægt er að notendur sendi eða komi á framfæri athugasemdum þegar kemur að notkun á appinu ef einhverjar eru. Athugasemdum má koma til frjótækna, Búnaðarsambands Eyjafjarðar eða RML.

Kefið verður til að byrja með einungis í notkun í Eyjafirði og S-Þing. en verður svo innleitt á fleiri svæðum í kjölfarið þegar prófunum lýkur.

Hér fyrir neðan er hlekkur á leiðbeiningar um notkun kerfisins og þar er að finna hlekki til þess að sækja forritið, bæði Android og vefútgáfu.

Sjá nánar:

FANG: Leiðbeiningar